no image

Fylgja minningarsíðu

Herborg Jónasdóttir

Fylgja minningarsíðu

7. júlí 1948 - 17. febrúar 2004

Útför

Útför hefur farið fram.

Herborg Jónasdóttir fæddist í Hátúni á Nesi í Norðfirði 7. júlí 1948. Hún lést á Borgarspítalanum í Reykjavík þriðjudaginn 17. febrúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Seljakirkju í Breiðholti 27. febrúar.

Í dag, 7. júlí, fer fram í Norðfjarðarkirkju minningarathöfn um frænku mína Herborgu Jónasdóttur frá Hátúni í Norðfirði. Athöfnin fer fram á afmælisdegi hennar og hefði hún orðið einungis 56 ára gömul. Finnst víst flestum að þá sé talsvert eftir af ævinni. Sá sjúkdómur sem felldi hana að velli er því miður ekki neitt sem við verður ráðið en finnst flestum samt að þeir sem hann heltekur eigi að geta ráðið við hann og haft betur. En í þessum bardaga hafði hann betur í baráttunni og mörgum ættingjunum fannst reyndar að Herborg gæfist upp of snemma og ekki berjast með nógum krafti. Þetta er í raun eitthvað sem enginn skilur nema lenda í því sjálfur og ekki er hægt að dæma. Ef til vill var henni ekki um það að þiggja heldur vildi hún sjálf vera veitandinn eins og hennar ættmennum er lagið. Þegar ég frétti andlát Herborgar frænku minnar fannst mér samt ég allt í einu vera orðin alveg skelfilega gömul. Ég ólst upp í miklu strákaveldi, lengi eina stelpan í fjölskyldu fjölda stráka og fullt af strákum var í sveit hjá foreldrum mínum og ömmu. Frá því að ég man eftir mér var Herborg eina frænkan í föðurættinni á svipuðu reki, sem var til staðar þegar ég var að alast upp og hún var litla frænka mín. Og að upplifa það að þeir sem eru yngri en maður sjálfur deyi langt fyrir aldur fram er eitthvað sem ekki er réttlætanlegt nema einhverjar orsakir séu fyrir því sem mér finnst ekki hafa verið í hennar tilfelli. Á okkar uppeldisárum bjuggum við sín hvorum megin við fjöllin há, ég uppi á Héraði en hún niðri á Norðfirði og voru í þá daga ekki auðveldar samgöngur á milli þessara staða. Herborg var einkadóttir foreldra sinna, þeirra Jónasar Valdórssonar, sem var föðurbróðir minn, og konu hans Sveinhildar Vilhjálmsdóttur. Föðuramma okkar Herborgar, sem við nöfnurnar vorum skírðar í höfuðið á, Herborg Jónasdóttir, dvaldi oftast á mínu bernskuheimili og voru því mikil tengsl á milli okkar fjölskyldna. Sjaldan vantaði fjölskylduna frá Hátúni í veisluhöld á Þrándarstöðum, sér í lagi afmæli Herborgar ömmu síðsumars sem var ætíð haldið upp á með kaffi og meðlæti en einnig við skírnir og fermingar sem voru tíðar í hinni barnmörgu Þrándarstaðafjölskyldu. Var koma þeirra og annarra af systkinum pabba mikið gleðiefni og tilbreyting í sveitinni en Jónas var í miklu uppáhaldi hjá móður sinni sem frumburðurinn og hennar stoð og stytta á erfiðum árum. Fylgdi öllum systkinunum mikill hlátur og spaugsemi sem lífgaði upp á hverdagsleikann fyrir sveitabörnunum.

Bæta við leslista