Minningin lifir
Síminn hringir, þú varst flutt á sjúkrahús, beint á gjörgæslu, útlitið er ekki gott. Tengd öndunarvél því þú getur ekki andað lengur sjálf. Þeir gefa þér sólahring.
Hugur minn fer á flug, minningar frá æskuárum skjótast upp í kollinn minn. Prakkarastrikin sem við gerðum og göngutúrarnir okkar. Eitt minnisstætt er þegar við ákváðum að kíkja í heimsókn til Dídí ömmu, þá 6 ára gamlar. Við gengum frá Grýtubakkanum, í neðra breiðholti og alla leið niður á Kleppsveg. Okkur hvarflaði það ekki í hug að nokkur maður færi að leita af okkur, við vorum bara í göngutúr.
Við vorum mjög mikið saman og það var þannig að önnur okkar var ekki nefnd án hinnar og þegar ég flutti í Garðabæinn þá tóku við gistihelgarnar, við skiptumst á að gista hjá hvor annarri þegar tækifæri gafst. Eftir að foreldrar þínir skildu þá bjóst þú hjá Dídí ömmu ásamt pabba þínum og þar tóku við önnur ævintýri, leynistaðir og hin ýmsu prakkarastrik.
Það sem okkur gat dottið í hug til að gleðja ömmu eða þegar við reyndum að bæta upp fyrir eitthvað prakkarastrik með því að gera eitthvað gott svo minna væri tekið eftir prakkarastrikunum.
Ég man eftir einu eftirminnilegasta afmælinu hjá Heiðu frænku þinni. Heiða hafði bakað svaka súkkulaðiköku með hvítu kremi og við vorum æstar í að smakka hana. Hvað okkur þótti kremið ofboðslega vont, kremið var umtalað fjölda mörgum árum eftir þetta. Alltaf ef önnur okkar var að baka eða undirbúa fyrir afmæli þá var minnt á að passa sig að gera ekki krem eins og hvíta kremið á kökunni hjá Heiðu það sem við gátum alltaf hlegið af þessu.
Það eru svo ótrúlegar margar góðar og skemmtilegar minningar sem ég á með þér og þær ylja mér um hjartarætur – og nú rifjast upp allir sunnudagsmorgnarnir með heita kakóinu og fransbrauðinu, hvað mér fannst það gaman að fá sunnudags morgunkakó með fjölskyldunni þinni, þetta var eitthvað sem var ekki siður á mínu heimili og þá var það svo spennandi að fá að taka þátt í ykkar siðum.
Okkur fannst ekkert tiltökumál að vakna snemma á morgnanna, taka rútuna upp í Bláfjöll og eyða heilu helgunum þar. Vá hvað það var gaman, þú ýttir mér í að fara í stólalyftuna í fyrsta skiptið og varst með mér alla leiðina niður, það sem við vissum ekki þá vað að ég var næstum sjónlaus. Þú gafst ekki upp, lóðsaðir mig niður og allar ferðirnar eftir það þá varst þú alltaf aðeins á undan svo ég gæti elt þig og þannig haldið mig inni á brautinni.
Það eru svo margar góðar minningar sem ég ylja mér við og gæti ég skrifað heila ritgerð um okkur og það sem við gerðum saman, hvernig við stóðum með hvor annarri í blíðu og stríð, hvað við gátum bæði verið bestu vinkonur þó við værum ekki sammála um allt og við gátum talað um allt.
En nú er komið að leiðarlokum hjá þér mín kæra besta æskuvinkona og frænka. Við vorum ekki samstíga gegnum lífið á seinni árum, en vá hvað það var gaman að hafa þig hjá mér öll þessi rúm 25 frábær og skemmtileg ár.
Takk fyrir allt - þangað til næst.
Þín Linda