no image

Fylgja minningarsíðu

Gunnar Valdimarsson

Fylgja minningarsíðu

22. nóvember 1923 - 11. desember 2021

Útför

Útför hefur farið fram.

Minningar

„Ég á ansi mörg spor þarna á fjallinu“ sagði Gunnar afi við mig í eitt af mörgum skiptum sem við ræddum lífið og tilveruna í sveitinni okkar. Við ræddum sveitastörfin stór og smá og frá ýmsum hliðum og oftar en ekki eitthvað tengt smalamennskum sem varð að umtalsefni. Hann smalaði landið í Vatnsfjarðarseli og þar um kring á sínum yngri árum líkt og ég geri nú og hef gert undanfarin ár. Örnefni á svæðinu, hvar voru kindurnar að halda sig þá, voru kindurnar í dag ennþá að nota sömu svæðin. Hvernig afi hleypti hestunum þegar kindurnar voru að sleppa. Svona voru umræðuefnin æði oft, eitthvað sameiginlegt áhugamál sem var hægt að ræða aftur og aftur og hvorugur virtist fá leið á.

Bæta við leslista

Minningar

Sorgin og gleðin eru systur. Enda þótt okkar kæri föðurbróðir hafi verið orðinn saddur lífdaga og við samgleðjumst honum að hafa fengið kærkomna hvíld, söknum við hans og syrgjum hann. Gunnar fæddist og ólst upp á afskekktu fjallabýli, Vatnsfjarðarseli, þar voru kröpp kjör, en með elju og útsjónarsemi, tókst foreldrum hans að hafa öll börnin sín hjá sér. Ekki var alltaf mikið til að skammta, en erfiðast hefur þó verið þegar engin mjólk var til, en þá var Gunnar á fyrsta ári. Kýrin bar á útmánuðum, var því reynt að treina sauðmjólkina og ærin Móða var mjólkuð fram á jólaföstu. Í Selinu er sumarfallegt, en snjóþungir gátu veturnir verið og ekki var auðvelt með aðdrætti. Það var oft til bjargar í litla bænum að hægt var að ná í silung í Selvötnin og fjallagrösin voru kraftafæða. Eftir að börnin komust á legg varð þó heldur léttara fyrir fæti, enda voru bræðurnir fljótt eftirsóttir í vinnu utan heimilis. Það er erfitt fyrir okkur, sem búum við ört vaxandi tækni, að gera okkur í hugarlund aðstæður og verklag það er viðgekkst í landinu fram yfir miðja tuttugustu öldina, allt miðaðist við handafl og hestöfl. Útsjónarsemi og handlagni kom sér vel og af því var til nóg í Selinu. Gunnar var vinnumaður í Þúfum um tíma og bóndasonurinn þar hvatti hann til að sækja sér búfræðingsmenntun og studdi hann við umsókn um nám á Hvanneyri. Það var því haustið 1947 að Gunnar fór í búnaðarskólann á Hvanneyri. Á Hvanneyri var gott að vera og þar voru bundin vináttubönd, er entust ævina út. Þau systkinin frá Seli voru mjög samrýnd og náin. Það var því eðlilegt að við systur fyndum að við áttum hauk í horni, þar sem Gunnar var. Ljúfar eru minningar úr æsku, þegar ekki var mikið um mannaferðir og gestakomur, voru það eins og hátíðisdagar, þegar Gunnar kom í heimsókn. Gunnar átti oft erindi út á sveit, þar sem hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum, bæði fyrir sveitarfélagið, búnaðarfélagið og Ungmennafélagið Vísi. Alltaf gaf hann sér tíma til að koma við hjá Hanna bróður sínum í Miðhúsum. Gunnar hafði m.a. með höndum hundahreinsun, sem þá fór fram öðruvísi en í dag. Aðgerðin tók á þriðja dægur og voru hundarnir beinlínis baðaðir. Eitt haustið, sem oftar kom Gunnar út á sveit, þessara erinda. Björg og Ása fengu þá að fara niður í Vatnsfjörð með pabba, þegar athöfnin átti sér stað. Gunnar kallaði þær hundadoktora og gaf þeim aura fyrir embættið. Ekki var laust við að Þóra fyndi til öfundar, en það stóð ekki lengi, einhvern tímann yrði hún kannski hundadoktor. Á haustin rak Kaupfélag Ísfirðinga sláturhús í Vatnsfirði. Í rúmar tvær vikur komu allflestir bændur hreppsins sér fyrir í Ungmennafélagshúsinu og unnu að slátrun í sláturhúsinu á Hjalltanganum. Þetta var njög mikilvægur hlekkur í samfélaginu, bæði sem félagsskapur og tekjuöflun. Gunnar var alltaf fláningsmaður og þótti öflugur og laginn við það starf. Við systur fylltumst stolti þegar við heyrðum að Gunnari var hælt, enda naut hann þar sannmælis. Eftir að við vorum orðnar fullorðnar og búsettar hér úti í plássum, nutum við þess að fá góða gesti, þegar þau Heydalshjón komu í kaupstað. Eftir að þau brugðu búi og settust að á Ísafirði, kíktu þau oft í kaffi til okkar, enda var Dedda einstaklega félagslynd og þurfti á upplyftingu að halda í sínu veikindastríði, en hún fékk helftarlömun 1968 og þá kom fyrir alvöru í ljós, hve vel hún var gift. Þegar Gunnar og Dedda voru flutt á Hlíf, íbúðir fyrir aldraða á Ísafirði, fann pabbi okkar, sem þar bjó einnig, það glöggt að hann átti traustan bróður, umhyggjan og tillitsemin var einstök.

Bæta við leslista