Minning
Fallinn er frá góður vinur Ólafur Oddsson. Við kynntumst á Staðarfelli í Dölum fyrir fjölmörgum árum þar sem við eyddum góðum stundum saman. Hann þá um tvítugt, reffilegur töffari ásamt nokkrum félögum sínum í girðingaflokki Skógræktarinnar á Vesturlandi að laga girðingar í nágrenninu. Mamma sá um eldamennsku á Staðarfelli fyrir Kvenfélagasambandið á þessum tíma og var ég að skottast þarna með henni en girðingaflokkurinn var þar í mat og gistingu. Við náðum strax vel saman og hann bauð mér að koma með hópnum að girða. Fyrir mig fimm ára var þetta mikil og eftirminnileg upplifun, að vera með þessum skemmtilega hópi, þar sem Óli fræddi mig um eitt og annað tengt náttúrunni. Mögulega var þarna lagður grunnur að því fræðslusamstarfi sem við komum síðar að saman hjá Skógræktinni á Suðurlandi. Óli var ráðinn kynningarfulltrúi Skógræktar ríkisins og hófst okkar samstarf um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Óli hafði þá skýru sýn að til að auka áhuga og þekkingarstig í skógrækt þyrfti að opna skógana öllum og hvetja fólk til að njóta og upplifa. Með því yrði viðhorf almennings til skógræktar jákvæðara en ella og grunnur yrði lagður að skógarmenningu á Íslandi.