Fylgja minningarsíðu
Hulda Valdimarsdóttir
Fylgja minningarsíðu
13. maí 1936 - 25. október 2024
Mamma
Mamma var eins og allar mömmur alveg einstök. Hún var úr sveit, átti ástríka foreldra og tvö systkini. Mamma og Elín systir hennar áttu fallegt samband og bjuggu lengst af við sömu götuna. Hún flutti með foreldrum sínum úr sveitinni, Kljá í Helgafellssveit, til Grundarfjarðar 19 ára og var búsett þar alla sína tíð. Mamma fór í Húsmæðraskólann á Varmalandi, sem var mjög góður skóli og margt sem var kennt, m.a. uppeldisfræði, matreiðsla, handavinna og saumaskapur. Hún var mjög stolt af menntun sinni sem nýttist henni afar vel. Hún hannaði, saumaði og prjónaði flíkur á alla fjölskylduna. Handbragð hennar var einstakt og það var sama hvort fötin sneru á réttunni eða röngunni því frágangurinn var svo vandaður. Ég á minningu frá 10 ára aldri, var á leið á kóramót og vinkona mín hafði eignast gallasamfesting og mig langaði í eins. Mamma fór í verkið og mér finnst eins og hún hafi setið við í marga daga og fram á nótt til að hafa hann tilbúinn fyrir mótið.
Bæta við leslista
Amma og tengdamamma
Við minnumst ömmu okkar og tengdamömmu með mikilli hlýju. Hún var einstaklega óeigingjörn og ósérhlífin kona, dugleg og hlý manneskja. Það einkenndi Huldu að hún talaði aldrei illa um nokkra manneskju. Ef einhver pólitíkusin stóð í orrahríð í fjölmiðlum bar hún gjarnan blak af viðkomandi. Skipti þá engu máli í hvaða stjórnmálaflokki sá pólitíkus var,– það er nú enginn alslæmur var gjarnan viðkvæðið. Það var alltaf tilhlökkunarefni fyrir okkur fjölskylduna að keyra úr bænum ef áfangastaðurinn var Grundarfjörður. Það er eitthvað afslappandi við að komast útúr Reykjavík og síðan var það gestrisnin sem mættum alltaf fyrir vestan. Hulda var frábær kokkur og öll höfðum við mikla matarást á henni og áttum okkar uppáhalds mat. Anna Soffía vildi blómkálssúpu og Hulda Kristín partýbollur. Alltaf var skellt í bakstur þegar við komum í heimsókn og stóðum við ósjaldan á blístri öll fjölskyldan. En alltaf fannst henni við borða of lítið. Hulda sat aldrei auðum höndum. Enda varla annað hægt verandi sjómannskona og móðir sex barna. Það þurfti að gera magninnkaup áður en búðin lokaði um helgina, elda og þrífa, prjóna og sauma og segja til við lestur. Þegar börnin urðu stálpuð fór hún aftur út að vinna, vann í fiski og síðar sem skólaliði. Það var ekki til í hennar bókum að sitja auðum höndum.Hulda var sérlega flink í höndunum. Hún saumaði og prjónaði allskyns flíkur á börn og barnabörn, háa sokka eftir pöntun barnabarnanna og heilu kjólana og sýndi endalausa þolinmæði við að fylgja eftir eftir nákvæmum óskum um útfærslur. Hulda var áfram áhugasöm um handavinnu þó hún væri hætt að geta sjálf fengist við hana. Nafna hennar Hulda Kristín kom oft með handavinnu til hennar í seinni tíð og alltaf skoðaði hún handverkið í þaula og handlék af væntumþykju. Hulda stjanaði við eiginmann og öll sín börn, barnabörn og tengdabörn alla tíð þar til heilsan brást. Við kveðjum þessa hógværu konu með þakklæti og söknuð í huga. Haukur, Hulda Kristín og Anna Soffía
Bæta við leslista