Fylgja minningarsíðu
Hafdís Gunnarsdóttir
Fylgja minningarsíðu
15. janúar 1965 - 12. nóvember 2024
Andlátstilkynning
Dásamlega konan mín, mamma okkar, tengdamamma, stjúpmamma og amma, Hafdís Gunnarsdóttir, lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi 12. nóvember.
Útför
23. nóvember 2024 - kl. 14:00
Útförin fer fram frá Hólmavíkurkirkju 23. nóvember klukkan 14.
Þakkir
Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á sjóð Blóð- og Krabbameinslækningadeildar Landspítalans rknr. 0331-26-003324, kt. 670418-2000.
Hafdís Gunnarsdóttir-Minning
Hafdís okkar var einstök baráttukona. Hún hafði svo mikla útgeislun og hreif alla með sér. Alveg sama hvað hún var að bardúsa, prjóna, sauma, elda ljúffengan mat eða rækta falleg blóm og tré í hlýlega gróðurhúsinu sínu, sem Hjörtur hennar smíðaði handa henni. Allt fór það henni jafnvel úr hendi. Hún smíðaði glugga og málaði heilu húsin eins og fagmaður. Það var svo gaman að fylgjast með þeim Hirti og Hafdísi, alltaf saman og svo skotin hvort í öðru. Í Selárdalnum voru þau alltaf eitthvað að brasa. Dytta að húsum og gera fallegt í kringum sig. Einhverju sinni komum við í heimsókn í dalinn. Þá voru þau búin að slá grasið í kringum bæinn, hún í svörtum hvítbotna gúmmískóm, búin að girða ullarsokkana utan yfir buxurnar, með sláttuorf að vopni og grasgræn upp að hjám. Svo sæl og hamingjusöm, enda vön bústörfum frá fyrri tíð. Hún elsku Hafdís var okkur systkinum Hjartar bróður ávallt mikil stoð og stytta. Núna í september s.l. komum við öll saman á Hólmavík í afmæli Óla bróður. Það var mikil gæfa að ná að hittast og gleðjast saman. Það var að sjálfsögðu Hafdís okkar sem kom þessum hittingi af stað, þegar hún fór að segja mér frá skemmtilega ættarmótinu hjá hennar fólki í sumar. Svona var allt í kringum Hafdísi, kraftur, seigla og réttsýni. Við eigum eftir að hittast aftur í sumarlandinu í fallega og kraftmikla dalnum okkar. Hvíl í friði elsku besta Hafdís mín.
Bæta við leslista
Minningar
Elsku hjartans vinkona.
Bæta við leslista
Elsku systir mín kæra.
⁹Elsku systir. Það er svo sárt og ósanngjarnt að þú skulir hafa verið tekin frá okkur alltof snemma. Þú sem varst búin að berjast eins og hetja, ætlaðir þér að sigra þennan sjúkdóm og áttir eftir að gera svo fjölda margt. En þér hefur líklega verið ætlað meira krefjandi verkefni annarsstaðar. Það var fátt sem þú hikaðir við og það lék allt í höndunum á þér hvort sem það var trésmíði, flísalagnir, málaravinna, prjóna og saumaskapur, bakstur, eldamennska og ég gæti talið mikið fleira upp. Gluggarnir sem þú smíðaðir í húsið ykkar voru meistaraverk og gáfu verksmiðju framleiðslu ekkert eftir. Það átti svo vel við þig að vera í brasi í sveitinni ykkar Hjartar, alltaf nóg að gera í lagfæringum og endurbótum á tækjunum ykkar. Þú hafðir þann góða eiginleika að vera jákvæð og framsýn og vildir sjá hlutina gerast. Systkina mótið okkar í sumar var svo einstaklega vel heppnað í alla staði, mikil gleði og gaman.Þú áttir heiðurinn af því að koma þessu af stað þó starfsþrekið þitt væri verulega skert þá gafst þú ekkert eftir í reddingum, bakstri og því sem þurfti að gera.
Bæta við leslista
Elsku systir fallin frá
Elsku systir er fallin frá eftir hetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm krabbamein.Hafdís er næstyngst af okkur fjórum systkinum við ólumst upp á Broddadalsá þar sem við áttum yndislega æsku. Í sveitinni var alltaf hægt að hafa nóg fyrir stafni hvort sem það var við leik eða sörf.Við gerðum bú, lékum okkur í fjörunni og klettunum og á veturna renndum okkur niður bæjarhólinn.Það var okkar fasta sumarverkefni þegar við höfðum aldur til að setja út kýrnar á morgnana og reka á haga út með fjörunni og sækja þær að kvöldi. Hafdís gekk í öll verk í sveitinni hvort sem það var að sinna búfénaði, vinna á vélum ásamt fleiru.Sveitabúskapur var henni í blóð borinn enda gerðist hún bóndi á Felli ásamt eiginmanni sínum Magnúsi Sigurðssyni árið 1983.Þau byggðu upp öflugt bú og eignuðust þrjú börn en leiðir þeirra skildi 2003 og Hafdís flutti til Hólmavíkur ásamt börnunum. Fljótlega hóf hún sambúð með Hirti Númasyni að Brunngötu 1.Hafdís og Hjörtur voru afar samrýmd, unnu á sama vinnustað og áttu sér einstakt athvarf í Selárdal sem þau dvöldu nánast í öllum frístundum og alltaf eitthvað að framkvæma saman.Hún vildi efla sitt samfélag og stóð meðal annars fyrir því að komið var upp ærslabelg á leiksvæðinu og frisbigolfvelli ásamt fleiru.Hafdís vílaði ekkert fyrir sér í framkvæmdum. Hún smíðaði glugga í sitt hús og fyrir tengdamóður sína og flísalagði baðherbergi.Þegar ég, húsasmiðurinn, fór í að stækka húsið okkar spurði Hafdís mig hvort ég ætlaði ekki að smíða gluggana og hurðirnar sjálfur.„Nei, ég fæ Gluggagerðina til að smíða,“ svaraði ég. „Ég hef nóg annað að gera.“ Það kom svipur á mína systur.Fyrir átta árum fáum við fréttir sem ekki eru góðar. Hafdís greinist með krabbamein.Við tóku lyfjameðferðir. Hún keyrði suður til Reykjavíkur við allar aðstæður, í meðferð sem tók verulega á en gaf henni eðlilegt líf inn á milli, en alltaf blossaði krabbinn upp aftur.Eftirminnilegt er það sem Hafdís skrifaði á Facebook um þessar ferðir þar sem hún lýsti svo vel gróðri, landslagi, veðri og öðru sem fyrir augu bar. Hafdís bar sín veikindi í hljóði og vildi ekki mikið ræða þessi mál út á við.Við Hafdís áttum reyndar mörg samtöl við deildum reynslu okkar af aukaverkunum af lyfjameðferðum.Við systkinin og afkomendur áttum yndislega helgi á Hólmavík í sumar sem Hafdís skipulagði og stóð fyrir. Veðurguðirnir voru svo sannarlega með okkur þá helgi. Við heimsóttum æskustöðvarnar, grilluðum góðan mat og nutum þessarar samverustundar. Það varð ljóst í vor að lyfjameðferð gagnaði ekki lengur. Veikindin fóru að hafa veruleg áhrif og útlitið var ekki bjart. Að fá svona dóm hlýtur að hafa verið mikið áfall eftir alla þessa baráttu. Það var verulega átakanlegt að horfa upp á svona hrausta og öfluga konu hraka svona sem endaði með því að hún lést aðfaranótt 12. þessa mánaðar. Elsku Hjörtur, Siggi, Agnes, Guðbjörg og fjölskyldur ég votta ykkur innilega samúð. Ykkar missir er mikill.
Bæta við leslista