no image

Fylgja minningarsíðu

Þorgerður María Gísladóttir

Fylgja minningarsíðu

9. september 1925 - 17. desember 2021

Útför

Útför hefur farið fram.

Sálmaskrá
Þakkir

Starfsfólk Báruhrauns fyrir umönnunina og Fimleikafélagið Björk fyrir vinsemd og virðingu

Kveðja frá Nöfnu

Það er ekki auðvelt mál að gera ömmu minni skil í fáum orðum. Ég var svo heppin frá fyrstu stund að fá að vera nafna ömmu. Það eru stór fótspor að feta í. Amma mín var nefnilega svo margt. Hún var þessi klassíska amma sem eldar og bakar, saumar og prjónar, er í kvenfélaginu og fer í sólarlandaferðir. En amma var svo mikið meira. Hún var frumkvöðull. Fór ung í Íþróttakennaraskólann á Laugavatni og var orðin íþróttakennari fyrir tvítugt. Kenndi stelpum sem voru bara nokkrum árum yngri. Aðeins tvítug fór hún á íþróttalýðskólann á Snohoj í Danmörku. Seinni heimstyrjöldinni var rétt nýlokið og hún sigldi bara á vit ævintýranna! Þremur árum síðar eða 1948 flaug hún ásamt stórum hópi frá Íslandi til London til að fylgjast með Ólympíuleikunum. Hún æfði fimleika. Fyrst með Ármanni. Seinna tók hún þátt í að stofna fimleikafélag og varð fyrsti formaður þess. Fimleikafélagið Björk er enn starfandi og þar æfa næstum þúsund iðkendur. Hún kenndi sund og leikfimi, þjóðdansa og fimleika og sýndi innanlands og utan, æfði handbolta og margt fleira og þegar hún svo sjálf var í kringum sextugt tók hún þátt í að setja á fót íþróttastarf fyrir eldri borgara. Þó sjálf yrði hún aldrei nógu gömul til að taka þátt í slíku (að eigin mati). Fyrir allt þetta starf fékk hún fjölmargar viðurkenningar. Meðal annars heiðurskross ÍSÍ. Samt fannst henni hún ekki hafa gert margt merkilegt um dagana. Amma var glæsileg og gekk bein í baki. Hún gat þekkt fólk göngulaginu einu saman. Hún hafði líka skoðanir á göngulagi. Það var ekki sama hvernig fólk gekk. Það á að rétta úr sér. Ég var svo lánsöm að vera Nafna. Því fylgdu ýmis fríðindi Ég var varla farin að ganga þegar hún var byrjuð að kenna mér. Þegar ég byrjaði að æfa fimleika naut ég góðs af því að eiga ömmu sem þekkti til. Seinna tók ég smá við keflinu hennar þar og var í stjórn. Amma reyndi líka að vekja hjá mér sundáhuga þó það hafi ekki tekist eins vel og með fimleikana. Heima hjá ömmu og afa var gott að vera. Gæfa okkar systkinanna var að búa nálægt þeim. Því var hægur leikur að koma í hádegismat. Þar var lítilli matvandri stelpu gert til geðs, oftast. Maturinn hjá ömmu var alltaf aðeins betri. Þegar ég var lasin fékk ég stundum að vera hjá ömmu. Ef ég kom nógu snemma gat ég kúrt í afaholu við hlið ömmu. Og þá var dekrað við nöfnuna sína. Síðustu árin snérust hlutverkin okkar aðeins við. Ellikerling fór að hrella ömmu. Þá fékk ég tækifæri til að endurgjalda örlítið allt sem hún hafði gert fyrir nöfnuna sína. Fyrst var það oft skutl en síðustu árin fór það meira út í dekur. Reyndar kannaðist amma aldrei við að hún ætti þetta skilið. En hún kunni að taka við og var þakklát. Og ég er þakklát fyrir að hafa átt þessar ómetanlegu gæðastundir með ömmu að dedúa við hana og gera fína. Það var svo gott að koma til ömmu og sitja með henni. Þetta voru óneitanlega tómlegri jól án ömmu. Og skrítin tilhugsunin að geta ekki framar lagt höfuðið í hálsakotið eða kysst mjúka ömmukinn.  Takk elsku amma, Ljósið af ljósi þínu - lifi í hjarta mínu.

no image

Bæta við leslista