Fylgja minningarsíðu
Jón Björnsson
Fylgja minningarsíðu
29. júní 1937 - 30. júlí 2025
Andlátstilkynning
Ástkær eiginmaður minn og besti vinur, Jón Björnsson fv. flugumferðarstjóri lést í faðmi fjölskyldunnar 30. júlí 2025.
Útför
19. ágúst 2025 - kl. 15:00
Útförin fer fram í Kópavogskirkju
Aðstandendur
Þorgerður Aðalsteinsdóttir Guðrún Jónsdóttir & Hallmundur Marvinsson Björn Jónsson & Helga Sigurðardóttir Aðalsteinn Jónsson & Elísabet Sveinsdóttir Bragi Jónsson & Erla Hendriksdóttir
Afi Nonni – Minningarorð
Elsku hjartans afi Nonni lést 30. júlí, 88 ára gamall, í faðmi fjölskyldunnar. Hann var einstakur maður – hjartahlýr, glettinn og jákvæður – og átti ótrúlegt lag á að láta öllum líða vel í kringum sig. Með nærveru sinni gerði hann lífið skemmtilegra og kom manni til að brosa, sama hvernig dagurinn var.
Bæta við leslista
Sigurvegari lífsins
Elsku tengdapabbi. Afi Nonni.
Bæta við leslista
Kveðja til besta vinar míns
"Góðan daginn og gakktu í bæinn. Kaffi?“ Nákvæmlega svona hljómaði móttakan hjá pabba þegar ég kíkti, stundum eldsnemma, í heimsókn – hátt og skýrt. Það var alveg sama hvernig á stóð – hvort sem maður mætti í sparifötum eða náttfötum – alltaf stóð hann í dyragættinni með bros á vör. Tilbúinn í daginn. 100% jafnaðargeð. 100% opinn armur – alltaf. Þessi einstaki maður, sem ég á svo mikið að þakka, var ekki bara pabbi minn – heldur minn besti vinur. Ég skal alveg viðurkenna það að þegar mér lá eitthvað á hjarta, þá leitaði ég til hans. Smitandi jákvæðni og hlýja, einstök skapgerð og hans ljúfa lund, fékk mann til að slaka á og hafa engar áhyggjur. Ég erfði (því miður) ekki hans skapgerð og sagði Elísabet oft: _Ohhh, af hverju geturðu ekki verið meira eins og hann pabbi þinn?“ Og þá brosti pabbi alltaf sínu rólega brosi og sagði: _Þetta kemur, þetta kemur...“ _Elskar þú þessa konu?“ spurði hann eftir fyrsta stefnumótið mitt við Elísabetu. Þetta var meiriháttar vandræðalegt fyrir okkur bæði, rúmlega tvítug ungmenni sem voru nýbúin að hittast. Helst vildi ég láta mig hverfa á staðnum – en svona var pabbi: hreinn og beinn, og fannst ekkert eðlilegra en að spyrja svona spurningar. Sjálfur hef ég auðvitað spurt syni mína _hvort þeir elski sínar konur“ – enda pabbi mín stóra fyrirmynd. Pabbi kenndi mér margt – hann var umburðarlyndur, góðhjartaður og frábær félagi. Hann átti það líka til að vera mátulega kærulaus töffari, og oft full glannalegur – til dæmis á ferðalögum um landið, og þá fékk hann gjarnan að heyra það frá mömmu. Pabbi átti það líka til að halda á flugeldunum á gamlárskvöld í stað þess að stinga þeim í jörðina – og fékk hann þá aftur að heyra það frá mömmu. Þetta var pabbi. _Malish,“ sagði hann bara, og það þýddi: Engan æsing. Eitt sem ég erfði þó frá pabba var fúskið. Pabbi fór oft með hamarinn á hlutinn í stað þess að nota töng eða skrúfjárn. Hann vildi drífa hlutina áfram og ég sagði oft að hann væri eini maðurinn í heiminum sem notaði hamar á gler. Pabbi vann sem flugumferðarstjóri í farsæl 40 ár. Ekki fyrir löngu síðan hitti ég kollega hans sem sagði mér að pabbi hefði verið sá allra besti að vinna með – ljúfur reynslubolti. Þegar eitthvað kom upp á í turninum var kallað á pabba til að miðla málum. Oftar en ekki náði pabbi í sína samstarfsmenn á sendibíl eldsnemma á morgnana. Menn voru misjafnlega morgunhressir, en það var alveg klárt að gamli fór ekki af stað fyrr en allir höfðu boðið góðan daginn. Þetta var pabbi – með sitt magnaða hugarfar. Pabbi lifði lífinu í gleði, góðmennsku og kærleika – og nú þegar hann er farinn, þá mun ég og mín fjölskylda öll halda hans gildum á lofti. Setningin sem hann sagði jafnan eftir gott spjall: _Lífið – það er að láta sér líða vel“ ...segir allt sem segja þarf um hans viðhorf og karakter. Það tekur því ekki að vera með læti –Malish– og málið er dautt. Mikið á ég eftir að sakna hans. Hvíldu í friði, pabbi minn, minningin lifir – ég elska þig alltaf undurheitt. Þinn sonur, Alli
Bæta við leslista