no image

Fylgja minningarsíðu

Hólmgrímur Kjartansson

Fylgja minningarsíðu

29. mars 1932 - 15. mars 2022

Andlátstilkynning

Okkar ástkæri Hólmgrímur Kjartansson, Grímur í Hrauni, lést á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík 15.mars 2022.

Útför

26. mars 2022 - kl. 14:00

Útför fer fram frá Neskirkju í Aðaldal

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Arndís Álfheiður Hólmgrímsdóttir, Harpa Þorbjörg Hólmgrímsdóttir og fjölskyldur.

Þakkir

Innilegar þakkir færum við starfsfólki Hvamms fyrir hlýju og umönnun.

Elsku Grímur afi

Sögu vil ég segja stutta,

no image

Bæta við leslista

Elsku Grímur afi

Afi og amma í Hrauni, Bogga amma og Grímur afi, það eru ófáar minningarnar sem fara í gegnum hugann þegar ég minnist þeirra og allra þeirra dýrmætu stunda sem við áttum saman. Ég var mikið hjá ömmu og afa sem barn og ferðir í Hraun hafa verið órjúfanlegur hluti af mínu lífi. Ég var sem dæmi ekki gömul þegar ég fór að fara norður í Aðaldalinn um leið og skólinn var búinn að vori til að vera hjá ömmu og afa í sauðburði og þau eru ekki mörg vorin sem hafa liðið án þess að ég hafi komið í fjárhúsin í Hrauni. Grímur afi var mér alltaf góður, hann tók mig með í flestöll verk og aldrei upplifði ég að ég væri fyrir honum. Þær voru ófáar stundirnar sem við áttum saman í fjósinu við mjaltir og best þótti mér að sitja á mjaltakollinum meðan afi stússaðist í kringum kýrnar og sagði mér sögur eða söng fyrir mig, hann hafði góða söngrödd sem ómaði svo vel í fjósinu. Afi þekkti hverja þúfu og hvern hraunmola í Hraunslandi enda bjó hann þar nánast alla sína tíð. Það voru ófáar gönguferðirnar þar sem hann leiddi litla hönd um hraunið og litið var eftir hreiðrum, litið inn i hellisskúta, hlustað á fuglana og horft yfir landið. Litla skottið ég átti það þó samt til að hafa ekki eirð í þetta allt og stinga af út í buskann en með árunum lærði ég að njóta og staldra við. Þær eru líka ófáar minningarnar sem ég á um afa og rússajeppann hans, að fara með honum engjahring til að líta eftir fénu eða suður í útibú að versla og afi sagði sögur eða söng. Á seinni árum eru það góðu stundirnar í eldhúsinu í Hrauni og spjall yfir góðum kaffibolla, mjólkurkexi eða ristuðu brauði með osti og sultu sem koma fyrst upp í hugann. Mér er þakklæti efst í huga þegar ég minnist afa og alls þess sem hann kenndi mér en mikið vildi ég að ég hefði stundum hlustað betur eða tekið meira eftir. Takk elsku afi fyrir allt og knúsaðu ömmu frá mér þegar þú hittir hana.

no image

Bæta við leslista