no image

Fylgja minningarsíðu

Jóel Halldór Jónasson

Fylgja minningarsíðu

26. október 1944 - 16. mars 2024

Andlátstilkynning

Lést í faðmi fjölskyldunnar á landspítalanum Fossvogi

Útför

27. mars 2024 - kl. 14:00

Útför fer fram í Borgarneskirkju

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Halldís Hallsdóttir Lára Jóelsdóttir Jóngeir Jóelsson - Lilja Harðardóttir Eva María Jóelsdóttir - Davíð Sæmundsson Björk Júlíana Jóelsdóttir - Ólafur Björgvin Hilmarsson Reynir Magnús Jóelsson - Elsa Rún Erlendsdóttir Einnig hellingur af barnabörnum og 3 langaafabörn

Ó elsku Afi

Ó elsku Afi minn, ég trúi þessu bara ekki dagurinn sem mér hefur kviðið fyrir alltof lengi er runninn upp. Sá síðasti í þínu lífshlaupi, en ég reyni að hugga mig við að þú hafir verið tilbúin. Ég veit ekki alveg hvernig verður að ganga í gegnum lífið án þess að geta rætt það við þig og haft þig sem hluta af mínum stærstu dögum og mómentum. En ég þakka fyrir öll okkar ár og augnablik saman. Alltaf stutt í grín hjá okkur og ég mun halda áfram að grínast með þig í huga. Þú varst svo góður, alltaf til í að fá mig í sveitina og taka mig með í fjárhúsin. Ég reyndi nú að gera gagn þar en komst nú ekki með tærnar þar sem þú hafðir hælana, en þú hrósaðir mér alltaf og þakkaðir mikið fyrir hjálpina. Ófá spjöllin sem við áttum í hlöðunni þegar við vorum að moka í hjólbörurnar. Síðan þegar ég var nýkomin með bílpróf og bakkaði hálfa leið í skurð með Júlíönu með mér þú komst að sjálfsögðu og dróst okkur upp, en þú nefndir það atvik aldrei aftur sem ég skil ekki ég hefði gert óspart grín af mér. Ég ætlaði mér nú alltaf að draga þig með mér á þjóðhátíð en það gekk ekki (og hefði aldrei gerst), en þið amma horfðuð þó alltaf á brekkusönginn og leituðuð af mér í mannfjöldanum í brekkunni. Þú klikkaðir aldrei á afmælinu mínu og hringdir alltaf í mig sem afmælisbarnið ég kunni vel að meta, það verður skrítið að eiga afmæli næst. Öll símtölin sem fóru okkar á milli og svo þegar þú lærðir að hringja myndsímtal þeim mun ég aldrei gleyma. Þú hafðir alltaf áhyggjur þegar þú vissir af mér veikri eða á vegum landsins og það var alltaf skilyrði að hringja þegar ég var komin heil á áfangastað. Elsku afi minn það sem ég gæfi fyrir glottið þitt, spjall í sveitinni okkar eða bara sitja saman í þögninni yfir sjónvarpinu. Ég gæti haldið endalaust áfram en aðrar minningar mun ég geyma hjá mér og rifja reglulega upp. Takk fyrir að vera bestur í heimi og ég vona að ég hafi nú staðið mig þokkalega sem afa stelpa. Ég mun alltaf passa upp á stundirnar okkar saman og vonandi get ég deilt þeim með komandi kynslóðum sem fengu ekki að njóta þín

no image

Bæta við leslista

Kveðja

Í Borgarneskirkju 27. mars kveðjum við hjónin vin okkar Jóel hinstu kveðju. Ég kynntist Jóel fyrst sem barn, þá bjuggum við bæði á Skógarströndinni hann á Innra -Leiti og ég á Dröngum. Mikil vinátta var á milli foreldra okkar og var það fastur liður annan í jólum að fjölskyldurnar hittust í jólaboði til skiptis á bæjunum. Það sem einkenndi þessar fjölskyldur var gestrisni og mikil gleði, minningarnar því einstaklega góðar um þessi jólaboð. Systkinin á Innra- Leiti voru 6 og við vorum 5 frá Dröngum svo það var gaman að spila og gleðjast. Ég flutti frá Dröngum ásamt fjölskyldunni árið 1968 og liðu þá nokkuð mörg ár sem ég hafði lítið samband við Jóel og hans fjölskyldu. Hann tókst á við lífið og tilveruna, fór á sjóinn , gerðist tamningamaður og fór síðan að búa á Skógarströndinni. Var einstæður faðir um tíma og missti síðar barnsmóður sína. Hann fékk Halldísi sína til hjálpar sem varð síðar eiginkona hans, hún tók utanum barnahópinn og þau urðu samhent og dásamleg hjón. Um aldamótin byggðum við hjónin okkur sumarbústað í landi sem foreldrar mínir höfðu tekið frá þegar Drangar voru seldir. Þá bjuggu Jóel og Halldís á Bíldhóli og sameiginlegt áhugamál hestamennskan tengdi okkur saman. Þegar ég kom fyrst til Jóels og Halldísar fann ég strax að þar ríkti sami andinn sem ég var uppalin við, alltaf tími til að taka móti gestum og allir velkomnir. Við vorum þá með hesta í girðingu við sumarbústaðinn og það var skemmtilegur reiðtúr eftir gamla veginum að Bíldhóli. Sænsk kunningjakona mín kom með mér í reiðtúr að Bíldhóli og fórum líka stuttar ferðir með Jóel. Þetta varð síðan kveikjan af hestaferðum frá Bíldhóli, þar sem Jóel og Halldís tóku á móti sænskum hestakonum þá sá ég um tengslin við Svíþjóð og túlkaði það sem þurfti og var meðreiðarkona í ferðunum. Eiginmaður minn var líka meðreiðarsveinn og sá svo um keyrslu milli staða. Við vorum í þessu samstarfi í 6 sumur. Við nutum þess líka að fara í smalamennskur nokkur haust með Jóel og það hefur verið fastur liður að fara í kjötsúpu á Bíldhóli og síðan í Vörðufellsrétt á hverju hausti.

Bæta við leslista