Minningargrein –Soffía Stefánsdóttir
Soffía, mamma okkar, náði háum aldri og við fengum því að eiga mömmu lengur en flestir. Við eigum margar góðar minningar að ylja okkur við. Mamma hugsaði vel um okkur alla ævi. Hún hjálpaði okkur mikið í heimanáminu og enginn kunni betur Íslandssögubækurnar en hún. Við vorum með henni í húsverkunum, garðstörfum og fórum með henni í ýmsa túra. Mömmu fannst líka mikilvægt að fólk væri úti. Við fórum því oft í útileiki með henni. Hún var svo góð í „danskan“ og ýmsum fleiri boltaleikjum. Hún var skemmtileg og kunni ógrynni af söngtextum. Við sungum oft saman ýmis skátalög, dægurlög og revíulög. Hún lifði eftir þeirri hugmynd að maður ætti að vera sjálfum sér nógur og geta skemmt sér sjálfur. Oft voru haldnar fjölskylduskemmtanir þar sem allir komu með atriði bæði fullorðnir og börn. Hún kenndi okkur líka að spila og prjóna og vinna ýmislegt í handavinnu. Þetta eru dæmi um samverustundir í kringum skemmtilegar aðstæður sem mamma skapaði.