Fylgja minningarsíðu
Hjörtur E. Kjerúlf
Fylgja minningarsíðu
11. febrúar 1945 - 15. janúar 2022
Andlátstilkynning
Okkar ástkæri faðir, tengdafaðir, afi og langafi lést á Landspítalanum Fossvogi þann 15. Janúar.
Útför
5. febrúar 2022 - kl. 14:00
Útför fer fram í Egilsstaðakirkju. Vegna aðstæðna í samfélaginu og samkomutakmarkana verða einungis nánustu aðstandendur og vinir viðstaddir. Blóm og kransar afþakkaðir.
Aðstandendur
Lilja Kjerúlf Eiríkur H. Kjerúlf, Anna Guðlaug Gísladóttir, Sólrún Júlía Hjartardóttir, Kjartan Benediktsson, Benedikt Logi Hjartarson, Særún Kristín Sævarsdóttir
Þakkir
Þökkum öllum auðsýnda samúð og hlýjar kveðjur.
Hjörtur "mín"
Þeir eru margir sem ég hef kynnist á ferð minni gegnum lífið. Sumir fljóta fram hjá og maður tekur vart eftir, aðrir vekja hjá manni forvitni, gleði eða lífskraft. Einn af þeim var hann Hjörtur „mín“. Hann var alltaf brattur og hrókur alls fagnaðar, hafði endalausan húmor fyrir sjálfum sér og gjörðum sínum. Þorði að vera öðruvísi og var stoltur af. Sagði hlutina beint út og jafnan frá spaugilegu sjónarhorni. Frásagnargleðin var aðdáunarverð og varla var hægt að hugsa sér meiri hæfileika á því sviði. Hann hafði áhuga á öllu því sem við kom sveitinni sinni, búskap, sveitafélaginu og pólitíkinni allt um kring. Hann var sannur framsóknarmaður sagðist reyndar hafa keypt flokkinn í heild sinni á síðasta ári. Hann var einn af sveitahöfðingjunum hér á Héraði, sem fækkar nú einum af öðum. Oddviti var hann til margra ára og lagði krafta sína fyrir samfélagið í Fljótsdal, sem og Héraðsins alls. Hjörtur fór ótroðnar slóðir í búskapnum og var alltaf í samspili við náttúruna, skóginn og árstíðirnar. Hann stundaði rjúpna- og hreindýraveiðar sér til ánægju og tekna. Hann var í essinu sínu er hann renndi til fjalla á fjórhjói að líta eftir kindum. Bestur var hann einn í þeim smalaferðum, því enginn var jafn góður smali og hann, að hans sögn og þó víðar væri leitað og reynt væri að leika eftir.
Bæta við leslista
Nú ertu farinn fóstri minn og vinur
Það er mjög sárt að þurfa að kveðja einn af mínum bestu vinum, fóstra og fyrirmynd. Mér finnst þetta oft snemmt, finnst eins og við hefðum átt að eiga inni nokkrar tófuferðir. En þetta er víst það eina sem við vitum fyrir vissu í lífinu að það tekur enda einn daginn.
Bæta við leslista
Kæri vinur og frændi!
Ekki óraði mig fyrir því að símtal okkar fyrsta föstudagskvöld í janúar yrði það síðasta á okkar lífsleið. Seinustu árin höfum við reglulega talað saman og rætt ýmis brýn málefni meðal annars búskaphætti, veiðar og allt það helsta í þjóðfélagsumræðunni. Ekki var það verra að óbilandi frásagnargleði þín og einstaki húmor skein í gegnum samtöl okkar.
Bæta við leslista
Höfðingi kveður
Höfðinginn á Hrafnkelsstöðum er horfinn úr þessum heimi. Kominn af léttasta skeiði en samt hvergi nærri saddur lífdaga þegar kallið kom. Enda fáir sem horfa á heiminn með þeim glettnisgleraugum sem Hjörtur Kjerúlf gerði. Oddviti var hann í Fljótsdal til fjölda ára og gæti hagsmuna sveitarinnar samviskusamlega. Refa- og hreindýraskytta um áratugaskeið og ófáir sem nutu handleiðslu hans við að fara með byssu. Sauðfjárbóndi á ættaróðalinu frá blautu barnsbeini en jafnframt tónelskur töffari af guðs náð sem lék fyrir dansi með fleiri fljótsdælskum hljómsveitargaurum fyrir hálfri öld. Þeir Fljótsmenn rifjuðu reyndar upp gamla takta á stéttinni á Skriðuklaustri á Fljótsdalsdegi 2008 á 40 ára afmæli sveitarinnar. Í tilefni þess keypti Hjörtur sér nýjan rafmagnsgítar sem átti eftir að koma sér vel á næstu þorrablótum. Það verður skrýtið að undirbúa næsta blót Útbæinga án aðkomu þess gamla á Hrafnkelsstöðum. Í aðdraganda þorrans naut Hjörtur sín vel enda gamansemi hans annáluð og grín á eigin kostnað landsþekkt. Hann mætti jafnan á þorrablótsfundi með minniskompur og stílabækur sem hann hafði fært í brandara og dæmalausar gamansögur af skondnum atvikum hjá honum sjálfum eða nágrönnunum. Heilu leikþættirnir runnu úr penna hans án fyrirhafnar og gamanvísur sem hann flutti oftar en ekki sjálfur við eigin undirleik. Á leiksviðinu í Végarði vann hann ótal leiksigra og uppskar verðskuldaðan hlátur gesta. Hann var hrókur alls fagnaðar og gaman að vinna með honum. Heimsfrægð öðlaðist Hjörtur þegar honum tókst að fanga Lagarfljótsorminn eða afkvæmi hans á stafræna myndavél sem hann var vart búinn að ná tökum á. Það myndband fór sem eldur í sinu um alheimsnetið og var um tíma mest spilaða íslenska myndbandið á Youtube. Erlendir sjónvarpsmenn komu og tóku viðtöl við Hjört og þó að hann væri ekki sterkur í erlendum tungum átti hann ekki í nokkrum vanda með að tjá sig við heimsfræga þáttastjórnendur. Enda var Hjörtur heiðarlegur orginal og samkvæmur sjálfum sér í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Það er lán að hafa fengið að kynnast slíkum manni og sárt að horfa á eftir honum til sumarlandsins. En við yljum okkur um ókomin ár við góðar og skemmtilegar minningar um uppátækjasaman öðling sem alltaf gat fengið mann til að brosa. Við hjónin færum börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur og þökkum fyrir ógleymanleg kynni.
Bæta við leslista
Síðbúin minningarorð um Hjört E. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal.
Hjörtur, vinur minn á Hrafnkelsstöðum, var sífellt að koma mönnum á óvart. Nú síðast alveg óforvarendis með því að snarast snökkt og allt of snemma yfir móðuna miklu.
Bæta við leslista