Kveðja frá Berglindi
Elsku pabbi, ég á svo bágt með að trúa að þú sért farinn. Ég bíð alltaf eftir því að þú bankir á herbergishurðina hjá mér að bjóða mér ís eða eitthvert gotterí. Eiginlega ótrúlegt að ég sé ekki með vel utan um mig eftir allt nammi- og ísátið sem við gátum deilt. Hugurinn hleypur oft yfir að ég viti ekki hvað ég á að gera án þín. En ég mun þó halda áfram með kunnáttuna sem þú gafst mér í gegnum tíðina. Þú varst alltaf svo góður að laga og redda hlutunum. Og að byggja eitthvað var alltaf eins og töfrum líkast. Húsið sem við búum í, bústaðurinn sem við höfum notið hvert ár, dúkkuhúsin, strætó, kofinn, hestakerra, bílar og endalaust af bílum, gömlum sem og ekki eins gömlum. Og ekki er hægt að sleppa að minnast á að því stærri sem fjölskyldan varð, því stærri varð bústaðurinn. Allt sem þú gerðir gerðir þú fyrir fjölskylduna. Ef okkur vantaði eitthvað þá var þitt að standa upp eins og hetja og hjálpa okkur. Ætli ég hafi ekki lært smá hér og þar af þér. Smíða, mála, byggja, vita muninn á styrk sandpappírs, hvað skrúfjárn gerir, til hvers sögin er notuð og hvernig á að sjá um bílinn. Einnig sýndirðu mér hvernig ég á að leyfa listinni að skína og koma því áfram inn í lífið. Þú kenndir mér þó ekki að sauma, prjóna eða elda. En lukkulega þá hittirðu hana móður mína, giftist henni og varst með henni meiri hluta lífs ykkar. Og hún kenndi mér hinn helminginn. Þið bæði kennduð mér að hugmyndaflugið hefur engan enda og að ég ætti ekki að láta litlar hraðahindranir stöðva mig. Þið kennduð mér að hlusta á góða klassíska tónlist og meta góða fornbíla. Þið sýnduð mér og kennduð að það þýðir ekkert að leggjast niður og gefast upp. Rétt eins og þið stóðuð alltaf upp og gáfust ekki upp á neinu, þá mun ég alltaf halda áfram, alveg sama hversu erfitt lífið getur verið.