Jónína Vigdís Ármannsdóttir
Það er komið að kveðjustund. Mamma sem gaf mér allt. Í hugann koma ótal minningar um mömmu sem vildi allt það besta fyrir sína fjölskyldu og var á stundum sú sterkasta á erfiðum tímum. Nú verðum við að vera sterk fyrir hana. Það er erfitt að minnast mömmu án þess að pabbi komi þar við líka, þeirra samband var þannig alla tíð þar til hann lést árið 2005. Það ár hefðu þau átt 50 ára brúðkaupsafmæli, alltaf samstíga, þau voru eitt. Því var missir mömmu mikill en frá fyrsta degi var hún ákveðin í að halda áfram, þó held ég að það hafi oft verið henni erfiðara en hún lét í ljósi. Þakklæti fyrir að hafa notið þeirra umhyggju og uppeldis er mér ofarlega í huga. Orð góðrar vinkonu eru svo lýsandi, hún sagði mig "hafa unnið í foreldra lottóinu" ég lít á það sem minn stærsta vinning í lífinu. Þó efni hafi ekki alltaf verið mikil hjá ungum foreldrum með okkur fjögur systkinin þá minnist ég þess ekki að hafa skort neitt, þarna nýtti mamma svo sannarlega sitt nám úr Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Hún saumaði og prjónaði mikið á okkur krakkana, alltaf var passað uppá að matur væri á borðum, lagt mikið upp úr að hafa ákveðna matmálstíma og kvöldkaffið, sú stund væri í dag líklega kölluð "gæðastund" en var bara sjálfsagt fannst manni á þeim tíma. Svo var bakað, ekki bara fyrir jól, nei það var alltaf til gott heimabakað bakkelsi hjá mömmu allt þar til að hennar heilsu hrakaði. Það var víst að ef kíkt var við á föstudögum þá mætti manni ilmandi bökunarlykt og þá var hún stundum að prófa nýjar uppskriftir sem hún fann í blöðunum. Það var oftar en ekki hlaðborð heimagerðra veitinga um helgar og svo ekki sé talað um ef eitthvað sérstakt tilefni var. Heimilið var alltaf opið öllum vinum okkar systkinanna, svo oft var margt um manninn og mikið líf og fjör. Þegar ég hugsa til baka er ég undrandi á þolinmæði foreldrana og þá ekki síst mömmu, gagnvart ýmsum uppátækjum okkar á heimilinu en alltaf tókst henni að hafa hreint og snyrtilegt í kringum okkur, allt í röð og reglu. Nú síðustu árin sýndi hún mikin styrk og seiglu þegar heilsubrestur lét á sér kræla, hún var einbeitt í því að yfirvinna það og gafst ekki upp, náði sér endurtekið uppúr erfiðum veikindum með markvissri endurhæfingu. Fyrir nokkrum árum var hún svo heppin, eins og hún orðaði það sjálf að komast að í dagdvöl og þjálfun í Múlabæ, sem er dagþjálfun fyrir aldraða og öryrkja, þar leið henni afskaplega vel og var alltaf markmiðið ef eitthvað kom uppá að komast fljótt aftur í dagdvölina þar. Við fjölskyldan hugsum með mikilli hlýju og þakklæti til alls starfsfólks í Múlabæ. Það verður skrítið að taka ekki upp símann til að heyra í mömmu eða kíkja ekki við á Prestastígnum á leið heim úr vinnu. Söknuður er sár en um leið er ég full þakklætis fyrir svo margt, svo sem það að henni tókst að búa á sínu heimili allt þar til að hún lést, ef frá eru taldar þrjár síðustu vikurnar hennar. Skyndileg veikindi urðu til þess að hún var lögð inn á Landspítalann í Fossvogi og þar lést hún 19.desember sl. Síðustu dagarnir voru henni erfiðir en trúin á að hún hafi nú öðlast frið og hvíld í faðmi pabba veitir vissa huggun. Ég bið allt það góða að vera með mömmu á nýjum stað og líka að vera með okkur sem hennar söknum. Ég þakka mömmu fyrir allt sem hún var mér.