no image

Fylgja minningarsíðu

Þorvaldur Þorsteinsson

Fylgja minningarsíðu

6. desember 1917 - 22. janúar 1998

Útför

Útför hefur farið fram.

Elsku afi okkar, Þorvaldur Þorsteinsson, er látinn.

Þorvaldur afi var einstakur maður, alltaf jákvæður, hress og skemmtilegur og sérstaklega barngóður. Þess nutum við barnabörnin hans þegar við vorum í samskiptum við afa og ömmu á uppvaxtarárunum. Þrátt fyrir að hann væri önnum kafinn maður í ábyrgðarstarfi og á kafi í félagsmálum, þá hafði hann alltaf tíma til að spjalla við okkur systurnar þegar við vorum í heimsókn. Við minnumst afa þó e.t.v. mest í tengslum við veru okkar með honum og fleirum uppi í sumarbústað þeirra ömmu við Þingvallavatn. Þar vaknaði hann með okkur krökkunum eldsnemma á morgnana og læddist með okkur út úr sumarbústaðnum til að vekja ekki hitt fullorðna fólkið. Síðan var haldið niður á bryggju og jafnvel út á bát til að veiða í morgunkyrrðinni. Á þessum morgnum átti hann það einnig til að aðstoða okkur við að yrkja kvæði. Í minningunni eru þessir morgnar alltaf bjartir og fagrir og Þingvallavatnið spegilslétt og tært. Nú þegar afi okkar, þessi trausti, skynsami og góði maður sem svo sannarlega var höfuð fjölskyldunnar, er farinn, minnumst við hans með miklum hlýhug og söknuði og vonum að almættið styrki ömmu í hennar miklu sorg.

Bæta við leslista