no image

Fylgja minningarsíðu

Óskar Eggertsson

Fylgja minningarsíðu

24. ágúst 1934 - 22. janúar 2022

Andlátstilkynning

Maðurinn minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, Óskar Eggertsson rafvirkjameistari frá Ísafirði, lést laugardaginn 22 janúar.

Útför

29. janúar 2022 - kl. 14:00

Jarðsungið verður frá Ísafjarðarkirkju 29. janúar klukkan 14. Vegna gildandi fjöldatakmarkana er fjöldi gesta takmarkaður en athöfninni verður streymt.

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Sólveig Hermannsdóttir. Sævar Óskarsson, Hermann Óskarsson, Óskar Eggert Óskarsson. Tengdadætur, barnabörn og barnabarnabörn

Óskar Eggertsson minning

Í minni frumbernsku í Garðabænum voru það mikil tíðindi þegar von var á Sollu systur pabba og Óskari manninum hennar. Á þeim tíma voru vegirnir frá Ísafirði til höfuðstaðarins að langmestu leyti malarvegir og ferðatíminn líklega 7 – 8 klst. Ég man fyrst eftir Óskari og Sollu koma á ljósbláa Citroen bílnum. Sem barni fannst mér það sjúklega spennandi og flottur bíll sem settist á hækjur sér þegar búið var að slökkva á honum. Að sama skapi mátti ég alls ekki missa af því þegar bíllinn fór upp áður en sest var upp í hann. Þá voru sætin einstaklega mjúk. Ég geng út frá því að Óskar hafi vandlega hugsað kaupin á þessum bíl og viljað geta mýkt hossið um malarvegina. Því Óskar ók ekki einungis suður líklega einu sinni á ári heldur líka norður í land og jafnvel oftar til að hitta tengdafjölskylduna. Þegar ég kemst á unglingsár hafa vegirnir eitthvað örlítið batnað sem leiddi af sér að Óskar og Solla komu oftar suður sem mér þótti einkar skemmtilegt því þau voru góðir gestir. Á þeim árum keypti Óskar síðasta Í250 bílinn sinn sem var Citroen eðalkerra sérpantaður frá Frakklandi. Tæknimöguleikar þessa bíls voru undraverðir og einstaklega vel hugsað um farþegann í aftursætinu en hæst bar þó að hægt var að hækka bílinn tvisvar sinnum upp, sem þýddi að hægt var hreinlega að breyta honum í jeppa! Óskar sýndi mér spenntur þennan eiginleika bílsins fyrst þegar ég kom vestur og þá á einhverjum fjallvegi. Mér fannst þetta göldrum líkast. Einhvern veginn finnst mér þessi bílakaup Óskars lýsa honum á margan hátt mjög vel. Hann var vissulega áhugamaður um bíla, hafði gaman af tæknilausnum og var þar fremur framsýnn og fylgdist með hvað væri að gerast. Bílahátalarnir í hverju herbergi í Sundstrætinu með hækka/lækka takka, sem mér skilst að hafi verið þar settir fljótlega eftir að þau fluttu inn, sýna áhuga á tækni, framsýni, vera lausnamiðaður og handlaginn auk umhyggju til fjölskyldunnar um að allir áttu að fá að njóta útvarpsins og á þægilegan hátt. Sama gilti um bílinn, hann greiddi götu Óskars og fjölskyldunnar og vel fór um alla ferðalanga í langri ferð. Auk þess hafði bíllinn skemmtanagildi fyrir bílstjórann en Óskari fannst gaman að keyra. Ég var svo heppin að kynnast Sollu, Óskari og Óskari Eggerti einstaklega vel sumarið 1988 þegar við fórum ásamt foreldrum mínum í ferð til Noregs en þar dvöldum við í hálfan mánuð og ókum samfellt í eina viku um í Noregi og gistum í norskum hyttum. Óskar valdi farskjótann en ók um eins og honum var sagt. Honum leið best að fá bara fyrirmæli um hvert hann ætti að aka. Hann leyfði mágkonu sinni og eiginkonu alfarið að sjá um fararstjórn. Hann valdi bílinn, vildi fá ristað brauð með marmelaði og osti á morgnana og bjór að kveldi dags. Óskar var svo sannarlega ekki maður mikils drama, hann hafði góðan húmor og hafði gaman að því að hlýða á skemmtisögur en var meira í því að skjóta inn í kannski einu og einu orði en meira voru það nú að pabbi og Solla sem sögðu sögurnar. Þá hló Óskar ekki hrossahlátri, enda á engann hátt hávær maður, nei hann rétt opnaði munninn og svo kom svona létt dillandi bassahljóð. Á margan hátt tel ég að Óskar og mamma hafi átt góða vináttu í hvoru öðru með því að eiga það sameiginlegt að vera hljóðlátari makinn í bakgrunninum gift þessum fjörugu og skoðanaglöðu fjörkálfum. Solla og Óskar, mamma og pabbi og ég ókum síðan um Þýskaland, Sviss og Austurríki sumarið 1994 og þá að sjálfsögðu var Óskar bílstjórinn, ég las úr kortabókinni og bar tillögur um áfangastaði undir ferðalangana og svo nutum við þess að vera í ,,roadtrip“ og gista á farfuglaheimilum. Mikið var hlegið og haft gaman í þeirri ferð. Ógleymanlegt ferðalag með Sollu og Óskari ásamt stórfjölskyldu þeirra og vinum var síðan til Perú árið 2007 þegar Atli og Ceci giftu sig. Við öll vorum spennt og snortin af því að sjá og kynnast gjörólíkri menningu landsins og vitaskuld að kynnast yndislegri fjölskyldu Ceciar. Um mitt sumar árið 2000 flutti ég til Ísafjarðar og bjó þar í eitt ár og vann. Á þeim tíma var ég ein í stóru húsi en ég vissi alltaf að ég átti athvarf í Sundstrætinu hjá Sollu og Óskari hvenær sem væri. Ég gæti leitað til þeirra um hvað sem er og borðað ef ég vildi. Óskar var svo mikill ljúflingur, umhyggjusamur, skapgóður og greiðvikinn að ég var ekkert rög að leita til hans og gerði það. Fékk t.d. lánaðan bílinn eða bað hann að kíkja á eitthvað í húsinu. Þá skutlaði Óskar mér iðulega og sótti á flugvöllinn. Ég fylgdist með af áhuga þennan vetur þegar hann, Sævar og Hermann voru að breyta gömlum sjúkrabíl í húsbíl en Óskar var alltaf að sýsla eitthvað. Einhverjum árum fyrr hafði Óskar gert upp Econoliner og breytt í húsbíl og Solla sá um allan saumaskap. Fyrsta skrefið í því verki var ekki að kaupa einhvern vinnuskúr til að sinna þessu, nei hinn lausnamiðaði Óskar sá að það dygði að að gera bílskúrsdyrnar stærri svo bíllinn kæmist inn. En um aldamótin hafði Óskar hins vegar heyrt um að selja ætti gamla sjúkrabílinn á sama tíma og Econolinerinn var orðinn fremur lúinn. Auk þess biði sjúkrabíllinn upp á að geta farið alveg inn á hálendið, hægt var að standa uppréttur í honum og hann var með splittdrifi. Glæsikerran var vígð 2001 vínrauður eins og hinn fyrri og Solla og Óskar nutu þess að skoða landið í bílnum og fá sér nýuppáhellt. Óskari fannst þetta gríðarlega skemmtilegt verkefni og ég held að það hafi átt við þá feðgana alla. Að samvinnan og samvera þeirra í vinnuskúrnum hafi verið einstaklega góð og nærandi. Óskar og Solla voru bæði fyrir að fara vel með hlutina og nýta þá vel. Í Sundstrætinu er ennþá sama eldhúsinnréttingin en Óskar hefur breytt henni eftir því sem þurft hefur t.d. skúffur undir ofninn, ný klæðning var sett á skápana einhvern tímann enda hann einstaklega handlaginn. Nú í sumar heimsótti ég hann með börnin mín og gisti og þá spurði hann mig hvort ég sæi ekki breytinguna í eldhúsinu frá því síðast, sem ég gerði, en hann hafði lakkað gólfdúkinn og kom þetta ljómandi vel út. Ég naut þess virkilega að dvelja í Sundstrætinu og ræða við Óskar nú í sumar í stutta stoppi mínu þar. Líkt og áður hafði hann áhuga á mínu lífi og barnanna minna og gaf sér tíma til að hlusta. Hermann Óskar kom í heimsókn á sama tíma með sína kærustu sem er brasilísk og Óskar hafði mikinn áhuga á að kynnast henni og var einnig að spyrjast fyrir um orð í portúgölsku og atriði tengd Brasilíu. Óskar sinnti fjölskyldu sinni ætíð mjög vel og hún var honum það dýrmætasta. Hann hefur reynst sonum sínum og fjölskyldum þeirra mikill bakhjarl. Ef ég hef fregnað af framkvæmdum hjá þeirri fjölskyldu þá var það alltaf svo að Óskar var fenginn til að aðstoða. Handlaginn, rafvirki og sjálfsagt ómetanlegur ráðgjafi og góður félagi í verkinu og lífinu öllu. Ég er þakklát fyrir að hafa notið þess að kynnast Óskari og hans gildum í lífinu. Ég og fjölskylda mín vottum elsku Sollu frænku, Sævari, Hermanni og Óskari Eggerti og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Minningin lifir.

Bæta við leslista

Óskar Eggertsson - minningarorð

Það má með sanni segja að Óskar Eggertsson hafi verið heilsteyptur heiðursmaður. Hann hafði öruggt og rólegt yfirbragð og yfir honum var ávallt þessi mikla stóíska ró. Hann var ekki maður margra orða heldur valdi orð sín vel, sem gaf þeim sérstaka vigt. Hann gerði fátt að óathuguðu máli, tók ígrundaðar ákvarðanir og stóð með þeim. Óskar hafði algjöra sérstöðu í fjölskyldu Sollu frænku. Hann var að vestan, var í sjálfstæðum atvinnurekstri, hann átti kjólföt sem hann klæddist reglulega, hann setti x-ið lengst af við stjórnmálaflokk sem þá hugnaðist fáum í tengdafjölskyldu hans og hann var áhugamaður um tækni og bíla. Fyrst og fremst var Óskar fjölskyldumaður sem þrátt fyrir annir í störfum, gaf sér ávallt tíma til að keyra suður eða norður í land með frúnni til að heimsækja ættingja og vini.

Bæta við leslista