Minning um Ingunni Ólafsdóttur frá Gerði G. Óskarsdóttur
Elsku Lovísa Bylgja, Anna Björg og Jóna Benný og fjölskylda Ingunnar frænku minnar, sendi ykkur öllum mínar innilegustu samúðarkveðjur við andlát hennar. Þegar ég fylgdist með jarðarförinni í streymi í gær rifjaði ég upp okkar fyrstu kynni. Ég vissi framan af ævinni af Ingu frænku í Hornafirðinum því ég man vel að amma okkar, Kristrún, sendi henni jólagjafir hver jól. En mér fannst Inga svo óskaplega langt í burtu og margar óbrúaðar jökluár milli okkar. En þegar ég óx úr grasi og heimsótti Hornafjörðinn í fyrsta sinn, rétt eftir að Hornafjarðarfljót var brúað, ákvað ég að leita uppi þessa frænku mína. Vissi að hún bjó á Kálfafelli og fór þangað og bankaði upp á. Mér var vísað á Ingu úti á túni þar sem hún var að raka. Ég fór rakleitt til hennar, hún þá 15 eða 16 ára gömul og ég eilítið eldri. Ég kynnti mig og færði henni gjafir frá föðursystrum hennar, Jónu móður minni, og Gullu. Það urðu fagnaðarfundir þarna á túninu og mér finnst við hafa orðið vinkonur upp frá því. Hún kom skömmu eftir þetta í heimsókn til Reykjavíkur og kynntist föðurfjölskyldu sinni. Síðan fór ég ekki um Hornafjörð án þess að líta við hjá Ingu og Kidda í Dilksnesi, ekki síst á þeim árum sem ég sjálf bjó á Austurlandi, fylgdist með myndarlegu dætrunum vaxa og dafna, dáðist af fallegu handavinnunni og vel hirta garðinum, kom líka við hjá Ingu í Kaupfélaginu. En með tímanum fækkaði ferðunum, en ég heyrði frá Ingu, áföllum hennar og veikindum. Við létum jólakortin tengja okkur saman. Á síðasta fundi okkar fyrir nokkrum árum var af henni dregið, en dillandi hláturinn hennar hljómar í eyrum mér. Megi ljúfar minningar um mæta konu ylja í sorginni.