Fylgja minningarsíðu
Katrín Hendriksdóttir
Fylgja minningarsíðu
4. janúar 1927 - 22. júlí 2022
Andlátstilkynning
Yndislega móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langlangamma lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimar á Selfossi þann 22. júlí 2022
Útför
18. ágúst 2022 - kl. 13:00
Útför Katrínar fer fram þann 18. ágúst frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíiu kl. 13.00
Aðstandendur
Ásgerður Margrét Þorsteinsdóttir - Jóhannes Óskarsson Hinrik Þorsteinsson - Guðný Ragnhildur Jónasdóttir Matthías Þorsteinsson - Bryndís Brynjólfsdóttir Jóel Þorsteinsson -Silja Þórisdóttir Anna Þorsteinsdóttir - Guðmar Guðmundsson Elísabet Þorsteinsdóttir - Detlef Guderian Katrín Katrínardóttir - Theodor Francis Birgisson
Elsku tengdamamma
Í dag fylgjum við tengdamóðir minni, Katrínu Hendriksdóttur, til grafar. Með Katrínu er gengin einn stærsti karakter sem ég hef kynnst. Kynni okkar byrjuðu ekki endilega vel þar sem ég var kornungur þegar ég varð ástfanginn af yngstu dóttur hennar og það fannst henni ekki besta hugmynd í heimi. Í gegnum árin lærðum við þó að meta hvort annað og á milli okkar varð mjög hlý og einlæg vinátta. Hún var einstaklega heilsteyptur einstaklingur, stálheiðarleg, einlæg og afar trúföst sjálfri sér, fólkinu sínu og skapara sínum. Aldrei heyrði ég hana hallmæla einhverjum eða tala í bakið á samferðamönnum sínum. Það var hennar siður að segja hlutina beint við þá sem hún átti eitthvað vantalað við. Sumum fannst hún jafnvel of hreinskilin á köflum en það var aldrei illa meint hjá henni. Hún sagði mér til dæmis alltaf beint út að ég hafi bætt á mig kílóum og skipti þá litlu hvort það hafi gerst í rauninni eða ekki. Katrín var raunagóð og hafði þann hæfileika að eiga auðvelt með að taka þarfir annara fram yfir sínar eigin. Hún var mjög listhneigð og deildi oft með mér vísukornum sem hún hafði sett saman og snérust þau flest um einlægja vináttu hennar og Jesú Krists. Hún málaði líka á striga og stundaði það fram undir tíræðisaldur. Þá er ónefndur útsaumur hennar sem var glæsileg listsköpun út af fyrir sig. Hún sagði mér síðastliðið vor að hana hafi langað sem ungri stúlku að verða hjúkrunarkona eða listamaður. Ungar konur fæddar í upphafi síðustu aldar höfðu því miður sjaldnast val um í hvaða farveg líf þeirra fór. Tengdaforeldrar mínir eignuðust ung stóran barnahóp og börnin urðu það listform sem tengdamamma helgaði líf sitt. Það er ekki ofsögum sagt að því verkefni sinnti hún lista vel. Tengdamamma hafði ekki alltaf lífsins meðbyr og á köflum hefði verið auðvelt fyrir hana að leggja árar í bát. Það kom þó aldrei til greina. Ung að árum misstu tengdaforeldrar mínir átta mánaða son sinn og tengdamamma mín varð síðan ekkja aðeins 48 ára gömul eftir að tengdapabbi lést í hörmulegu vinnuslysi. Það þurfti gríðarlegan styrk til að halda áfram eftir að hún missti Steina sinn og sótti hún þann styrk í óbilandi trú sína á Guð, sem á móti var alltaf til staðar hjá henni. Ég á tengdamömmu minni gríðarlega margt að þakka og er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast henni. En einmitt það hvernig mamma hún var börnum sínum og hvernig amma hún var börnunum mínum er það sem ég er þakklátastur fyrir. Katrín var alltaf til staðar fyrir börnin mín og þau öll fjögur voru mjög tengd ömmu sinni. Þeim fannst hún reyndar stundum svolítið stíf á meiningunni en þau kunnu á sama tíma að njóta þess hve launfyndin hún gat verið. Katrín var ekki kona margra orða og gerði litlar kröfur fyrir sjálfa sig. Henni var þó mikilvægt að fólkið hennar stæði við sitt og sinnti sínu með sóma. Það gerði hún líka sjálf í stóru sem smáu. Mig langar að enda þessi kveðjuorð mín á broti úr texta eftir Braga Valdimar Skúlason, en textinn finnst mér eiga einstaklega vel við elsku tengdamömmu mína:
Bæta við leslista
Til elsku mömmu
Elsku móðir mín Katrín var einstök manneskja og sér á parti eins og hún sagði sjálf. Ég á henni margt að þakka, umfram allt að hún veitti mér öryggi, skjól og opin faðm í uppvexti mínum. Hún veitti mér sveigjanleika og hlustun, leyfði mér að fara mínar leiðir. Hún hélt sínu striki og lífsgildum sem gáfu henni öryggi og fullvissu um vonarríka framtíð. Hennar fullvissa var ófrávíkjanleg, sönn og einlæg. Fullvissa hennar var einlæg og kraftmikil trú á Jesú Krist. Það gaf henni stöðugleika, frið, ró, æðruleysi. Sem áhorfandi vildi ég eignast það sem mamma átti, ég leitaði og fann. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir þá stóru gjöf.
Bæta við leslista
Elsku amma
Það eru margar tilfinningar sem koma upp þegar hugurinn leitar til elsku ömmu. Amma var einstök kona á svo margan hátt og trúfesti hennar og þrautseigja hafa alltaf verið mér til fyrirmyndar. Á svo ótal marga vegu hefur hún kennt mér það að fylgja sinni eigin sannfæringu fleytir manni lengra en flest annað, og að æðruleysi ofar öllu er ávísun á frið og gleði. Amma sýndi mér alltaf ást þó að það hafi ekki alltaf verið með orðum, en þá gerði hún það svo sannarlega í verki. Hvort sem það var í gegnum skrifuð bréf sem hún sendi mér yfir hafið þegar ég var búsett erlendis, heitur kvöldmatur þegar ég kom svöng og heimsótti hana eða bænirnar hennar. Ég man ófá kvöldin sem að við eyddum saman fyrir framan sjónvarpið að horfa á sápuóperur eða aðrar minna skemmtilegar bíómyndir á Rúv, sem var uppáhalds sjónvarpsstöðin hennar, þá gat hún alltaf sannfært mig um að þetta væri eðal sjónvarpsefni, svo áfram gláptum við saman, ósjaldan með súkkúlaðirúsínur í hönd. Amma var einstök kona með hjarta úr gulli. Þegar lífið blés hressilega á móti, þá var faðmlag frá ömmu með orðunum "Guð blessi þig og styrki" eins og byr undir báða vængi. Amma var ekki kona margra orða en alltaf átti ég skjól hjá henni, jafnvel þegar langt leið á milli þess að við hittumst og spjölluðum. Spilakvöld með frasanum "legg við hjá ömmu og loka" kalla enn þann dag í dag fram hlátur og gleði enda hafði amma endalaust gaman af því að spila, og spilaði mikið við okkur systkinin. Ég sakna hennar sárt. Sakna þess að hlæja ekki með henni, borða súkkulaði með henni, spjalla um daginn og veginn og bara vera með henni. Hún var ekki alltaf meðvituð um sitt eigið ágæti, en amma var einn stærsti karakter sem ég hef kynnst. Elsku amma, þín er sárt saknað en ég veit að þú ert á betri stað og brosir við okkur með dásamlega glettna brosinu þínu. Minning þín lifir og það mun hún alltaf gera. Ég elska þig, þín dótturdóttir Thea Theodórsdóttir
Bæta við leslista
Elsku amma
Amma. Þú varst merkileg kona. Það fara ekki margir í gegnum lífið sem þú fórst í gegnum, og koma út á hinum endanum með heilt haf af fólki sem saknar þín eins og við gerum núna. Mér líður eins og það gerist of oft, að þyngsl tilverunnar dempi og takmarki þann kærleik sem manneskja getur gefið frá sér. Það gerðist ekki hjá þér. Það var ekki ein sekúnda í samverustundum okkar þar sem ég skynjaði ekki hvað þér þótti vænt um mig. Og ég veit að ég er ekki einn um að skynja þá tilfinningu. Ég á svo margar góðar minningar af okkur að tala saman, spila rommí, eða bara horfa á sjöfréttirnar. Minningar sem fyrir öðrum hljóma kannski hversdagslegar, en fyrir mér eru eins og demantar. Því hvað er lífið nema strengur af hversdagslegum atburðum? Ég er ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta nokkurra þeirra með þér. Þessar minningar eru núna það eina sem ég á eftir og ég mun geyma þær og varðveita hjá mér að eilífu. Ég vildi að þú hefðir geta meðtekið hversu vænt mér þótti um þig þegar ég kvaddi þig, en innst inni þá veit ég að þú vissir það. Ég elska þig amma, og eins og allir sem fengu þann heiður að kynnast þér, þá varstu elskuð, og verður svo innilega sárt saknað. Sem vin, ömmu, húmorista, lífskúnster og spila félaga. Ég veit að þú ert núna á þeim stað sem þú ert búin að vera bíða eftir síðan þú varst lítil stelpa. Ég vona að hann sé allt sem þú óskaðir. Ef einhver á hann skilið þá ert það þú. Jósúa Theodórsson
Bæta við leslista