Spurt og svarað

no image

Í ljósi áhuga fólks á vefnum okkar og tilurð hans tókum við saman nokkrar spurningar og svör fyrir okkar sívaxandi notendahóp.

Hvernig varð Minningar.is til og hverjir standa á bakvið vefinn?

Hugmyndin að Minningar.is fæddist hjá þremur nemendum í B.S.-námi í hugbúnaðarverkfræði við HR, en grunninn að vefnum unnu þeir sem lokaverkefni vorið 2021. Í kjölfarið langaði þá að taka verkefnið lengra og finna leið til að opna þjónustu á netinu í tengslum við andlát og minningar. Englafjárfestingafélagið Tennin ehf. gerðist bakhjarl verkefnisins og stofnaði um það félagið Minningar ehf. Við fjöllum nánar um verkefnið og þá sem koma að því á síðunni Um okkur.

Hvers vegna bjuggum við til sérstakan vef fyrir andlát og minningargreinar?

Hugsjónin á bakvið Minningar.is er að auðvelda fólki að varðveita minningu látins ástvinar í öruggu og aðgengilegu umhverfi á netinu. Með öllum þeim möguleikum og nýjungum sem felast í stafrænni umbreytingu er almenningur nú farinn að nálgast fréttir og upplýsingar á nýjan hátt. Þess vegna vildum við bjóða fólki upp á nýjan valkost þegar kemur að því að tilkynna andlát, útfarir og þakkir og skrifa minningargreinar. Við lítum svo á að með því að færa möguleika fólks til að skrifa um þá sem látast til nútímans séum við að brúa ákveðið kynslóðabil og blása nýju lífi í þessa fallegu, séríslensku hefð. Þar höfum við ekki síst í huga möguleika fólks og fræðimanna í framtíðinni til að kynnast lífi horfinna kynslóða, forfeðra sinna og -mæðra.

Hvað er minningarsíða og hvernig virkar hún?

Minningarsíða um látinn einstakling er algjörlega ný þjónusta, sérstaklega þróuð fyrir almenning á Íslandi. Ef um nýlegt andlát er að ræða er algengast að aðstandendur byrji á að tilkynna andlát, en við það verður einnig til minningarsíða sem hægt er að bjóða öðrum að skoða, setja minningargreinar við eða senda kveðju. Til að tilkynna andlát þarf eingöngu nafn, fæðingardagur og dánardagur að liggja fyrir, en einnig má setja inn mynd, upplýsingar um aðstandendur og æviágrip ef það liggur fyrir á þeirri stundu. Ef búið er að ákveða stað og stund útfarar má tilkynna hana samhliða andlátinu. Einnig er hægt að tilkynna hana síðar. Andlátstilkynningu, útfarartilkynningu og þakkartilkynningu má á einfaldan hátt deila sem fallegu spjaldi á samfélagsmiðlum. Þegar lengra er liðið frá andláti er fyrsta skrefið að stofna minningarsíðu um hina látnu manneskju.

Þjónustan á Minningar.is er gjaldfrjáls fyrir almenning. Hvers vegna?

Minningar.is er verkefni sem var sett á fót í kærleiksríkum tilgangi. Með þeirri fjármögnun sem við fengum gátum við gert vefinn að gjöf til íslensku þjóðarinnar. 

Hvers vegna þarf ég ekki að samþykkja notkun á vafrakökum á Minningar.is?

Vefurinn notast ekki við neinar vafrakökur sem krefjast samþykkis. Við mælum hvaða vefsíður er verið að skoða, hvaðan notendur koma og hvað skoðað er í hverri heimsókn. Það er gert án þess að nota vafrakökur og með nálgun sem tryggir að ekki er hægt að fylgjast með notkun tiltekins notanda á ólíkum dögum.

Vantar þig aðstoð?

Ef spurningar vakna er velkomið að skrifa okkur. Hafðu endilega samband á minningar@minningar.is og við svörum eins fljótt og auðið er.