Elsku elsku langbesti afi minn.
Tárin renna niður þegar ég reyni að byrja að skrifa eitthvað. Ég trúi því ekki ennþá að þú sért farinn frá okkur. Við eigum eftir að sakna þín svo mikið. En mikið óskaplega var ég heppin að eignast þig sem afa minn. Þú varst minn allra uppáhalds. Það var alltaf gaman með þér og þú reyndist mér svo vel. Við áttum svo margar góðar stundir í kringum hestana okkar og það var líka svo gaman að fara með þér og ömmu í ferðalög. Þú varst alltaf mættur um leið ef okkur vantaði einhverja hjálp og verðum við ævinlega þakklát fyrir það. Það var ansi oft sem þú fékkst að heyra setninguna “afi viltu líma fyrir mig?”, bæði frá mér og Hinriki Óla langafa gullinu þínu. Alltaf var svarið “já auðvitað skal afi gera það”. Eftirminnilegast var þegar ég klippti snuðið mitt í sundur og fór svo beinustu leið til þín að biðja þig um að líma það, þú varst ekki lengi að græja það og skelltir á það heftiplástri. Nafna þínum fannst svo gaman að brasa með þér, fara í dráttarvélina að gefa hestunum, taka hring á sexhjólinu, leika með bruder dótið eða bara kúra í fanginu þínu. Honum finnst mjög skrýtið að þú sért ekki að koma aftur heim til okkar og vill bara komast með þér í dráttarvélina. Það er virkilega dýrmætt að eiga svona margar yndislegar minningar með þér. Það er svo sárt að þú sért ekki lengur hérna hjá okkur en ég man hvað þú sagðir við mig og ég ætla að standa við það. Nú ertu loksins kominn aftur til elsku ömmu Nönnu og þar veit ég að þér líður vel. Þú saknaðir hennar mjög mikið og það er gott að ylja sér við það að nú eruð þið sameinuð á ný. Viltu knúsa hana frá okkur og segja henni frá Hinriki Óla og öllu því sem við höfum brallað saman. Ég mun gera allt sem ég get til að halda minningunni þinni á lofti og við verðum dugleg að heimsækja þig í kirkjugarðinn. Ég veit að þið amma passið vel uppá okkur. Takk fyrir allt og hvíldu í friði elsku afi minn.