Fylgja minningarsíðu
Sigfríður Jónsdóttir
Fylgja minningarsíðu
14. ágúst 1926 - 2. júní 2022
Andlátstilkynning
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, Sigfríður Jónsdóttir frá Skálholtsvík lést 2. júní að Hjúkrunarheimilinu á Hvammstanga.
Aðstandendur
Þorgerður Sigurjónsdóttir Gunnar Benónýsson Anna Sigurjónsdóttir Guðjón Jóhannesson og fjölskyldur þeirra.
Þakkir
Innilegar þakkir fyrir audsýnda samúð og hlýju vegna andláts og útfarar áskærar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu. SIGFRÍÐAR JÓNSDÓTTUR frá Skálholtsvík aðstandendur.
Elsku langamma Sigga
Elsku amma mín. Ég elska þig og mun alltaf gera. Þú hefur alltaf verið svo góð og skemmtileg. Alltaf þegar ég kom í heimsókn þá fékk ég knús og koss á kinn og já, nammi líka."komdu sæl elskan mín" "heyrðu kíktu í skúffuna þarna,það á að vera dallur með einhverju gotteríi" sagðir þú. Ég man þegar þú komst heim til ömmu Daddý og kenndir okkur að spila manna og bjóst til bréfbát fyrir okkur. Síðan fórum við að lita bátinn " vá hvað þeir eru litríkir " Ég man líka eftir flotta bleika varalitnum og naglalakkinu þínu. Ég spurði þig einu sinni " amma, heldurðu að þú náir uppí 100? " þú leist á mig í stutta stund og sagðir svo "kannski"
Bæta við leslista
Kveðja
Amma fæddist árið 1926, það er því óhætt að segja að hún hafi lifað tímana tvenna. Hún þekkti tímann þegar fólk bjó í torfhúsum, ekki voru til þvottavélar og sjónvörp og sími var fjarlægður draumur. Fyrir utan að búa í sveit á Ströndum þar sem tíminn stóð stundum í stað.
Bæta við leslista
Minning
Elsku amma, það kom að því að þú varst tilbúin að fara. Síðustu ár hafa ekki beinlínis verið þér létt, bæði vegna hækkandi aldurs og minnkandi líkamlegrar getu en líka vegna þess að heimsfaraldurinn gerði það að verkum að færri komust til þín. Fyrir jafn félagslega manneskju og þig hafði það töluverð áhrif. Og þú náðir að vinna þig í gegnum nokkur hjartaköst, sýkingar og jafnvel COVID-ið sjálft áður en þú ákvaðst að hlýða kallinu og hlaupa á eftir afa. Það stóð á endum að það vantaði 2 daga í 13 ára dánardaginn hans þegar þú kvaddir á ákaflega friðsælan hátt.
Bæta við leslista
Í minningu Sigfríðar Jónsdóttur frá Skálholtsvík
Á leið minni vestur á firði hér á árum áður dáðist ég mjög að myndarlegum húsakosti nyrst í Bæjarhreppi, við víkina fögru við ysta haf, sem minnti mig helst á lítið þorp og mig langaði til að fræðast eitthvað um þennan fagra, margbýla stað, Skálholtsvík. Áratugum síðar höguðu örlögin því svo til að ég réð mig til starfa í hreppnum og gekk um leið í kvenfélag sveitarinnar, Iðunni og þá fékk ég svör við hugrenningum mínum. Í Skálholtsvík voru rekin myndarbú af bændum sem ólu sinn aldur þar, reyndar höfðu ein hjónin látið af búskap og flutt til höfuðstaðarins, er aldur færðist yfir og hvíldar var þörf. Þessi góðu hjón, Sigfríður og Sigurjón, héldu alltaf tryggð við sveitina sína og sveitunga og hitti ég þau í réttarkaffiskúr Iðunnar í fyrsta sinn er ég kom þar. Sigurjón lék á als oddi í spjalli við karlana og Sigfríður, svipfalleg og glaðleg, leit inn til vinkvenna sinna sem stóðu yfir kakópottinum. Þessi stund er mér ætíð ljúf og áttum við eftir að njóta samvista nokkuð oft á næstu árum, einkum þar sem Sigfríður, eða Sigga Jóns, eins og hún var gjarnan kölluð, var áfram kvenfélagskona og áttu þau líka afkomendur búsetta hér í hreppnum. Að Sigurjóni látnum bjó hún áfram fyrir sunnan þar til hún kom til búsetu á dvalardeild sjúkrahússins á Hvammstanga þegar heilsan fór að gefa eftir, ævinlega þakklát fyrir að geta dvalið svo nærri sínu fólki. Hún hefur lifað farsælu lífi í tæplega eina öld og hélt reisn sinni til hinstu stundar. Ég bað Rósu, frænku Siggu, sem ólst upp í Skálholtsvík, að lýsa henni sem húsmóður: „Hún gekk í öll verk, jafnt úti sem inni, markaði lömbin, sprautaði ærnar. Hún klippti flesta hausa sveitarinnar, litaði og setti permanent í konurnar, fór á sjó með pabba sínum, var afar flink í höndum, prjónaði og saumaði á börnin sín,var alltaf hlýleg og umhyggjusöm, enda var heimilið gestkvæmt og þau hjón framúrskarandi gestrisin.“
Bæta við leslista
Sigfríður Jónsdóttir frá Skálholtsvík
Í Skálholtsvík áðu Skálholtsbiskupar á yfirreið sinni um Vestfirði fyrr á árum. Þar af nafnið. Þar þótti þeim og fjölmennu fylgdarliði gott að koma og þannig hefur verið æ síðan, ekki síst á árum Sigfríðar vinkonu minnar og Sigurjóns Ingólfssonar manns hennar. Þau voru ævinlega nefnd í sömu setningunni, samrýmd heiðurshjón.
Bæta við leslista
Minningar frá dvölinni hjá Sigfríði Jónsdóttur í Skálholtsvík
Ég kom fyrst til Siggu og Sigurjóns í Skálholtsvík snemmsumars 1967, þá 7 ára. Ég átti að vera fáar vikur en endaði með að vera þar allt sumarið. Þetta var mikil upplifun fyrir borgarbarnið, að vera innan um dýrin og taka þátt í ýmsum störfum, þó líklega hafi ég flækst meira fyrir en verið til gagns þetta sumarið. Sigga var alltaf kletturinn á heimilinu, rak það af miklum myndarskap enda miklar kröfur gerðar um mat og annað handa svöngu fólki. Ég man það alltaf að dagurinn byrjaði með hafragraut. Svo var farið að mjólka og reka kýrnar. Þá tók við morgunkaffi með brauði og kökum. Þá var farið út að vinna fram að hádegismat sem var heitur og innihaldsríkur. Svo tók við önnur vinnutörn fram að síðdegiskaffi og svo koll af kolli, kvöldmatur og kvöldkaffi. Alltaf var Sigga með eitthvað nýbakað og girnilegt. En þetta fyrsta sumar hjá Siggu og Sigurjóni var ekki það síðasta. Samtals voru þau 7 talsins eða fram að fermingu minni. Eitthvað hefur mér líkað dvölin vel, því ég var mættur í byrjun maí hvert ár snoðklipptur og í nýjum gúmmískóm. Ég þurfti að fá að taka vorprófin snemma svo ég gæti mætt í sauðburðinn. Sigga spilaði stórt hlutverk í sauðburðinum og vakti og vann til jafns við Sigurjón, alla vega í minni minningu. Síðan þurfti ég að fá að koma seint í skólann að hausti, því ekki vildi ég missa af réttum og sjá sláturn byrja. Þessi 7 sumur sem ég var í fóstri hjá Siggu og Sigurjóni voru afskaplega erfið fyrir búskað á Ströndum. Þetta voru s.k. hafísár. Ég man þegar ég kom með Hómavíkurútu Guðmundar Jónassonar á vorin, að það blasti oft við manni hafís inneftir öllum Húnaflóa. Svo var líka kalt og mikið kal í túnum. Heyskapur var þarafleiðandi erfiður og man ég að Sigrjón þurfti oftar en einusinni að gera sér ferð á Suðurlandið til að kaupa hey. Viðbrögðin við þessu voru svo að lokum að breyta heyvinnslu úr bara þurrhey, yfir í súrhey. Voru í því skyni reistir súrheisturnar og húsum breytt í þeim tilgangi. Sigurjón var mjög upptekinn í öllu þessu eins og ber að skilja, og mæddi þá meira á Siggu við ýmis bústörf, s.s. mjaltir og heyskap. En alltaf voru borðin sigin af mat, brauði og kokum. Þetta var líka frábært tækifæri fyrir ungann “vinnumann” að fá að kynnast öllum störfum, keyra traktor og jeppa og ýmislegt annað skemmtilegt, sem hefði verið óhugsandi annars staðar. Það má segja að Sigga eigi stóran þátt í því að gera mig að manni. Það er með þessar góðu minningar og þakklæti sem ég kveð Sigfríði Jónsdóttur á hennar hinstu stund.
Bæta við leslista
Kveðja
,,Siffý mín, hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?" spurði amma mig oft. Búðakona, var gjarnan svarið mitt, en þú amma? Ég sagði hún og hló, skautadansmær, svífa í fallegum kjól eins og drottning. Þó tækifærin og liburðin hafi ekki hjálpað til að upplifa þessa drauma, þá var hún alltaf dálítil drottning, ég hef oft tekið við hrósi á borð við; mikið ofsalega er amma þín glæsileg kona og vel tilhöfð, eins og drottning.
Bæta við leslista
Minningargrein
Nú þegar Sigga Jóns eins og hún var alltaf kölluð hefur hvatt þennan heim og er komin í Sumarlandið.Þá vil ég minnast þeirra hjóna.
Bæta við leslista
Kveðja
Elsku Sigga, það er komið að kveðjustund. Ótal minningar koma fram og mikið þakklæti. Það var dásamlegt að vera hjá ykkur Sigurjóni í Skálholtsvík á sumrin og sú reynsla sem ég öðlaðist þar hefur verið mér svo dýrmæt. Þið tókuð alltaf svo vel á móti okkur sem voru hjá ykkur, gáfuð ykkar góðan tíma í að kenna, hvetja og hrósa og lögðuð mikla áherslu á að öllum liði vel í sveitinni.
Bæta við leslista