no image

Fylgja minningarsíðu

Jónína Ragúels

Fylgja minningarsíðu

6. mars 1924 - 15. október 2022

Andlátstilkynning

Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma Jónína Ragúels, lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð laugardaginn 15.10.2022.

Útför

28. október 2022 - kl. 13:00

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju

Aðstandendur

Margrét Ragúels Halldór Hannesson Sigurlína Ragúels, Ellert Rúnar Finnbogason Björg Ragúels, Gunnar Sigursteinsson Erna Ragúels, Magnús Jónsson Rósa Ragúels Víðir Gunnlaugsson ömmu, langömmu og langalangömmubörn

Mamma 100 ára !

Minningar um mömmu, Í dag 06.03.2024 hefði mamma orðið 100 ára og af því tilefni flögraði hugurinn aftur í tímann. Mamma var alltaf hress og glaðleg eða þannig minnist ég hennar. Hún var samt ekki allra því hún sagði sína skoðun á öllum hlutum og hlífði engum ef þannig stóð á. Allt sem mamma gerði var svo pent og fallegt. Það sem hún bakaði varð að vera alveg nákvæmlega vegið og mælt, ekkert dass hjá henni. Kleinurnar og smákökurnar allar jafn stórar og allt jafn bakað eða steikt. Þegar við vorum litlar systurnar þá saumaði mamma mest öll föt á okkur. Hún vann þá á saumastofunni Heklu, sem þá var í miðbænum á Akureyri, og þar fékk hún snið og efni í föt eins og verið var að sauma þar. Hún sat svo í sínum kaffitíma og saumaði á okkur bæði buxur og úlpur. Í minningunni var mamma alltaf fín og flott. Hún hafði gaman af því að fá sér föt og punta sig. Gekk í skóm með hælum til síðasta dags og fór bara létt með það. Mamma tók aldrei bílpróf. Hún gekk um bæinn allra sinna ferða en ég man samt eftir því þegar saumastofan var flutt úr miðbænum og komin út á eyrina þar sem Glerártorg er núna og mamma vann þá frá 6 til 10 á kvöldin, þá fór pabbi öll kvöld og sótti hana í vinnuna. Það var mikið áfall fyrir mömmu þegar pabbi dó. Hann varð bara 57 ára og var hraustur og hress. Hann fór að finna fyrir brjóstverk og var þungt um andardrátt. Hann var greindur með flensu en þetta var blóðtappi sem fór með hann á stuttum tíma. Hann hafði séð um öll fjármál þeirra og mamma hvergi nærri því komið. Hún kunni ekki að fylla út ávísun sem þá var gjaldmiðill sem við notuðum daglega en unga fólkið í dag þekkir ekki. Mamma bjó ein eftir það og hafði okkur systur allar í kallfæri ef eitthvað þurfti að aðstoða hana. Hún var dugleg í öllu félagsstarfi. Um tíma var það svo að við þurftum nánast að panta tíma ef við ætluðum að hitta hana því hún tók þátt í kór, spilaklúbbi, dansi, handavinnuhópi og fleiru og fleiru. Hún lét sig hvergi vanta. Þegar hún flutti í Mýrarveginn hittist svo á að Sigga Þórðar fékk íbúð við hliðina á mömmu. Þær höfðu þekkst lengi, unnu báðar á Heklu á árum áður en þarna báðar komnar á virðulegan aldur. Það varð mikill samgangur á milli þeirra og þær fóru margt saman. Mamma hafði mjög gaman af ljóðum og kunni ósköpin öll af vísum og ljóðum og hún gat líka ort. Hún gerði örugglega meira af því en við vissum um. Einu sinni þegar mamma var að fara með öldruðum í ferð á fjöll þá orti hún : Oft er á fjöllunum asskoti kalt og ekkert skjól þar að finna en lífið er hverfult og lánið er valt og líklega fáir mér sinna. Því tók ég úlpuna og trítlaði út taldi mig klára í slaginn. Veskið mitt tók, einnig vettlinga og klút og vonglöð ég hélt út í sólbjartan daginn. Þegar mamma fann að heilsan var farin að gefa sig og ýmislegt að bila, þá vildi hún komast á Hlíð. Henni fannst það ekki koma til greina að setjast að hjá einhverri af okkur systrum. Það mátti bara ekki verða. Ég hef alltaf sett það í samhengi við að mamma byrjaði sinn búskap á heimili tengdamóður sinnar, ömmu Guðrúnar, en amma varð svo alla tíð á heimili mömmu og pabba eða þar til hún datt og lærbrotnaði og fór þá á Kristnes, þá rúmlega níræð. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir mömmu að hafa hana á heimilinu en ég heyrði mömmu samt aldrei kvarta yfir því. Sumarið 2021 var dásamlegt sumar fyrir okkur hér á norðurlandinu. Þá skein sólin dag eftir dag og hitamet slegin aftur og aftur. Þetta sumar fór heilsunni hjá mömmu mjög að hraka. Hún fór að finna fyrir meiri hjartsláttaróreglu og ónotum í sambandi við það. þá hringdi hún í mig og bað mig að sækja sig og stoppaði nokkra daga í einu á meðan hún var að jafna sig. Henni fannst gott að koma og vera hér því hún var þá ekki ein á nóttunni. Hún kom fram á morgnana og fékk sér graut, lagði sig svo aftur til ca 10. Þá fór hún á fætur og fékk sér kaffi. Eftir það í göngu, smá hring í hverfinu hjá okkur eða bara á stéttinni við húsið ef hún var slöpp en aðal málið var að sitja svo í sólinni og njóta veðursins. Ég eldaði svo allt sem var uppáhalds eins og kótilettur í raspi, kjötsúpu og svo kálböggla sem mömmu fannst vera kæruleysislega gerðir hjá mér. Þegar hún gerði kálböggla í gamla daga þá lét hún kjötfars á kálblað og bjó til böggul og batt sláturgarn yfir og sauð svo. þetta voru alvöru bögglar. Ég gerði bollur úr kjötfarsinu og í sama pott setti ég kál, rófur og gulrætur og vessgú, allt uppá einn disk úr einum potti 😊 Ekki alveg nógu pent. Þetta sumar hömruðum við á Hlíð að mamma fengi að koma þar inn því henni leið ekki vel með þá tilhugsun að vera ein um veturinn. Það var búið að reyna allt til að laga þessar hjartsláttar truflanir en ekkert dugði til. Í byrjum okt 2021 fékk hún loksins pláss á Hlíð þá 97 ára gömul og orðin mjög lúin og þreytt á þessu lífi. Hún fékk gott herbergi, við hliðina á matsalnum þannig að hún heyrði alltaf í fólkinu frammi og leið vel með það. Fyrstu nóttina fékk hún hjartsláttar óreglu en hún lét ekkert vita af því, það var henni nóg að heyra umgang frammi og vita að hún væri ekki ein. Mamma átti hóp af fólki í kringum sig sem allir voru tilbúnir til að hugsa vel um hana og koma til hennar í heimsókn og stundum þótti mömmu nóg um. Hún lifði í eitt ár á Hlíð, hún dó 15. okt 2022 Takk fyrir allt mamma mín, þín dóttir Björg Ragúels

no image

Bæta við leslista