no image

Fylgja minningarsíðu

Haraldur Antonsson

Fylgja minningarsíðu

2. júlí 1934 - 3. október 2025

Andlátstilkynning

Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, Haraldur Antonsson, lést 3. október 2025 á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi.

Útför

30. október 2025 - kl. 13:00

Útför hefur farið fram.

Hlekkur á streymi
Aðstandendur

Karin Hartjenstein Antonsson, Steinvör Almi Haraldsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Skúli Haraldsson, Harpa Magnúsdóttir og barnabörn.

Þakkir

Fjölskyldan þakkar auðsýnda samúð og vinarhug.

Til minningar um góðan tengdapabba

Það eru til manneskjur sem láta ekki mikið fyrir sér fara, en eru þó svo stórar manneskjur að spor þeirra verða ekki auðfyllt í hjörtum þeirra sem fengu að kynnast þeim. Haraldur tengdapabbi minn var slíkur maður. Hann var einlægur, hlédrægur, þrjóskur, réttsýnn, og trúði á heiðarleika, virðingu og ábyrgð. Haraldur var ákaflega vel lesinn, hafði óseðjandi áhuga á fólki og lífinu sjálfu. Hann deildi reynslu sinni og þekkingu af hlýju og virðingu, án þess að setja sig á háan hest. Einnig var eftirtektarvert varðandi hugarfar Haraldar að hann tók alltaf sannaðar staðreyndir fram yfir álit og falsfréttir. Hann hafði ótrúlega gott minni og við í fjölskyldunni töluðum gjarnan um hann sem límheila, því hann mundi allt sem hann hafði lesið, séð eða heyrt. Hann bauð oft gestum heim, jafnvel ókunnugu fólki og gat þá yfirleitt sagt þeim sögur af forfeðrum þeirra eða tengt þau við fólk, landið og sögu þess. Hann var mikill safnari og það einkenndi hann, sumir myndu segja sjúklegur safnari. En hann safnaði bókum í sambland við hluti sem komu ekki að notum fyrir neinn nema fyrir Harald til að líða vel að vita af þeim þar sem hann setti þá. Hann heilsaði háum sem lágum og fór ekki í mannagreinarálit. Börn og fullorðnir gátu upplifað Harald sem vin sinn og hann reyndist mörgum vel á lífsleiðinni. Hann gladdist yfir einlægni, barnshlátri og kátum hundum. Og þegar gleðin skein úr augum hans hlýnaði öllum í kringum hann. Hann var ekki maður faðmlaga, en sýndi ástúð með áhuga, spurningum og hlustun. Þannig var hann gagnvart öllu sínu fólki. Draumur Haraldar var að eiga eigið land, að vera eigin herra og lifa í nánu sambandi við náttúruna. Þegar starfsævinni lauk lét hann þann draum rætast og keypti Lambleiksstaði, sem ber þetta fallega nafn í anda náttúrubarnsins sem hann var. Þar naut hann lífsins. Var með hross, nautgripi, hænur, endur og gæsir og helst mátti engu dýri slátra. Þannig var Haraldur svolítið öðruvísi bóndi, og mjög þrjóskur ef hann beit eitthvað í sig. Hann og Karin sinntu einnig trjárækt í Fellsmörkinni, þar sem auðn hefur nú breyst í gróskumikinn og fallegan skóg, lifandi tákn um þrautseigju þeirra og ást á landinu og hvors á öðru. Þegar ég spurði Harald á síðustu dögum lífsins hver væri lykillinn að því að eiga gott líf. Þá sagði hann að það væri gæfulegt að ljúga aldrei. Þá gæti maður verið áhyggjulaus. Ég trúi því að Haraldur hafi aldrei logið. Ég held hann hafi ekki kunnað að ljúga. Hann kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur. Við Skúli og börnin okkar erum heppin að hafa átt Harald að í lífi okkar. Hann var okkur mikil fyrirmynd í auðmýkt, hógværð, æðruleysi og virðingu fyrir mönnum, dýrum og náttúrunni. Hvíl í friði kæri Haraldur minn. Þín tengdadóttir Harpa (Grein áður birt í Morgunblaðinu 30. október 2025)

no image

Bæta við leslista

Minning um afa Harald

Elsku afi Haraldur. Við viljum þakka þér fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar sem við höfum átt með þér. Þú gerðir draum þinn um að eignast land og búskap í sveit að veruleika og eignaðist land á Mýrum í Hornafirði, Lambleiksstaði. Þar áttum við barnabörnin margar sælar stundir saman og var sveitin okkar ævintýraheimur. Við lékum við lækinn, kynntumst blómunum og hestarnir, kýrnar, endurnar og hænurnar voru þarna líka með okkur. Jörðinni fylgdi líka ruslahaugur frá fyrri ábúendum, sem amma var nú ekkert sérstaklega hrifin af, og þar var gaman að leika sér. Þar var allt mögulegt. Við gerðum virki, brennur og fórum í alls kyns leiki. Í sveitinni fórum við líka oft með afa að gefa hænunum og rákum kindur af túnunum. Það stendur okkur ofarlega í minni að í þau skipti þar sem enginn hundur var til staðar, þá tók afi það á sig að gelta sjálfur á kindurnar. Sem okkur þótti bæði fyndið og skemmtilegt. Að vera í sveitinni með þér og ömmu, umkringd náttúru og dýralífi, hefur verið ómetanlegt og er eitthvað sem við munum geyma í hjörtum okkar um alla framtíð. Við verðum þér ávallt þakklát fyrir allt og allt elsku afi.

no image

Bæta við leslista

Minning um elsku Harald

Ég kynntist Haraldi þegar ég var 13 ára og man enn hversu hlýr og klár hann var frá fyrsta degi. Hann hafði einstakt minni og gat munað smáatriði sem flestir gleymdu. Eitt sem ég man sérstaklega vel eftir er þegar við gáfum honum mjög gamalt fréttablað til að lesa. Við reyndum að gabba hann með því að láta eins og blaðið væri nýtt en hann mundi nákvæmlega daginn og árið sem hann hafði lesið fréttina. Hann var með svo gott minni, maður fékk strax tilfinningu fyrir því að hann vissi allt, sama hvaða spurningu sem maður setti fram hann vissi alltaf svarið.

no image

Bæta við leslista

Haraldur Antonsson – minningarorð.

Fornhaginn var næsta gata við Kvisthagann, þar sem ég ólst upp. Þar af leiddi að íbúarnir á Kvisthaganum þekktu flesta þá, sem á Fornhaganum bjuggu. Haraldur var einn þeirra, þótt ég þekkti hann ekki mikið, enda var hann miklu eldri en ég, en faðir minn þekkt foreldra hans frá erindrekaárum sínum hjá ASÍ.

Bæta við leslista