Kveðja
Nonni bróðir minn var mér dýrmætur. Ég er önnur í röð sex systkina og hann kom næstur á eftir mér. Sem stelpa var ég alltaf svo stolt af honum. Hann var ekki aðeins ljúfur og góður heldur þótti mér hann líka svo fallegur. Vinkonur mínar báðu hann ítrekað að opna og loka augunum, því augnhárin voru svo löng og augun svo falleg. Hann var sannarlega mikill sjarmör.
Nonni var líka ávallt svo hlýr og hugulsamur við mömmu og við systkinin stríddum honum sem börn með því að kalla hann "prinsinn hennar mömmu". Hann launaði henni sannarlega ástúðina og hugsaði ætíð svo vel um hana.
Lífsverkefnin hans voru fleiri og þyngri en margir kynnast. Heilsufarið var eitt það stærsta og ótal sjúkrahúsinnlagnir átti hann að baki. Jafnvel þó útlitið væri oft svart, ófáar nætur á gjörgæslu þá var hann oft kominn á rúntinn næsta dag. Hann var gerður úr einhverju öðru, staðfastur í því að mamma þyrfti ekki að missa fleiri syni. Ég fór fyrr á árum með honum í fjölda læknisheimsókna í tengslum við krabbameinsmeðferðir hans, bæði til Reykjavíkur og Svíþjóðar.
Það voru ófá matarboðin í Bakkahlíðinni, þar óx jafnt og þétt vinátta hans og Gylfa þrátt fyrir hversu ólíkir þeir voru. Svo kom Hrönn inn í líf hans og þá bættust enn fleiri dýrmætar samverustundir þar sem gleðin var við völd og ég er þakklát fyrir.
Hjálpsemi og hugulsemi voru honum í blóð borin. Þegar heilsan leyfði aðstoðaði hann okkur við allskonar viðhald enda við alin upp við nýtni og útsjónarsemi. Hann kom gjarnan færandi hendi úr útlöndum með glaðning handa Elfu og Hildi þegar þær voru litlar sem minnast stríðins frænda sem gaman var að kalla "Nonna belg". Við Nonni fögnuðum nýju ári saman til margra ára með fjölskyldum okkar, þá mætti hann með fulla kassa af flugeldum og bús undir hendinni.
Ég kveð í dag kæran bróður, bróður sem lífið fór ekki alltaf mildum höndum um, en uppgjöf var ekki í hans orðaforða. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður beri orðið seigla og þrautseigja betur en hann. Nonni var hugmyndaríkur, uppátækjasamur og mikill fjölskyldumaður sem vildi hafa gaman af lífinu.
Þótt hann hafi kvatt of snemma var heilsan orðin þannig eftir áratuga þrautargöngu, að hann sleppti takinu. Megi kær bróðir minn hvíla í friði.
Ég votta Hrönn, Gunnari Rafni, Héðni, Baldvini og fjölskyldum þeirra innilegrar samúðar.