Hafdís Gunnarsdóttir-Minning
Hafdís okkar var einstök baráttukona. Hún hafði svo mikla útgeislun og hreif alla með sér. Alveg sama hvað hún var að bardúsa, prjóna, sauma, elda ljúffengan mat eða rækta falleg blóm og tré í hlýlega gróðurhúsinu sínu, sem Hjörtur hennar smíðaði handa henni. Allt fór það henni jafnvel úr hendi. Hún smíðaði glugga og málaði heilu húsin eins og fagmaður. Það var svo gaman að fylgjast með þeim Hirti og Hafdísi, alltaf saman og svo skotin hvort í öðru. Í Selárdalnum voru þau alltaf eitthvað að brasa. Dytta að húsum og gera fallegt í kringum sig. Einhverju sinni komum við í heimsókn í dalinn. Þá voru þau búin að slá grasið í kringum bæinn, hún í svörtum hvítbotna gúmmískóm, búin að girða ullarsokkana utan yfir buxurnar, með sláttuorf að vopni og grasgræn upp að hjám. Svo sæl og hamingjusöm, enda vön bústörfum frá fyrri tíð. Hún elsku Hafdís var okkur systkinum Hjartar bróður ávallt mikil stoð og stytta. Núna í september s.l. komum við öll saman á Hólmavík í afmæli Óla bróður. Það var mikil gæfa að ná að hittast og gleðjast saman. Það var að sjálfsögðu Hafdís okkar sem kom þessum hittingi af stað, þegar hún fór að segja mér frá skemmtilega ættarmótinu hjá hennar fólki í sumar. Svona var allt í kringum Hafdísi, kraftur, seigla og réttsýni. Við eigum eftir að hittast aftur í sumarlandinu í fallega og kraftmikla dalnum okkar. Hvíl í friði elsku besta Hafdís mín.