no image

Fylgja minningarsíðu

Lilja Hulda Auðunsdóttir

Fylgja minningarsíðu

27. maí 1944 - 15. janúar 2022

Andlátstilkynning

Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og systir Lilja Hulda Auðunsdóttir lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 15.janúar 2022

Útför

4. febrúar 2022 - kl. 13:00

Útförin fer fram frá Norðfjarðarkirkju 4. febrúar kl.13:00

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Auður Helga Kristinsdóttir, Kristín Kristinsdóttir, Sigurjón Kristinsson, Rán Kristinsdóttir, Elísabet Auðunsdóttir og fjölskyldur .

Kveðja til mömmu

Elsku mamma mín mikið á ég nú eftir að sakna þín . Ég veit ekki hversu oft ég hef ætlað mér að hringja í þig í vikunni til að segja þér eitthvað eða spyrja þig ráða. Nú sit ég hérna í eldhúsinu þínu og horfi út á Norðfjörðinn sem var þér svo kær og fjallahringinn sem umvefur fallega bæinn okkar . Þú varst einstök kona með svo fallegt hjartalag og fallegt bros, þú varst glaðlynd og mikil félagsvera og alltaf til í eitthvað skemmtilegt . Þú vildir alltaf líta vel út, klæddir þig smart og þér fannst skipta máli að hárið á þér væri fínt og flott. Þú varst ein af fyrirmyndum mínum í lífinu og styrkur þinn og æðruleysi kom svo berlega í ljós í veikindum þínum og þá ekki síst seinustu vikuna sem þú dvaldir á spítalanum. Þar áttir þú samtal við okkur öll og lagðir línurnar fyrir útförina þína . Við áttum yndislegan tíma með þér því að við vissum að hverju stefndi. Við vildum taka inn sérhvert orð, bros, tár og andardrátt . Ég verð ævinlega þakklát fyrir þennan tíma og það verður gott að ylja sér við þær minningar þegar söknuðurinn og sorgin lætur á sér kræla. Mamma mín þú varst orðin þreytt og varst tilbúin að fara enda búin að skipuleggja flest sem var í þínu valdi . Þú huggaðir okkur og hughreystir og vildir hafa okkur hjá þér helst allan sólarhringinn en það veitti þér styrk og okkur líka . Þú kvaddir á friðsælan hátt þann 15. janúar síðastliðinn með okkur börnin þín og Elsu systir þér við hlið, þú varst svo falleg eins og alltaf . Kærar þakkir vil ég send starfsfólki sjúkradeildar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað fyrir einstaka umhyggju og velvilja þið eruð einstök og reyndust okkur svo vel. Elsku mamma þó að þú sér búin að yfirgefa þessa jarðvist þá veit ég að þú ert alltaf með okkur . Margs er að sakna en líka að þakka. Strákarnir mínir Egill og Kristinn eiga góðar minningar um yndislega ömmu sem var umhugað um velferð þeirra .Elsku mamma nú er komið að leiðarlokum við ráðum ekki okkar tíma hér á jörð . Með djúpu þakklæti vil ég þakka þér fyrir að stand við hlið mér og allt sem þú varst mér elsku mamma. Guð blessi þig og okkur öll sem syrgjum og söknum .Takk fyrir allt og allt.

Bæta við leslista

Kveðja frá Auði frænku

Í dag kveðjum við elsku Huldu í síðasta sinn. Við höfum verið eins og systur og bestu vinkonur frá barnæsku. Eftir að ég flutti að austan héldum við sambandi gegnum síma og börnin mín lærðu fljótlega að ef ég var lengi í símanum var ég að tala við Huldu frænku. Við reyndum líka að heimsækja hvor aðra og hittast þegar færi gafst og þá urðu alltaf fagnaðarfundir. Alltaf tóku hún og Kiddi vel á móti okkur Einari þegar við komum austur. Hulda gladdi mig oft með símtölum, gjöfum og gleðistundum og hennar er sárt saknað.

Bæta við leslista

Engilinn hún amma mín

“Ömmur eru englar í dulagervi” segir máltækið, amma mín var vissulega engill, en hún var ekki í neinu dulagervi. Amma Hulda var engill í húð og hár. Hjartahlý, ákveðin, fyndin og tók öllum með opnum örmum. Ef þú fórst í heimsókn til ömmu Huldu fórstu þaðan út með fullt hjarta og fullan maga, það var ekki spurning. Nú er amma Hulda flogin yfir regnbogann og er eflaust einhversstaðar að baka sólarpönnukökur fyrir alla hina englana. Það er sárt að sakna en gott að ylja sér við minninguna um engilinn hana ömmu mína sem ég var svo heppin að elska.

Bæta við leslista

Hinsta kveðja frá Kristínu Ágústsdóttur

Í dag var elskuleg vinkona mín hún Lilja Hulda Auðunsdóttir kvödd í hinsta sinn. Lilju Huldu kynntist ég þegar ég hóf störf á Náttúrustofunni réttt fyrir aldamótin. Hún starfaði hjá Matís og fyrirtækin tvö deildu starfsmannaaðstöðu í austurenda Verkmenntaskóla Austurlands. Síðar bættust fleiri fyrirtæki í vaskan hóp Eastenders. Ég var að byrja starfsferilinn, hún komin á seinni hlutann. Mér varð strax ljóst að þar fór umhyggjusöm og hreinskiptin kona og ég kunni vel við þá eiginleika. Við kölluðum hana alltaf skipstjórann, enda var hún allt í öllu. Hún fylgdist vel með hverjum og einum og sýndi persónulegu málum einlægan áhuga og umhyggju, hvort sem um var að ræða gleði- eða sorgarstundir. Hún var líka hvetjandi og drífandi, stuðbolti mikill og lét sig sjaldan vanta í starfsmannapartý. Þá bakaði hún pönnukökur handa okkur og tryggði að föstudagskaffið væri á sínum stað. Hún lagði sig fram um að vera snyrtileg og vel til fara og oft þótti henni við yngri konurnar óþarflega svartklæddar og litlausar og var óhrædd að segja það við okkur. Ég kveð Lilju Huldu með mynd af henni skælbrosandi og lífsglaða mér fyrir hugskotssjónum. Brosið var þó aldrei bjartara og innilegra en þegar hún talaði um börnin sín og barnabörn sem voru hennar stolt. Ég skynjaði það þó síðast þegar ég hitti hana að hún var tilbúin að kveðja. Það fór auðvitað svo að eftir endalausar takmarkanir undanfarin ár þá var hinsta kveðjustund elskulegu félagslyndu Lilju Huldu án fjöldatakmarkana. Það var henni líkt. Að lokum langar mig að deila orðum sem við Eastenders völdum til að lýsa henni í tilefni af 70 ár afmæli hennar. Lilja Hulda var umhyggjusöm, dugleg, blíð, góðhjörtuð, hress, drífandi, traust, glaðlynd, litaglöð, hvetjandi, hjálpsöm, elskuleg, áhugasöm, félagslynd, snyrtileg, hugguleg, athugul, glaðvær, hlý og trygg vinum sínum. Ég þakka þér samveruna og vináttuna, blessuð sé minning þín elsku Lilja Hulda mín.

Bæta við leslista