no image

Fylgja minningarsíðu

Stefán Sigurkarlsson

Fylgja minningarsíðu

12. júlí 1930 - 17. desember 2016

Útför

Útför hefur farið fram.

Stefán Sigurkarlsson

Með örfáum orðum langar mig að kveðja vin minn og tengdaföður, Stefán Sigurkarlsson.  Hann var hár og myndarlegur maður og bar sig vel. Hann var sterkur persónuleiki, rólegur og þolinmóður og mikill húmoristi. Aldrei sá ég hann reiðast eða skipta skapi yfirleitt. Vart er hægt að hugsa sér betra lundarfar en hann hafði. Stefán var sannkallaður ,,patriarch” í sinni fjölskyldu. Allir litu upp til hans og leituðu til hans með ýmis mál til úrlausnar, stór og smá. Hann var víðsýnn, menningarlega sinnaður, hæfileikaríkur, klár og fróður. Hann var alltaf hvetjandi og ráðagóður og  ég held að hann hafi haft áhrif á alla er honum kynntust. Þó svo að hann hafi valið sér lyjafræði að æfistarfi, voru listir og sköpun ýmisskonar hans aðal áhugamál. Hann fékkst bæði við myndlist, tónlist og ritlist og eftir hann liggja allmörg verk. En hin síðari ár helgaði hann sig aðalega ritstörfum og skrifaði bæði sögur og ljóð. Stefán var vel að sér í tungumálum og talaði þau allnokkur. Hann var mikið gefinn fyrir ferðalög, en leið þó hvergi betur en í Litla Langadal þar sem fjölskyldan á sumarbústað. Þar stundaði hann skórækt sem var bæði áhugamál og hugsjón.  Hann nýtti tímann vel og naut lífsins til hinns ýtrasta. Ég mun sakna þess að koma til þeirra hjóna í föstudags kaffi og taka létt spjall við hann um pólitík og hin ýmsu málefni. Alli þeir sem kynntust þessum einstaka manni munu hugsa til hans með hlýju og bros á vör. Blessuð sé minning hans. 

Bæta við leslista

Stefán Sigurkarlsson

Þegar ég minnist Stefáns föðurbróður míns þá er ljúft að láta hugann reika til baka. Heimsóknirnar í apótekarabústaðina í Stykkishólmi og Akranesi voru lítil ævintýri, frumsamdar kvöldsögur hans um þá inúítabræður Kallúk og Mallúk, apótekaralakkrís, vítamíninntökur og allskonar skemmtilegheit við krakkana. Til að tryggja menningarlegt uppeldi og beina barninu í rétta átt sendi Stebbi mér í jólagjafir, koll af kolli, öll bindin í ritsafni Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar; Brasilíufarana, Vornætur á Elgsheiðum og ég sé í bókahillunni að jólin 1975 kom sagan um Eirík Hansson með jólapóstinum frá Stykkishólmi til Grindavíkur. Svona minningar um fallega ræktarsemi eigum við örugglega öll, frændsystkinin.Ég held að örlátari manni hafi ég varla kynnst. Á unglingsárum og fyrst eftir maður flutti að heiman var það víst að Stebbi stakk að manni peningaseðli af stærstu gerð þegar við hittumst. Hvað þá ef maður fékk að hjálpa við einhverjar framkvæmdir sem hann stóð í, þá voru launin langt yfir öllum Kjararáðstöxtum. Þau Anna sýndu okkur Kristjönu svo alltaf einstaka vinsemd og fylgdust með okkar lífi þegar árin liðu.Ljúfmennska, húmor og smá sérviska blandast vel saman. Þegar við bætist listrænt eðli og framkvæmdasemi eins og hjá Stebba er útkoman best. Margir þekkja ljóðin hans, sögurnar, lögin og textana. Allt vel gert, fallegt og iðulega skemmtilegt. Fjölskyldan naut góðs af afmælisbrögum í stórafmælum sem jafnan voru sungnir undir lögunum hans. Þótt maður leiddi aldrei hugann að því þá er það mikið afrek að afkasta þessu öllu til viðbótar við apóteksreksturinn í áratugi.Góður maður er kvaddur með trega. En um leið er ekki hægt að hugsa annað en að hann hafi nýtt tímann sinn vel. Ástríkari hjónum og fjölskyldu hefur maður varla kynnst og við sendum þeim öllum hjartanlegar samúðakveðjur.

Bæta við leslista