no image

Fylgja minningarsíðu

Ingibjörg Haraldsdóttir

Fylgja minningarsíðu

21. október 1942 - 7. nóvember 2016

Útför

Útför hefur farið fram.

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Með söknuði, trega og djúpu þakklæti kveðjum við Ingibjörgu Haraldsdóttur, skáld, heiðursfélaga og fyrrverandi formann Rithöfundasambands Íslands. Eins og skáldið sjálft þá lýsum við eftir henni, lýsum eftir henni æskurjóðri með elda í augum, en líklega er hún horfin inn í ljóðin sem lifa að eilífu. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Elsku besta amma. Ég trúi því eiginlega ekki að ég sitji og skrifi minningargreinina þína. Mér finnst þú vera svo nálæg og hlý, jafnvel nær mér en áður. Kannski er það bara af því að ég sakna þín. Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur skilið eftir þig, allt sem þú kenndir mér og allt sem þú gafst mér. Þú varst alltaf tilbúin til þess að taka á móti mér með opnum örmum í dyragættinni í Drápuhlíð og þaðan skoppuðum við saman út í Sunnubúð til að kaupa ís eða köku. Kannski komum við við á vídeóleigunni í leiðinni, ef ég ætlaði að gista. Þú varst alltaf jafn glöð að sjá mig, það var alltaf tími fyrir mig. Minningarnar sem við eigum saman úr Drápuhlíðinni eru mér ómetanlegar og ég veit að það mun ekki líða dagur þar sem ég hugsa ekki til þín. Þá get ég dregið fram sögur sem við sömdum saman, hlutverkaleiki sem við lékum eða bækur sem þú last fyrir mig. Þegar ég var hjá þér var heimurinn okkar. Heimurinn var lítil kjallaraíbúð í Hlíðunum og ekkert skipti máli fyrir utan hann. Það er svo sannarlega ekki of djúpt í árinni tekið þegar ég segi að ég sé sú manneskja sem ég er vegna þín. Það er það svo sannarlega ekki. Þú kenndir mér að semja, njóta lífsins og taka ekki neinu sem gefnu. Frá þér hef ég mína stærstu ástríðu, skrifin, sem ég er hvað allra þakklátust fyrir. Svo má ekki gleyma öllum þínum undraverðu ævintýrum sem hafa fyllt mig af sömu löngun í hið ókunna og fyllti þig fyrir mörgum, mörgum árum síðar. Þú varst svo hugrökk, svo sterk, að ef ég kemst nokkurn tímann með tærnar þar sem þú hafðir hælana þá verð ég ánægð. Það er samt líklega ógjörningur að feta í fótspor þín þar sem þú settir markið svo ótrúlega hátt. En elsku amma, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég spjara mig. Ég hef nefnilega ákveðið að alltaf þegar ég sakna þín þá ætla ég ekki að horfa til baka með trega. Ég ætla eingöngu að minnast þín með gleði og þakklæti í hjarta vegna þess að þú átt það skilið. Þú sem varst alltaf í góðu skapi þegar ég kom í heimsókn, sama hvað bjátaði á. Þú átt skilið að minning þín sé hamingjurík og hlý. Nú ertu aftur heil á ný, þú hefur sameinast sjálfri þér og fyrir það er ég þakklát. Þó svo að ég syrgi þig þá get ég yljað mér við ljóðin mín og svo lengi sem ég lifi þá get ég fundið þig í þeim. Takk fyrir þau. Takk fyrir lífið. Takk fyrir útlandaþrána, skrifin og sjálfstæðið. Takk fyrir allt. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Mig langar að minnast Ingu frænku í örfáum orðum eins og ég upplifði hana. Bæði persóna hennar og verk hennar hafa haft þannig áhrif á mig að það mun endast mér ævina á enda. Fyrir mér var hún hugrökk, brosmild, kaldhæðin, lágvær, gagnrýnin, vinnusöm, glettin, hvetjandi, lítillát, næm, spaugsöm, styðjandi, feimnisleg, lífsreynd, fyrirmynd, brautryðjandi. Hún var kröfuhörð í eigin garð en tók sig samt ekki of alvarlega. Hún vildi betri heim en fannst engu að síður veröldin fögur og hún „gat glaðst yfir litlu“ (úr ljóðinu Eftirmæli). Hún veitti innblástur. Lítið, glettið, næmt, hvetjandi augnaráð með örfáum, vel völdum, lágstemmdum orðum höfðu jafnvel langvarandi, lífsbreytandi áhrif. En hún vissi ekki af því. Verkin hennar hafa samofist mínu lífi. Sem unglingur valdi ég mér ljóð hennar Kona sem upplestrarljóð í grunnskóla. Það er þess konar ljóð að það greyptist í undirvitundina þá og fer líklega aldrei þaðan. Jafnframt lá ég yfir ljóðum hennar Orð og Kaffihlé sem barn og unglingur enda voru þau stöðugt nálægt í kennslubókum. Ég valdi ljóð hennar Land til að hengja upp á áberandi stað á heimilum mínum erlendis til huggunar þegar heimþráin gerði vart við sig. Það hékk áfram þrátt fyrir flutninga heim til Íslands. Aðdáun mín á ljóðinu var orðin svo einkennandi fyrir mig að systir mín las það upp þegar ég gifti mig. Ég hlustaði á lestur Ingu sjálfrar á eigin ljóðum á hljóðbók á ferðum mínum með lestum, sporvögnum og flugvélum. Fjarri heimahögum og fólkinu manns hitti ljóðið Bolungarvík um Rannveigu langömmu mann beint í hjartað. Þannig áhrif gleymast seint. Einu sinni hittum við hjónin Ingu og Stínu, dóttur hennar, í Amsterdam þegar við maðurinn minn bjuggum í Hollandi og Inga dvaldi í rithöfundabústað í Þýskalandi. Eftir að hafa gengið tilneydd í gegnum Rauða hverfið var Ingu létt – þetta hafði verið skárra en hún hélt. Og maður spurði sig hvað hún hafði séð í Moskvu og á Kúbu. Lífsreynslan leyndi sér ekki. Ég er þakklát fyrir ættartengslin – annars hefði ég einungis fengið að kynnast verkum hennar og þá hefði bara hálf sagan verið sögð. Út ævina mun ég segja börnum mínum sögur af Ingu frænku og kynna þau fyrir verkum hennar. Samúðarkveðja til Hilmars, Stínu, Rönnu, Þrastar og fjölskyldna þeirra. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Ég kynntist Ingibjörgu ekki fyrr en eftir aldamótin en samt þekkti ég hana miklu fyrr. Ég þekkti hana bæði sem afburðagott ljóðskáld og sem framúrskarandi þýðanda. Í mínum huga var hún kona sem hafði afrekað svo margt í lífinu, í rauninni einmitt það sama og mig langaði til að hafa fyrir stafni. Ég vissi sem sagt af henni löngu áður, þekkti hana áður en ég kynntist henni í lifanda lífi. Við komumst líka að því síðar að við áttum margt sameiginlegt. Báðar höfðum við dvalið í Moskvu, hún þó talsvert lengur en ég. Báðar höfðum við gifst erlendum manni og átt með honum barn, skilið og alið barnið upp á Íslandi. Báðar höfðum við hrifist af rússneskum bókmenntum. Mér þótti líka afskaplega vænt um að Ingibjörg skyldi stinga upp á mér sem spyrli þegar ritþing var haldið um hana í Gerðubergi í janúar 2007. Einn vetur stofnuðum við rússneskan kvikmyndaklúbb ásamt nöfnu hennar Hafstað. Við hittumst þrjár heima hjá Ingibjörgu í Drápuhlíðinni á mánudagskvöldum þegar heilsa hennar leyfði og horfðum saman á rússneskar kvikmyndir. Það var skemmtilegt. Kæra Ingibjörg, við kynntumst of seint, ég hefði viljað kynnast þér enn betur. Þýðingarstarf þitt var mér mikil hvatning til að halda á sömu braut. Betri fyrirmynd hefði ég ekki getað haft. Takk fyrir þær stundir sem við áttum saman og takk fyrir ljóðin þín og þýðingarnar sem opnuðu svo mörgum gátt inn í rússneskar bókmenntir. Við Óskar vottum Hilmari, Kristínu og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning Ingibjargar. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Ingibjörg Haraldsdóttir bjó og starfaði á Kúbu 1969-1975 og tók þátt í stofnun Vináttufélags Íslands og Kúbu, VÍK, haustið 1971. Alkomin til Íslands gegndi hún þar formennsku til ársins 2000. Búsetan á Kúbu, þróunin í Rómönsku Ameríku á níunda áratugnum og loks hrun stjórnkerfis Sovétríkjanna, þessi ólíku tímabil endurspegluðust í starfsemi félagsins undir forystu Ingibjargar. Framlag hennar til skilnings samfélags á Kúbu þar sem reynt er að snúa málunum við af óvinum þess lands byggðist á þekkingu, þolinmæði og fordómaleysi gagnvart öðrum skoðunum. Ingibjörg kom til Havana árið eftir fall Che Guevara í Bólivíu. Efnahagsáætlanir höfðu brugðist, einangrunar gætti og aukinna pólitískra áhrifa Austur-Evrópukerfisins sem komu illa við listamenn. Þegar einræðisstjórnir Rómönsku Ameríku hörfuðu undan uppreisnum á níunda áratugnum kom tímabil endurmats, uppbyggingar og aukinna áhrifa almennings. Það jók svigrúm listamanna svo sem í því félagslega umhverfi sem Ingibjörg hafði umgengist. Í grein í Tímariti Máls og menningar 1988 segir Ingibjörg frá endurkomu til Kúbu: „Eftir tólf ára fjarveru er ég aftur komin til Havana. Svo margt hefur breyst, svo margt er óbreytt. ... Ég mæti gömlum vinnufélaga á götu og hann þekkir mig þrátt fyrir árin tólf: gaman að sjá þig aftur! En í litla almenningsgarðinum við 23. götu er komin upp stytta af Don Kíkóta Ameríku, hana hef ég ekki séð áður. Listamaðurinn er kúbanskur, Sergio Martinez. Þetta er afskaplega sérkennilegur Kíkóti og ekki er merin Rosinante síður sérkennileg – á einhvern magnaðan hátt eru þau táknræn fyrir hina uppreisnargjörnu Rómönsku Ameríku – og hugurinn leitar ósjálfrátt til Che Guevara, byltingarhetjunnar sem líkti sjálfum sér gjarnan við þessa sögupersónu Cervantesar. Hugsjónamaðurinn sem ræðst ótrauður til atlögu við ofuraflið.“ Með hruni utanríkisverslunar Kúbu árið 1991 hófst erfitt tímabil þar sem matvæli og aðrar lífsnauðsynjar skorti. Viðskiptabann Bandaríkjanna og tilraunir til þess að grafa undan sjálfstæði landsins hafði djúpstæð áhrif. Ingibjörg hlaut á þessum árum heiðursorðu Kúbu fyrir unnin störf í þágu vináttu og samskipta þjóðanna. Valdsvið Ingibjargar sem formanns VÍK var öflugt og ósýnilegt, innbyggt í vel gerða manneskju sem þekkti mörk hins mögulega. Við kveðjum góða vinkonu og þökkum fyrir mikilvæga samleið. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Ég sakna ekki þess sem var

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Það er undarlegt að kveðja kæran vin sem hefur verið manni samferða alla tíð, og ekki bara verið samferða heldur ort um hvert skref á þeirri leið og þar með orðað fyrir mann tilfinningar sem ella hefðu verið óskýrar. Ég gleypti í mig hverja bók Ingibjargar þegar þær komu út og las þær áfram uns ég kunni þær meira og minna utan bókar. Ljóðin urðu mér sum svo nákomin að mér fannst ég hafa ort þau sjálf, svo nákvæmlega gátu þau orðað hugsanir mínar og tilfinningar. Í ljóðunum tók hún fyrir hvert skeið í lífi sínu, bernskuárin í Reykjavík og sveitinni á sumrin, æskuárin, ástir, dvöl að heiman með sinni þrálátu heimþrá, heimkomu sem bæði var sæla og kvöl, líf húsmóður í úthverfi – hvaða yrkisefni gat verið óvæntara og þakklátara en það? – skilnað, veikindi ... Enginn hefur túlkað hversdagsleikann sjálfan í öllu sínu veldi eins nístandi vel og hún. Og þó að ljóðin væru um hennar líf – sem um sumt var svo ólíkt annarra vegna þess hvað hún bjó lengi á framandi slóðum – þá voru ljóðin þannig að þau voru í rauninni um okkur allar. Jafnvel okkur öll. Þegar Inga sneri heim eftir meira en áratug í Moskvu og Havana, hámenntuð í kvikmyndagerð og leikhúsfræðum, bjóst hún við að sér yrði tekið opnum örmum af þjóð með nýja sjónvarpsstöð. Seinna sagði hún stundum í gríni að hún hefði getað betrekkt eldhúsið sitt með höfnunarbréfum við umsóknum um störf hjá Ríkisútvarpinu. Út úr vonbrigðum og leiða fór hún að þýða eftirlætisbók sína, ólíkindalega stórvirkið Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov, og skemmta vinum sínum með því að lesa hátt úr þýðingunni þegar við komum í heimsókn. Við hrifumst í hæðir og hlógum okkur máttlaus þannig að Inga bauð Máli og menningu þýðinguna. Á þessum tíma var Íslenski þýðingarsjóðurinn stofnaður og var nógu öflugur fyrstu árin til að gera útgefendum kleift að greiða þokkaleg laun fyrir langar og vandaðar þýðingar. Meistarinn og Margaríta kom út 1981 og það varð svo aðalatvinna Ingu næstu rúma tvo áratugi að kynna löndum sínum stórvirki rússneskra bókmennta, einkum verk Fjodors Dostojevskí. Vel má ætla að þau verk hennar hafi haft afgerandi áhrif á íslenskar bókmenntir ekki síður en ljóðin hennar. Ingibjörg var listagott ljóðskáld, afburðaþýðandi og einstakur upplesari. Rödd hennar er nú þögnuð en við og komandi kynslóðir munum lengi njóta þess sem hún skildi eftir hjá okkur. Innilegar samúðarkveðjur til barna og barnabarna. 

Bæta við leslista

Minningargrein úr Morgunblaðinu 17.11.2016

Heimsvaldastefnan leiddi okkur Ingibjörgu saman, eða réttara sagt baráttan gegn henni. Ingibjörg var þá nýkomin heim eftir sex ára Kúbudvöl. Heima hjá henni voru haldnir fundir Samstöðu gegn heimsvaldastefnu þar sem við tvö vorum einhvers konar fræðarar. Bandaríkin lögðu til megnið af heimsvaldastefnunni en þau lögðu líka til djassinn og ofan í hann pompaði ég innan tíðar. Um það leyti sem ég fór að semja sönglög kom út þriðja ljóðabók Ingibjargar, Nú eru aðrir tímar. Með þeirri bók varð Ingibjörg eitt af eftirlætisskáldum mínum og líka góður símavinur. Það var gaman að kjafta við Ingibjörgu og mikil freisting að láta lummulega fyndni flakka, hún hló svo fallega. Hún var launalaus sendiherra Kúbu á Íslandi í nokkra áratugi og sendi mikinn fjölda fólks til fyrrverandi eiginmanns síns, kvikmyndagerðarmannsins Idelfonsos Ramos, sem var að sínu leyti óskipaður ræðismaður Íslands í Havana. Þannig kynntist ég Idelfonso, sem varð kvikmyndatökumaður minn og allsherjar reddari þegar ég fór að taka upp tónlist á Kúbu. Og Ingibjörg skrifaði yndislegan formála að plötu sem ég tók upp í Havana. Hann kom ekki á nóinu, það tók hana heila nótt að grafa fram og orða minningar um morgnana í Havana. Það flæddi ekki úr penna Ingibjargar en það sem kom sat vel, sumt svo vel að stimplaðist ósjálfrátt í minnið. Öll kynni okkar voru góð, það gat verið hreinn unaður að slúðra við hana í góðu partíi og það var líka gott að ræða alvarlegri mál við eldhúsborðið í Drápuhlíðinni. Ég var einu sinni beðinn um að vera á framboðs lista hjá Alþýðubandalaginu í Reykjavík. Ekki málið sagði ég, en með einu skilyrði þó; að ég verði við hliðina á Ingibjörgu Haraldsdóttur. Sem gekk eftir. Gleymskuveikin vonda sótti hana heim fyrir nokkrum árum og ágerðist. Síðastliðið vor heimsótti ég hana á Grund af því mig langaði að gera lag við eitt fallegasta kvæði hennar um Kúbu, Eyju. Hún þekkti mig ekki. Við sátum hálftíma saman í skrítnu samtali og þegar ég til að segja eitthvað spurði aftur í lokin hvort ég mætti tónsetja þetta kvæði, var eins og gleymskan hopaði frá eitt andartak og hún svaraði: annaðhvort væri nú! Og hló eins og forðum, glöð og falleg. 

Bæta við leslista