Kveðja frá syni og tengdadóttur.
Valgerður var ein af sex systkinum. Hún var átta ára gömul þegar hún missti föður sinn eftir stutt veikindi árið 1936. Á þessum tíma var lífsbaráttan á Íslandi og víðar mjög hörð, enda heimskreppa í hámarki. Þetta var fyrir daga almannatrygginga og félagsþjónustu sveitarfélaga eins og hún gerist í dag og stórfjölskyldan tók því oft stjórnina þegar áföll eins og þetta dundu yfir. Systkini hennar voru þá á aldrinum fimm til 13 ára og kannski ekkert annað í stöðunni en að koma þeim flestum í fóstur. Steinunn, móðir hennar gat hins vegar samið við sitt fólk um að halda börnunum með þeirra aðstoð. Valgerður og systkini hennar fóru því í sumarvist hjá nánum ættingjum og á meðan vann móðir þeirra út í eitt til að greiða skuldir vetrarins við kaupmenn og aðra. Valgerður var í sumarvist að Sólheimum í Landbroti í sjö ár eða til fermingaraldurs hjá Magnúsi Auðunssyni, móðurbróður sínum og konu hans, Kristjönu Jónsdóttur. Hjalti, sonur hennar var álíka lengi í sumarvist á sama bæ og það segir sitt um að hún átti góða daga þar. Nýlega sagði hún þó að henni hefði alltaf þótt gott að koma heim að hausti m.a. vegna þess að þar gat hún leyft sér að takast á við systkini sín án þess að fullorðna fólkið gripi inn í. Þegar hún var í sveit var hún gestur á góðu heimili, en samt gestur sem þurfti að fara eftir reglum gestgjafans. Valgerður erfði marga góða eiginleika frá móður sinni. Þær mæðgurnar játuðu sig aldrei sigraða, þó staðan væri í augum annarra næsta vonlaus. Þegar t.d. kom að því að svara kalli dauðans tóku þær honum báðar af æðruleysi og virðingu en engu að síður miklum lífsvilja, allt til enda.