Kveðja
Í dag hugsa ég með mikilli hlýju og þakklæti til Lóu í Hundastapa. Ég man gamla bæinn og kaffihlaðborðið með smurðu brauði með eggjum, gúrkum og tómötum. Heimilið þeirra Óla var stórt og dugnaður Lóu mikill og saman ráku þau myndarbú, byggðu nýtt hús og fjós og ræktuðu landið. Hún ræktaði fólkið, blómin og dýrin í kringum sig og saman áttum við Lóa hreina og sanna ást á gulum labradorum, "þetta eru svo yndislegar skepnur" sagði Lóa. Hjá henni fékk ég Sölku mína og ég gleymi því aldrei þegar við Dóri bróðir komum í nýja húsið þeirra Óla að sækja hvolpakrúttin. Þau voru nýböðuð og fín og ást Lóu og umhyggja fyrir hvolpunum leyndi sér ekki. Hún tók af mér það loforð að passa að hafa alltaf nýtt vatn hjá hundinum, loforð sem ég hef staðið við af mikilli samviskusemi og nánast þráhyggju sem mitt fólk kannast vel við. Lóa hugsaði afskaplega fallega um Jóhönnu tengdamóður sína og tók við af mömmu í því hlutverki að keyra hana vikulega í sundleikfimi. Vegirnir og færðin voru nú ekki alltaf upp á sitt besta á Mýrunum en alltaf mætti Lóa og aðstoðaði ömmu af sinni alkunnu hógværð og elsku. Lóu hitti ég síðast á fallegum sumardegi fyrir utan Brákarhlíð þar sem hún bjó síðustu árin. Hún sagðist vera farin að týna orðunum sínum, en glampinn í augunum sagði allt sem segja þurfti. Nú er hún farin á vit nýrra ævintýra og það veit Guð að þeir feðgar Óli og Egill hafa tekið fallega á móti Lóu sinni.