no image

Fylgja minningarsíðu

Gunnar Bóasson

Fylgja minningarsíðu

8. febrúar 1956 - 24. október 2022

Andlátstilkynning

Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi Gunnar Bóasson, Túngötu 5, Húsavík lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri mánudaginn 24. október 2022.

Útför

4. nóvember 2022 - kl. 14:00

Útför hans verður gerð frá Húsavíkurkirkju 4. nóvember 2022 og hefst klukkan 14:00. Athöfninni verður einnig streymt á facebooksíðu Húsavíkurkirkju.

Aðstandendur

Friðrika Guðjónsdóttir Jóna Kristín Gunnarsdóttir Kolbrún Ada Gunnarsdóttir Dóra Hrund Gunnarsdóttir Bóas Gunnarsson tengdabörn og barnabörn

Þakkir

Fjölskyldan þakkar auðsýndan hlýhug og vináttu. Þeim sem vija minnast hans er bent á minningarsjóð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands - Húsavík.

Kveðja frá barnabörnum

Það fyrsta sem okkur barnabörnum Gunnars Bóassonar, eða afa Gunnsa eins og við þekktum hann, dettur í hug þegar við minnumst hans er ostakarið. Frá því að við munum eftir okkur hefur afi farið með okkur í ostakarið. Þar fenguð við að busla eins og við vildum, synda eins margar ferðir og okkur langaði en langskemmtilegast var að fara með honum að vetri til þegar stjörnurnar fóru að sjást. Þá sátum við helst í fanginu á afa, reyndum að telja stjörnurnar og sáum jafnvel nokkur stjörnuhröp meðan afi fræddi okkur um stjörnumerkin. Við eigum öll margar minningar með afa í ostakarinu og meira að segja nýjasti meðlimur okkar barnabarnanna, Stormey Sól 8 mánaða, hefur fengið að fara nokkar ferðir með afa í karið. Fyrir nokkrum vikum komu Margrét Nína og Unnur Freyja í helgarferð til ömmu og afa á Húsavík. Ferðin lengdist um einn dag vegna veðurs en afi lét veðrið ekki stoppa sig í að fara í karið og þær komu með. Ferðin var ekki löng, þó ekki vegna veðurs heldur því Unnur Freyja var svo hrædd við öll hljóðin sem veðrið gaf frá sér. Afi var þá fljótur að halda utan um hana og passa að koma henni í öruggt skjól frá hávaðasömu veðrinu.

no image

Bæta við leslista

Minningarorð um Gunnsa

Þegar ég hugsa um Mývatnssveit þá hugsa ég líka alltaf um Gunnsa því tenging hans við sveitina og vatnið var svo mikil. Gunnsa fannst fátt betra en að fara út á vatnið. Leggja netin, taka þau upp, verka silunginn og borða hann auðvitað. Ég kann að slægja silung og veit ýmislegt um bleikju og urriða af því að Gunnsi gaf sér tíma til að kenna mér. Hann var góður kennari og miðlaði gjarnan sinni þekkingu. Eins og t.d. um síðustu jól þegar hann bað mig um að koma með sér niður að vatni. Það var 14 stiga frost og niðamyrkur. Við vorum með vasaljós og gengum niðureftir en slökktum þegar við komum að vatninu og fundum okkur stein til að setjast á. Hann sagði mér að silungurinn væri að hrygna á þessum tíma og útskýrði hvernig það gengi fyrir sig. Af og til kveiktum við ljósin okkar og sáum silunginn alveg upp við bakkann.Við hvísluðumst á til þess að trufla ekki þetta merkilega ferli. Þetta var alveg einstök upplifun. Gunnsa fannst líka gaman að fara með okkur út á vatn til að skoða sveitina frá öðru sjónarhorni, fara út í eyjarnar og skoða fuglalífið. Ein minning er þegar við fórum á vatnið, og hann slökkti á mótornum og við hlustuðum á himbrimana kalla á milli sín. “það er bara hávaði í þeim” sagði Gunnsi og við vorum agndofa yfir þessari sinfóníu. Næstum hvert einasta kvöld í Mývatnssveit endaði með að Gunnsi og bræður eða frændur fóru í bað í Grjótagjá. Ekkert toppaði það. Við Birgitta fórum nokkrum sinnum í ostakarið hans Gunnsa en það var gamalt ostakar fullt af heitum sjó. Alveg dásamlegt að liggja þar og horfa upp í himininn. Þarna sá ég fallegustu norðurljós sem ég hef á ævi minni séð, græn/bleik/fjólublá ljós sem dönsuðu um himininn. Það var alltaf ævintýri að fylgja Gunnsa. Það þekktu hann allir, hann sagði skemmtilegar sögur af fólki, var góð eftirherma og var alltaf fyrstur til að bjóða fram aðstoð ef þess þurfti. Þegar við Birgitta keyptum okkar fyrstu íbúð þurfti að taka hana alla í gegn. Gunnsi mætti með fullhlaðinn bíl af verkfærum. Rikka kom líka og sá um að elda ofan í okkur. Við Gunnsi vorum gott teymi og ég kann marga verklega hluti af því hann kenndi mér það. Þetta var ómetanleg aðstoð sem við fengum frá þeim hjónum og svona hafa þau alltaf verið við okkur Birgittu, umhyggjusöm og kærleiksrík. Gunnsi var yndisleg manneskja, hlýr og hjálpsamur, duglegur, skemmtilegur og einn af þeim sem kunni næstum allt. Nú er allt breytt. Síðasta bleikjan er veidd, síðasti kaffisopinn drukkinn, síðasta ferðin í gjána hefur verið farin, síðasta ferðin í ostakarið búin, síðasta orðið hefur verið sagt. Elsku Nína, elsku Rikka, elsku Jóna Kristín, Ada, Dóra og Bóas, elsku Stuðlasystkin og elsku við öll sem áttum Gunnsa. Við skyndilegt fráfall hans er allt sem við eigum hlý minning um góða manneskju sem gaf svo mikið af sér og okkur þótti svo óskaplega vænt um. Þetta getur enginn tekið frá okkur. Ég er þakklát fyrir samfylgdina, vináttuna og allt sem Gunnsi var fyrir okkur Birgittu. Ljós og friður fylgi minningu hans alla tíð.

no image

Bæta við leslista

Brotið hjarta er hjarta sem hefur elskað.

Brotið hjarta er hjarta sem hefur elskað, þú varst kletturinn minn og hjarta mitt er svo sannarlega brotið. Minningarbrot sem ylja, reiði yfir mörgu og svo inn á milli vonin um að þetta sé martröð og ég muni vakna af henni. 

Bæta við leslista