Friðbjörg Ingimarsdóttir - um móður mína
Mamma settist gjarna á rúmstokk okkar systra og fór með löng ljóð og þulur fyrir bænirnar sem voru sem röð ljósa, sem mynduðu verndandi útlínur utan um okkur. Hún kunni líka utan að fjölda þjóðsagna og ævintýra sem hún hafði lært af móður sinni Hólmfríði Bjarnadóttur í hlóðaeldhúsinu á Svertingsstöðum. Passíusálma lærði hún af föður sínum, Jóni Eiríkissyni, og vísnagerð og saman hlustuðu þau þrjú á öll útvarpsleikritin. Hún eirrauðhærða bókhneigða stúlkan fékk að vera barn, hjartagull, mun lengur en eldri systkinin tíu sem hún leit mikið upp til og unni. Af þeim og foreldrum sínum lærði hún að sá sem gerir vel við aðra og vandar sig, sofnar sáttari við dagslok en hún heyrði líka stórfjölskylduna sína takast á um menn og málefni. Móður hennar, með eindæmum jafnlynd var annt um aukinn rétt kvenna. Faðirinn, sem átti býlið, keypti handa henni hveiti og sykur, var sannfærður framsóknarmaður en systur hans, miklir aufúsugestir á Svertingsstöðum, voru eldheitir kommúnista. Þær helguðu sig starfi í þágu alþýðunnar og gaukuðu gjarna einhverju að þeim sem á þurfti að halda og studdu sum bróðurbörn sín til náms. Ein þeirra, Elísabet Eiríksdóttir, var lengi vel formaður verklýðsfélagsins Einingar á Akureyri og sat í bæjarstjórn fyrir kommúnista.