no image

Fylgja minningarsíðu

Reynir Halldór Eyjólfsson

Fylgja minningarsíðu

19. mars 1937 - 29. ágúst 2023

Andlátstilkynning

Elsku faðir minn, tengdafaðir og afi Reynir Halldór Eyjólfsson, frá Haugum, Skriðdal lést á heimili sínu í Hafnarfirði 29. ágúst. Útförin fór fram í kyrrþey að hans ósk.

Útför

Útför fer fram í kyrrþey.

Aðstandendur

Kristín Bjarnveig Reynisdóttir, Ívar Benediktsson Axel Helgi Ívarsson Eiður Ívarsson, Karen Elizabeth Swenson Elio Bjarki Ívarsson

Þakkir

Þökkum auðsýnda samúð.

Til pabba

Rétt í þann mund sem skaflinn í Gunnlaugsskarði Esju hvarf og blár ofurmáni fór vaxandi á himinhvelfingunni lokaði pabbi Lífsbókinni. Nú getur hann ferðast um himingeiminn, skoðað stjörnuþokur, Mars og systkini, án þess að skýin byrgi sýn. Ísland telst seint heppilegt land til stjörnuskoðunar. Pabbi átti amk fjóra stjörnukíkja á ævinni. Þann tæknilegasta eignaðist hann eftir áttrætt. Hann gat auðveldlega sett nýja franska kíkinn í Citroën bifreið sína og skottast austur á Þingvelli þar sem lítil var ljósmengunin. Þar sat hann inn í þeim franska á frostköldum nóttum, fjarstýrði kíkinum með appi í símanum og tók myndir. Komst m.a. að því að kíkirinn þoldi ekki meira en mínus 16 stig. Svalirnar á 9. hæð á Hvaleyrarholtinu voru líka nýttar til stjörnuskoðunar. Þær vísa til suðurs með mergjað útsýni yfir Reykjanesskagann.Pabbi var fjölfróður maður. Hann fékk snemma áhuga á himingeimnum á dimmum vetrarnóttum í Skriðdal. Hann ólst upp á ættarjörðinni Haugum, Birkihlíð í 2 ár og seinna að Hátúnum hjá móður sinni og móðursystur Ragnheiði, manni hennar Árna Bjarnasyni og sonum þeirra, Einari, Sigurði, Bjarna og Sigurbirni.Eyjólfur faðir hans lést ungur að árum, frá ömmu Kristínu, pabba 6 ára og Kjartani 4 ára. Þar með klipptist á tengsl hans við föðurfólkið. Tveimur dögum fyrir andlátið rifjaði pabbi upp hvað honum þótti það sérstakt og miður. Pabbi rifjaði oft upp veiðisögur af föður sínum og afa, Eyjólfi og Halldóri. Þeir þóttu einkar góðar hreindýraskyttur. Sem betur fer geymir góð bók veiðisögurnar og dýrmætt að eiga örfáar myndir af föðurfólkinu sínu. Hann varð snemma læs. Fór í farskóla í þrjá vetur og lærði dönsku í gegnum Ríkisútvarpið. Hann þvældist um heiðar og dali við smalamennsku og veiðar. Áhugi á útivist, náttúru, flóru og jarðfræði Íslands markaður til lífstíðar. Fjármagnaði nám í MA með sumarvinnu við Grímsárvirkjun og las fyrsta bekkinn (3. bekkinn) utanskóla heima í Hátúnum, 1955-1956. Í MA fékk hann áhuga á tónlist og lærði á gítar, sem hann lék á nær fram á síðasta dag. Hann kom fram með Guttabandinu í MA og Lúdóbandinu austur á Héraði og fjörðum. Langaði að nema stjörnufræði en ódýrast var að læra lyfjafræði. Fór í framhaldsnám í lyfjafræði og lífrænni efnafræði til Kaupmannahafnar, sem lauk með doktorsprófi í greinunum. Kynntist mömmu og þau giftust 1962. Ég kom í heiminn þremur árum eftir síðar heima á Íslandi. Fluttum heim 1971 eftir að þau höfðu tekið erfiða ákvörðun að fórna starfsframa í Kaupmannahöfn og vera nær fólkinu sínu á Fróni. Pabbi hafði skýra sýn um að lyfjaiðnaður gæti þróast á Íslandi. Lagði hann lóð á vogarskálar til þess að svo yrði. Hann var einbeittur í sínu fagi og hafði mikla ástríðu fyrir því. Ferilskráin hans er uppá margar blaðsíður þar sem m.a. koma fram upplýsingar um öll lyfin sem hann átti þátt í að þróa, lærðar greinar sem hann skrifaði í fjölmörg tímarit. Gaf út kennslubók í lyfjaframleiðslu á áttræðisaldri, skrifaði hnitmiðaðar greinar í Moggann og víðar. Laghentur var hann. Smíðaði ungur flottan kassabíl, með hjólum undan barnavagni, glerlausum glugga og hurð. Klæddi loftið að innan með sementspokum. Seinna smíðaði hann m.a. gróðurhús, kartöflugeymslu, eimskáp fyrir lyfjagerð, gerði upp og gerði við bíla, lagði flísar og fleira. Í vor vantaði að gera við Citroën bílinn hans, sem var orðinn 13 ára gamall. Umboðið slugsaði að panta varahlutina. Lausnamiðaður var sá gamli. Pantaði glussatjakka á eBay, fyrir fjöðrunarkerfi franska vel með farna bílsins. Fékk þá til landsins á innan við viku. Mætti með þá á viðgerðarverkstæðið þar sem þeir voru settir í. Hann gekk úr Hvaleyrarholtinu út á Velli þar sem verkstæðið var til að sækja bílinn. Heims- og Íslandsreisur með Jóhönnu sinni gerðu mikið fyrir hann. Þau ferðuðust víða um heim, m.a. Kína, Egyptalands, um Miðjarðar- og Karabíahaf og víðar. Einstakt snyrtimenni var pabbi, elskaði rútínu og reglu. Lærði ítölsku til að efla þekkingu sína í lyfjafræði, hafði áður lært rússnesku í sama tilgangi. Seinna stúderaði hann sænsku, því honum þótti hún mun hljómfegurri en danskan. Hann hafði húmor. Kom eitt sinn inn til landvarða í Ásbyrgi talandi ítölsku og heyrði þá tauta, „déskotans Ítali mættur!“ Efldi sig á alnetinu í tölfræði, photo-shop forritinu, lærði jurtalæknisfræði í fjarnámi og leiðrétti námsefni skólans. Dreif mig í ferðalög um Ísland þvert og endilangt sumrin eftir að mamma lést . Gengum á fjöll í misgóðu skyggni. Efldi hann með því áhuga minn á náttúru Íslands. Sumarið 1990 einkenndist af þokugöngum. Þá kom áttavitinn sér vel, oftar en einu sinni. Þegar ég lærði á tölvur og forritun í MR 1984 keypti hann sér tölvu og lærði forritun. Sagði mér að framtíðin lægi í tölvuþekkingu. Hann studdi mig með ráð og dáð í sjúkraþjálfunarnámi og Macintosh tölvan hans kom sér vel í BS-ritgerðarsmíðum. Hann var alltaf með okkur Ívari og börnunum í liði og var okkar helsti stuðningsmaður. Hélt sér um leið í ákveðinni fjarlægð. Hann var aldrei afinn sem sagði barnabörnunum sögur eða fór með þau í ísbíltúr. Leiddi þau áfram með sínum hætti. Hvatti þau til sjálfstæðis, að byggja upp framtíðina og náði að fagna fjölbreytileikanum með okkur í lokin. Pabbi fór í friði eins og hann óskaði sér. Við þökkum fyrir samfylgdina, samveruna og samkenndina. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

no image

Bæta við leslista