Elsku pabbi
Elsku pabbi, ein af mínum fyrstu minningum er af þér að koma heim af sjónum þegar ég hljóp og henti mér í fang þitt og þú lyftir mér upp í stórt faðmlag. Alltaf traustur, alltaf staðfastur, alltaf góður. Þegar ég hugsa um hvernig foreldri ég vil vera vil ég temja mér marga af þínum kostum, alltaf sýndir þú rólyndi og jafnaðargeð, það var aldrei verið að æsa sig yfir hlutunum, þú varst alltaf hjálpsamur og ég vissi alltaf hvar ég hafði þig. Þá sjaldan sem þú sagðir nei þá vissi ég að þar við sat en oftast nær var svarið já, já ég skal hjálpa þér, já ég skal skutla þér, já ég skal lána þér, já ég skal laga þetta, já þú mátt fara og gera þetta. Þannig var pabbi, alltaf til í að aðstoða og hann lét manni aldrei líða eins og það væri kvöð fyrir hann. Hann hafði ekki hátt um það og ég var sein að fatta það en ást mína á dýrum fékk ég frá honum, hann lét eins og það væri alls engin ánægja fólgin í því að strjúka kisum eða fara út að labba með hunda en með aldrinum gekk honum verr að fela ununina sem hann fékk út úr því, kannski varð hann meyrari með aldrinum eða kannski tók ég bara betur eftir með tímanum en honum þótti svo sannarlega vænt um þau. Ég verð að minnast á húmorinn hans pabba, það var fátt sem lét hann hlæja jafn mikið og gott grófgrín (e. slapstick) eins og Mr. Bean, The Naked Gun og Airplane sem dæmi, svona grín lét hláturinn gusast í allar áttir og afabarnið hans, sonur minn, virðist hafa fengið sama húmor í vöggugjöf. Nú er það mitt hlutverk að halda minningu afa Gunnars á lofti fyrir börnin mín og Mr. Bean er ágæt leið til þess. Ég held að ég hafi aldrei áttað mig fyllilega á því hvað ég var lánsöm að fá þig sem pabba og ég sagði þér það því ekki en ég vil segja þér það núna, ég var og er heppin og ég mun búa að því alla ævi.