no image

Fylgja minningarsíðu

Svavar Guðni Guðnason

Fylgja minningarsíðu

25. ágúst 1930 - 30. desember 2011

Útför

Útför hefur farið fram.

Svavar

Í dag er kvaddur tengdafaðir minn, Svavar Guðnason. Með honum hef ég átt samfylgd í lífinu síðastliðin þrjátíu og fjögur ár. Það er því margs að minnast og fyrir margt að þakka. Mér var strax tekið af mikilli hlýju og umhyggju í Hraunbænum þegar ég kynntist Andrési syni Svavars og Sísíar konu hans. Vinir barna þeirra voru alltaf velkomnir á heimilið og eldhúskrókurinn var oft þétt setinn unglingum sem höfðu um margt að spjalla. Það vakti fljótt athygli mína að í fjölskyldu Andrésar þurfti aðeins örsjaldan að kalla til iðnaðarmenn til að sinna viðhaldi. Þetta sáu menn um sjálfir og þar fór tengdapabbi fremstur í flokki. Ég var ekki vön þessu úr minni fjölskyldu, þar hringdum við í rafvirkja ef setja þurfti upp ljós og málara ef lyfta þurfti pensli, við vorum bara betri í öðru. Ekki hafði Svavar hlotið iðnmenntun en var sjálflærður í þessum greinum og handlaginn. Þegar við Andrés hófum búskap og tókum til við húsbyggingu nutum við aðstoðar Svavars. Hann var ávallt boðinn og búinn að leggja lið og það munaði ekki bara um handaverkin hans heldur var hann líka hvetjandi og uppörvandi þegar þreytan var farin að segja til sín eftir langar vinnutarnir. „Það verður gott að fá hann pabba í málninguna,“ sagði sonur hans einhverju sinni „hann kjaftar þetta alltaf einhvern veginn upp á veggina.“ Svavar miðlaði mikilli verkþekkingu áfram til næstu kynslóðar og var ekki síður fyrirmynd hvað varðaði viðhorf til vinnunnar. Jákvæðni, samviskusemi og snyrtimennska voru hans aðalsmerki.

Bæta við leslista