no image

Fylgja minningarsíðu

Pálína Gísladóttir

Fylgja minningarsíðu

27. janúar 1929 - 12. apríl 2022

Andlátstilkynning

Dásamlega móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma Pálína Gísladóttir, fv. kaupmaður í Grundarfirði er látin

Útför

23. apríl 2022 - kl. 13:00

Útförin fer fram frá Grundarfjarðarkirkju

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Halla og Þórarinn, Gísli og Laufey, Jóhanna Hallgerður og Gunnar, Jóhannes Finnur og Guðbjörg, Halldór Páll og Valgerður, Guðrún, Sólrún og Bjarni, Sveinbjörn og Guðlaug.

Minning

Það er komið að kveðjustund hjá okkur Pálínu og nú sest ég niður til að senda henni mínar hugrenningar og minningar frá okkar samferðarstundum. Þegar ég lít til baka og renni yfir okkar kynni frá þeirri stund að ég hef samvistir við dóttur hennar Jóhönnu er mér efst í huga hversu vel hún tók mér og hvað hún hafði mikið álit á mér. Það spillti ekki fyrir að ég kunni að fara með hamar og sög og þegar ég hafði lagt henni til hjálparhönd við hin ýmsu smíðaverkefni var hún óspör á þakkarorðin. Hún var hafsjór af fróðleik um menn og málefni í hinu Grundfirska samfélagi þar sem hún hafði lifað tímana tvenna. Ættfræði var henni einhvernvegin í blóð borin, stálminnug og rökviss og ósjálfrátt smitaði hún mig af ættfræðiáhuga. Það hafði greinilega mikil áhrif á hana að hafa misst móður sína á sviplegan hátt aðeins átta ára og skein sú reynsla oft í gegn í samtölum okkar og ekki síður uppvaxtarárin í kjölfarið. Það varð síðar til þess að ég fór fyrir hennar orð að safna saman því sem hún hafði ritað hjá sér í gegnum tíðina og það kom í ljós að minningarbrot þessi gáfu tilefni til að koma þeim í eina heild sem varð að bók og sem ég gat afhent henni í 90 ára afmælinu í janúar 2017. Það lýsir Pálínu vel að þessa samantekt hugsaði hún fyrst og fremst til fróðleiks fyrir afkomendur sína en það voru hennar mestu sælustundir þegar tilefni gáfust til samverustunda með fjölskyldunni. Hún hafði sérstakan áhuga á tölum og gat munað allt sem viðkom tölum alla afmælisdaga fjölskyldumeðlima hafði hún takteinum, ártöl og viðburðir sem þeim tengdust voru á hraðbergi hjá henni ef hún var spurð. En fyrst og fremst minnist ég tengdamóður minnar fyrir hennar hláturmildi og jafnaðargeðs, þá var hún mikil matarkona sem hafði unun af að stússast í bakstri og eldamennsku og ófáar veislurnar man ég þar sem hún snerist í kringum þá sem til borðs sátu og gæddu sér á frambornum kræsingum og mér fannst hún alltaf ánægðust ef einhver bað um ábót í þriðja sinn. Þar var lúðusúpan hennar sú sem hæst skoraði af öllum öðrum réttum ólöstuðum. Merkilegt nokk þá var það nánast siður hjá henni að setjast aldrei sjálf niður fyrir enn allir voru mettir. Það er komið að leiðarlokum og minningarnar um samverustundir ylja. Hún hafði á orði fyrir allnokkru síðan að sér finndist komið gott af lífi og hún væri tilbúin til kveðja, þrátt fyrir það náði hún að verða 93 ára og gott betur og kvaddi södd lífdaga þann 12. apríl sl. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Bæta við leslista

Æviágrip

Pálína Gísladóttir var fædd að Skallabúðum í Eyrarsveit 27. Janúar 1929. Hún lést á Hjúkrunar heimilinu Fellaskjóli í Grundarfirði þann 12. apríl 2022. Foreldrar Pálínu voru þau Jóhanna Hallgerður Jónsdóttir f. 1906 d. 1937 og Gísli Karel Elísson f.1899 d.1973. Systkini Pálínu eru Vilborg f. 1927 d. 1979, Elís f.1932 d. 2020 og Hólmfríður f. 1935.

Bæta við leslista