no image

Fylgja minningarsíðu

Ingvar Breiðfjörð

Fylgja minningarsíðu

1. janúar 1930 - 19. desember 2006

Útför

Útför hefur farið fram.

Minning um pabba

Nú hefur þú fengið hvíldina, elsku pabbi minn. Mig langar að setja hér nokkur orð á blað og minnast þeirra góðu stunda sem þú gafst okkur bræðrunum og einnig Hrefnu fósturdóttur ykkar, Hrefnu systur eins og við köllum hana, sem kom til okkar þegar móðir hennar lést. Þú kunnir hvergi betur við þig en við Breiðafjörðinn, varst oft með hugann við eyjarnar og lífið þar og alltaf áttir þú bát á meðan þú hafðir heilsu til og það var mjög gaman að fara með þér á sjóinn. Tvennt kemur fyrst upp í hugann, er annars er það vegar þegar við fórum á haukalóð og vorum að draga línuna inn og fengum svo stóra lúðu að við vorum nánast í vandræðum að koma henni upp í bátinn, en við fundum ekkert fyrir henni fyrr en hún var komin upp að bátnum. Þú reyndar fékkst mjög stóra lúðu seinna og birtist mynd af þér í blöðunum af því tilefni. Þú þurftir að kalla eftir aðstoð næsta báts til að koma henni upp í bátinn. Hitt sem kemur upp í hugann er þegar þú fórst með okkur og barnabörnin þín nokkur út á sjó og þau veiddu sinn fyrsta fisk og það var nú aldeilis upplifun fyrir þau. Eins þegar þú sigldir með þau í ölduna og lést gusurnar ganga yfir þau og það varð að þvo öll fötin af þeim þegar þau komu heim til ykkar mömmu. Þetta fannst þeim mjög gaman. Eins þegar við vorum litlir bræðurnir og við bjuggum á Skúlagötu 13 og þú varst að keyra. Þá fengum við að fara með þér á flutningabílnum og oft að vera aftur í kassanum sem okkur fannst mjög spennandi og við vorum að reyna að fylgjast með hvert þú værir að fara. En ég man að ég vildi fá að fara með þér suður þegar skipt var yfir í hægri umferðina en þú vildir ekki að ég færi með fyrr en í næstu ferð. Ég man að á leiðinni suður í þeirri ferð fórstu af gömlum vana tvisvar vinstra megin þar sem var tvískipt á blindhæð. Þú varst að hlusta á útvarpið og hafðir ekki hugann við aksturinn, en sem betur fer var enginn á ferðinni á sama tíma yfir hæðina. Það var nú alltaf svo gott að koma til ykkar mömmu og þið pössuðuð Ingvar og Hörpu oft fyrir okkur Brynju þegar við þurftum á að halda og þá höfðuð þið nú gott lag á þeim. Þið Brynja, konan á sloppnum eins og þú kallaðir hana oft, rædduð nú um ýmislegt og hún var nú stundum að kýta eða skammast í þér, en hún vissi að þú hafðir gaman af því. Ég man líka eftir þegar ég fékk að vinna með þér þegar þú varst farinn að vinna hjá Símanum og við fórum margar ferðirnar á Austin Gipsy-jeppanum að leita að bilunum á símalínunum og þá fékk ég nú oft að keyra hann þó ég væri ekki kominn með bílpróf og það var mjög gaman enda held ég að við bræðurnir búum vel að því sem þú kenndir okkur um akstur bíla og að viðhalda þeim. En stundum var ég nú hræddur um að þú dyttir niður úr staurunum þegar þú þurftir að fara þar upp til að lagfæra það sem hafði slitnað. Oft varstu kallaður út eftir að endurvarpsstöðin fyrir sjónvarpið kom og eitthvað bilaði og þú varðst að fara strax að gera við og fór ég margar ferðirnar með þér þangað uppeftir og eins inn á Skúlagötuna. Ég hef einmitt oft hugsað að ef ég hefði ekki farið í Samvinnuskólann á Bifröst hefði ég líklega annaðhvort lært bifvélavirkjun eða símvirkjun enda kenndir þú okkur mörg handtökin á þeim sviðum sem við búum að í dag. Þú baðst mig fyrir nokkru um að klára eitt atriði fyrir þig, en því miður tókst það ekki áður en þú kvaddir okkur, en ég vissi hvað þú ætlaði að gera við það svo ég get vonandi á næstunni klárað það fyrir þig og komið því þangað sem þú vildir. En ég ætla að láta hér staðar numið með þessum fáu orðum og við Brynja, nafni þinn og Harpa þökkum þér fyrir allar góður samverustundirnar og við vitum að þú ert nú á góðum stað og hvíldinni feginn. Takk fyrir allt, elsku pabbi minn. Þinn sonur Skúli.

Bæta við leslista