Til ömmu
Í dag kveðjum við elsku ömmu Soffíu. Það var margs að minnast þegar við systkinin sendum á milli okkar minningar um elsku ömmu sem lést eftir stutt veikindi þann 11. júlí síðastliðinn. Amma sem hafði verið svo hress stuttu áður, dansandi á pallinum heima á Aðalstræti við Tótu systur sína, við harmonikkuspil Gústa bróður þeirra í blíðskaparveðri á Þingeyri. Það var alltaf besta veðrið á Þingeyri að sögn ömmu og þar var loftið líka hreinna og stress var ekki til.
Við systkinin minnumst þess með hlýju að amma gaf okkur alltaf að borða þegar við komum til hennar og afa á Aðalstrætið. Þá skipti engu þó við værum ekki svöng, amma var fljót að draga fram kleinur og rúgbrauð með kæfu sem var svo skolað niður með ískaldri mjólk. Rebekka minnist þess að amma hafi bakað heimsins bestu rúlllutertu og Snæbjörn sagði: það skipti engu máli hvort maður var búinn að bæta á sig eða grennast, alltaf sagði amma: þú hefur lagt af!
Amma var úrræðagóð og nýtin og það voru aldrei nein vandamál hjá henni, bara lausnir. Alveg sama hvað okkur krökkunum datt í hug að brasa þá var amma alltaf til í að hjálpa okkur. Steini minnist þess sérstaklega að amma lánaði þeim strákunum sigti til þess að veiða hornsíli og sigtin hafi ekkert alltaf skilað sér til baka. En alltaf lánaði amma þeim samt sigti í næstu veiðiferð. Þannig var amma okkar, alltaf tilbúin að hjálpa.
Sæborg og Steinberg minnast ferða í Höfnina með ömmu og afa þar sem fjölmörg ævintýri gerðust. Þar var ekkert rafmagn og mjólkin var kæld í ánni. Mögulega voru einhver blaut sokkapör þegar mjólkin var sótt, sérstaklega hjá Steina, en mikið var þetta gaman fyrir okkur krakkana. Á kvöldin var setið við að tálga spýtur eða spilað við ömmu og afa meðan eldurinn logaði í arninum. Þessar ljúfu minningar lifa með okkur um ókomin ár.
Amma var hugmyndarík, gefandi, góðhjörtuð, þolinmóð, hugrökk, vinnusöm, náttúruunnandi, með græna fingur, umhyggjusöm og svo margt fleira en umfram allt þá var hún heimsins besta amma.
Minningin þín mun lifa með okkur.
Þín barnabörn,
Sæborg, Steinberg, Rebekka og Snæbjörn.