no image

Fylgja minningarsíðu

Valgerður Björnsdóttir

Fylgja minningarsíðu

30. maí 1953 - 18. apríl 2022

Andlátstilkynning

Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir og amma, Valgerður Björnsdóttir Steinum, Stafholtstungum lést 18. apríl 2022 á Landspítalanum.

Útför

30. apríl 2022 - kl. 16:00

Útför hefur farið fram.

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Jóhann Oddsson, Jónína L. Jóhannsdóttir, Bernhard Þ. Bernhardsson, Oddur. B. Jóhannsson, Eva K. Þórðardóttir, Guðmundur St. Jóhannsson, Sigurrós M. Sigurbjörnsdóttir & barnabörn

Þakkir

Aðstandendur þakka innilega fyrir sýnda samúð og vinarhug.

Valgerður Björnsdóttir

Mér hefur sjaldan brugðið meir en þegar Oddur Björn bróðursonur minn hringdi í mig síðdegis laugardaginn 16. apríl og sagði mér að móðir sín (mágkona mín) hefði fengið alvarlegt tilfelli blæðingar í heila og útlitið væri mjög erfitt. Á slíkum augnablikum þarf maður tíma til að átta sig á því hvað raunverulega hafi gerst. Hún var í fermingarveislu hjá dótturdóttur minni á skírdag, tveimur sólarhringum fyrr, og ekkert benti þá til þess að hún væri ekki eins og hún var vanalega.Við svo snögg og óvænt umskipti stöðvast tíminn, maður þarf ákveðið svigrúm til að átta sig á aðstæðum.Margs mætti minnast á langri vegferð. Sagt er að móðureðlið sé sterkasta einkenni konunnar, það kom best í ljós þegar Hannes sonur þeirra veiktist alvarlega í frumbernsku og var fatlaður til æviloka. Þar hófst barátta fyrir velferð hans og oft var á brattann að sækja en uppgjöf var aldrei í huga. Þar var algjör samstaða að veita honum alla þá umhyggju sem hægt var.Valgerður var mikil félagsmálamanneskja og tók þátt í margs konar félagsstarfsemi, m.a. kvenfélagi og einnig var hún virk í Þroskahjálp á Vesturlandi. Nú blasir sú staðreynd við bróður mínum eins og mér áður fyrr að þær eru báðar farnar, eftir stöndum við, því verður ekki breytt. Áfram skal haldið þrátt fyrir óvænt áföll, annað er ekki í boði. Ég kveð mágkonu mína með virðingu og þökk fyrir allt.Samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni.

Bæta við leslista

Valgerður Björnsdóttir

Þegar ég var krakki og unglingur var ég í sveit hjá Völu og Jóa frænda á Steinum. Það má segja að Vala hafi verið mamma mín í sveitinni yfir sumarmánuðina í þann tæpa áratug sem ég var í sveit á Steinum. Vala átti því sinn þátt í mínu uppeldi. Það er mér sérstaklega eftirminnilegt frá þessum tíma hve vel hún og öll fjölskyldan á Steinum hugsaði um Hannes frænda, son þeirra Jóa. Þegar ég minnist Völu núna hugsa ég um sumrin á Steinum. Alltaf var mikið um að vera og nóg að gera. Vala stjórnaði heimilinu á bænum og það er kannski fyrst núna sem ég átta mig á því hve skilyrðislaust traust ég bar alltaf til hennar.Það vill svo til að það er ekki svo langt síðan Vala tók að sér mömmuhlutverkið fyrir mig í síðasta skipti. Það var eftir Þverárrétt fyrir nokkrum árum að ég fékk slæmt mígrenikast og treysti mér ekki suður til Reykjavíkur. Þeir sem þekktu Völu vita að það var minnsta málið að ég fengi að gista á Steinum um nóttina. Daginn eftir þurfti ég svo að taka strætó heim, þar sem ég hafði fengið far upp eftir. Vala skutlaði mér því í Bauluna, þar sem strætó stoppaði, og ákvað hún þegar þangað var komið að splæsa á mig ís. Þetta er mér minnisstætt augnablik, þegar við Vala sátum og borðuðum ís á meðan ég beið eftir rútunni suður. Það var eins og við hefðum ferðast aftur til ársins '93, eða þar um bil.

Bæta við leslista

Valgerður Björnsdóttir

Vala var mér meira eins og eldri systir en frænka. Ég, Vala og Jón bróðir hennar ólumst upp sitt á hvorum Deildartungubænum þar til við mamma fluttum til Reykjavíkur. Vala stjórnaði okkur Jónka með harðri hendi enda elst og ráðríkust. Amma kenndi okkur að lesa með bandprjónsaðferðinni og ég lærði að lesa um leið og Vala. En mér gekk ekki eins vel að fylgja henni í prjónaskapnum. Þegar amma reyndi að losa lykkjurnar sem voru negldar á prjóninn hjá mér eða hirða upp þær sem höfðu týnst á leiðinni, sagði hún að ég ætti að taka Völu mér til fyrirmyndar, því ekki vildi ég verða prjónaskita. Kannski urðu þetta áhrínsorð. Mikið öfundaði ég oft Völu seinna meir af hennar mikla verksviti og útsjónarsemi, hvort sem það var varðandi einhverja handavinnu eða bara almenn verk. Við vorum aldar upp á hestbaki og með slæma hestadellu sem eltist ekki af okkur. Það var nóg af viljugum hestum á Deildartungubæjunum og mörg ungmenni á sumrin til að ríða út. Á sunnudögum lá leiðin oftar en ekki niður á Kroppsmela til að hleypa, sem var trúlega bannað, og síðan í æsilegan kúrekaleik innan um birkihríslurnar í Bæjarskógi en það var örugglega bannað. Líklega hefði ég hætt öllum útreiðum á seinni árum ef ekki hefði verið fyrir Völu og fjölskylduna á Steinum. Þar eru góðir vel tamdir hestar og gestrisni mikil. Við fórum í stuttar ferðir, langar ferðir og í hestaferðalög.Síðustu árin kom Vala reglulega í menningarferðir til höfuðborgarinnar yfir langa helgi og dvaldi þá hjá mér. Við settum upp dagskrá og fórum á leiksýningar og í bíó, á söfn og í sund. Yfirleitt sinnti hún innkaupaerindum án mín. En ef ég lenti í að fara með henni í búðir þá var það upplifun út af fyrir sig og kannski ekki alveg fyrir mína þolinmæði. Hún vissi hvar allt fékkst og hvar maður gat fengið hina aðskiljanlegustu hluti á Reykjavíkursvæðinu. Hún hafði líka gjarnan á hreinu hvað nágranna hennar vantaði. Inni í búðinni voru síðan ræddir kostir og gallar í þaula ekki bara við afgreiðslufólkið heldur líka við aðra viðskiptavini.Ég mun sakna sárt ferða okkar Völu hvort sem þær voru gangandi, ríðandi eða á vit ævintýra í leikhúsi og á listsýningum. Elsku Jói, Jónína, Doddi og Guðmundur, ég sendi ykkur og fjölskyldum ykkar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Bæta við leslista

Valgerður Björnsdóttir

Vala frænka mín var glæsileg kona með fallega rautt og liðað hár. Fjölhæfur skörungur, sem fátt vafðist fyrir og áhugasöm um margt. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum, Unni og Birni í Deildartungu í Reykholtsdal, ásamt Jóni yngri bróður sínum, núverandi bónda í Deildartungu, og Guðlaugi eldri hálfbróður, sem fljótlega eignaðist eigin fjölskyldu en sinnti býlinu með Birni. Á þeim tíma var margt um manninn í sveitunum. Vinnumenn komu og fóru og krakkar voru sendir í sveit. Tvíbýli var í Tungu og bjuggu bræðurnir Björn og Andrés hvor á sínum helmingi jarðarinnar og var ég í sveit hjá Adda. Við krakkarnir vorum settir í störf eftir því sem hægt var og höfðum aldur til en á kvöldin lékum við okkur. Frjálsíþróttir voru stundaðar af kappi á melunum austan við túnfótinn, prílað í fjósinu, sem var í byggingu, og hlaðan var skemmtilegur vettvangur leikja en þegar við urðum eldri var langvinsælast að fara í útreiðar. Þá voru bugður Reykjadalsár riðnar og kannski farið í sjoppuna í Reykholti eða riðið yfir Kroppsmelana, út í Bæjarskóg og farið í kúrekaleik á hrossunum. Alla tíð síðan fannst Völu gaman að bregða sér á bak og átti hún ávallt góða reiðskjóta. Tvítug eignaðist Vala frumburð sinn, Jónínu Laufeyju, með Jóhanni Oddssyni, bóndasyni á Steinum í Stafholtstungum, og flutti fljótlega þangað. Bjuggu þau þar allan sinn búskap upp frá því og tóku við helmingi búsins. Synirnir Oddur Björn, Hannes og Guðmundur Steinar bættust síðan í hópinn á næstu níu árum.Vala var höfðingi heim að sækja. Þau voru ófá skiptin sem ég kom til þeirra Jóa með börn, sem henni fannst þurfa að hitta nýgotna kettlinga, fjöruga hvolpa eða nýborin lömb og ef einhver þurfti að komast á hestbak var það auðsótt hjá þeim hjónum. Ef viðkomandi var ekki nógu vel gallaður voru dregnar fram úlpur og stígvél, sem nóg var til af. Völu var margt til lista lagt og áhugi hennar lá víða. Handavinna af ýmsum toga lék í höndunum á henni. Af nauðsyn saumaði hún og lagaði flíkur en einnig saumaði hún sér til skemmtunar eins og bútasaumsteppi og upphlut á sjálfa sig. Á tímabili bólstraði hún húsgögn af krafti og myndarbrag. Sem bóndi sinnti hún bæði úti- sem inniverkum í samvinnu við bónda sinn og var enginn aukvisi þar og þótt álagið væri oft mikið vann hún auk þess lengi vel utan heimilis. Þótt skyldustörfin væru ærin fannst henni gaman og nauðsynlegt að gera sér dagamun. Vala var mikil félagsvera og afar virk í ýmsum félagasamtökum. Hún var frændrækin og fróð um menn og málefni. Ferðalög voru ofarlega á vinsældalista hennar, bæði innanlands og utan. Stóra sorgin í lífi þeirra Jóa voru veikindi og í kjölfarið fötlun Hannesar sonar þeirra en hann veiktist af heilahimnubólgu á fyrsta aldursári. Þau sinntu honum af einstakri natni, ást og óeigingirni alla tíð og tóku systkini hans virkan þátt í því hlutverki.Ég og fjölskylda mín erum full þakklætis fyrir allt sem Vala hefur gert fyrir okkur og sendum Jóa, Jónínu, Dodda, Guðmundi og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bæta við leslista

Vala

Elsku frænka er nú farin á vit annarra ævintýra. Allt, allt of snemma finnst okkur sem eftir stöndum. Vala frænka var alltaf í mínum huga einhver sem yrði alltaf í lífi mínu. Frá því ég man eftir mér hefur hún alltaf verið til staðar. Fyrstu æviárin mín í sama húsi. Man að ég leit alltaf upp til frænku. Ég á ótalmargar minningar úr æsku minni um Völu frænku. Í mínum huga fannst mér hún alltaf fullorðin þó aðeins væru 9 ár á milli okkar. En í huga barns verða þeir eldri fljótt fullorðnir.

no image

Bæta við leslista