no image

Fylgja minningarsíðu

Ólafur Logi Jónasson

Fylgja minningarsíðu

30. nóvember 1948 - 23. október 2009

Útför

Útför hefur farið fram.

Minning um Óla

Elsku Óli, ástin mín, ég trúi því ekki að þú sért farinn frá mér en ég veit að þú ert núna í góðum höndum hjá foreldrum þínum. Ég er líka svo heppin að vera í góðum höndum hjá fjölskyldunni minni sem hugsar svo vel um mig eftir þessa erfiðu aðgerð og missi. En elsku Óli, ég á margar góðar minningar um okkur saman og varst þú ekki bara maðurinn minn heldur líka góður vinur. Það var alltaf svo gott að tala við þig og vorum við mjög samrýnd. Við áttum fallegt heimili þar sem okkur leið vel. Við spiluðum oft tónlist í stofunni og dönsuðum eins og unglingar frameftir nóttu. Á aðfangadagskvöld fórum við alltaf í kirkju og nutum þess að vera bara tvö ein heima, borða rjúpur, gæs og hreindýrakjöt og drekka rauðvín. Við áttum það sameiginlega áhugamál að njóta þess að vera úti í náttúrunni. Við fórum oft upp að Reynisvatni á sumrin þar sem þú naust þess að veiða fisk og ég fékk mér göngutúra í kringum vatnið og tíndi sveppi og bláber. Við Reynisvatn eyddum við stundum öllum deginum og tókum með okkur nesti. Barnabörnin komu stundum með okkur að veiða og þú varst svo duglegur að aðstoða þau og kenna þeim réttu tökin. Í sumarfríinu fórum við oft dagsferðir í bíltúr og stoppuðum þar sem þú gast farið að veiða. Það var venjan að þú vildir stoppa í sjoppum á leiðinni. Þar keyptirðu þér harðfisk sem þú borðaðir í bílnum mér til mikils ama. Þér fannst ógurlega gaman að því hvað ég skammaðist alltaf mikið yfir lyktinni af harðfiskinum. Við fengum okkur oft eitthvað gott að borða á veitingastöðum á leiðinni þar sem við nutum þess að gæða okkur á steikum. Þú varst alltaf mikill matmaður elsku Óli og hringdir oft í mig úr vinnunni til að athuga hvað þú fengir gott í matinn þegar þú kæmir heim. Þú hlakkaðir alltaf til að koma heim og hitta mig. Það er mjög einmanalegt að vita af því að þú sért ekkert á leiðinni heim lengur, en í hjarta mínu ertu alltaf hjá mér.

Bæta við leslista