no image

Fylgja minningarsíðu

Steingrímur Th. Þorleifsson

Fylgja minningarsíðu

27. apríl 1932 - 3. mars 2022

Andlátstilkynning

Ástkær eiginmaður, faðir, tengdafaðir, afi og langafi okkar, Steingrímur Th. Þorleifsson, lést á hjúkrunarheimilinu Grund fimmtudaginn 3. mars 2022

Útför

Útför verður tilkynnt síðar.

Aðstandendur

Ethel M. Thorleifsson Sigurður Þór Steingrímsson - Birgir Örn Steingrímsson Eva M. Steingrímsdóttir - Einar Már Steingrímsson barnabörn og barnabarnabörn

Steingrímur Th. Þorleifsson

Þar með eru þau öll farin til annarra heima, Sólheimasystkynin, börn Sigurlaugar og Þorleifs, sem upphaflega voru 5, þau: Fjóla, Ingvar, Steingrímur, Svanhildur og Sigurður, sem lést kornungur. Fyrir átti Sigurlaug eina dóttur, Láru Sigríði, móður mína. Þegar við mæðgur komum að sunnan vorið 1940, ég þá 9 mánaða gömul, voru þau systkin á aldrinum 5-11 ára. Okkur var tekið opnum örmum, ég var komin til að vera. Þegar ég nú horfi til baka og minnist Steingríms, minnist ég þeirra allra. Svo virðist sem eldri systkinin hafi fengið hvert sitt hlutverk við að gæta mín. Ég var látin sofa hjá Fjólu, þá11 ára, í innsta rúminu í baðstofunni í mörg ár. Ingvar 9 ára, nennti endalaust að halda á mér og gæta mín, en margar voru hætturnar fyrir lítið barn, hann hafði þolinmæðina og ljúfmennskuna. Steingrímur 7 ára, var kannski ekki þolinmóðasta barnapía sögunnar, en hann var fjörugur og fullur af góðum hugmyndum og fann upp á ýmsu skemmtilegu fyrir barnið. Hann mátti dragnast með mig úti fyrstu árin þegar gott var veður og hafði mig því með sér í allskyns svaðilfarir, sem mæltust víst misvel fyrir hjá fullorðna fólkinu, en ég skemmti mér alltaf vel. Hann sagði mér líka hræðilegar sögur af draugum og forynjum, mér fannst þær allar skemmtilegar og hræddist ekkert. Svana var 5 ára og henni því ekki ætlað sérstakt hlutverk fyrstu árin, ég eyðilagði bara allt dótið hennar, reyf og tætti. En hún Svana mín gætti mín síðar og var ávallt til taks fyrir mig og mína eins og hvert eitt þeirra systkina alla tíð.

Bæta við leslista