no image

Fylgja minningarsíðu

Guðsteinn Frosti Hermundsson

Fylgja minningarsíðu

25. ágúst 1953 - 28. mars 2024

Andlátstilkynning

Guðsteinn Frosti lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands fimmtudaginn 28. mars 2024.

Útför

12. apríl 2024 - kl. 13:00

Útför hefur farið fram.

Sálmaskrá
Aðstandendur

Kristín Tómasdóttir Margrét Harpa Guðsteinsdóttir - Ómar Helgason Hermundur Guðsteinsson - Nína Dóra Óskarsdóttir Bjarnfríður Laufey Guðsteinsdóttir - Ólafur Þór Jónsson Tómas Karl Guðsteinsson - Una Kristín Benediktsdóttir og afabörn

Þakkir

Fjölskyldan þakkar innilega auðsýnda samúð og hlýhug. Einnig þakkir til starfsfólks hjúkrunarheimilanna Fossheima og Móbergs ásamt starfsfólki HSU.

Guðsteinn Frosti

Í dag kveð ég tengdaföður minn og vin, Guðstein Frosta. Fyrir tæpum 30 árum kynntist ég honum, þegar við Margrét Harpa vorum að draga okkur saman, og urðum við fljótt góðir vinir. Það eru margar skemmtilegar minningar sem koma upp í hugann þegar ég lít til baka. Veiðiferðirnar í Eystri-Rangá og í Veiðivötnum, þar sem hann naut sín í botn. Veiðin skipti þá engu máli heldur kunni hann svo vel að meta samveruna og útiveruna. Í Veiðivötnum varð alltaf að byrja í Litla-Skálavatni, af því að þar fékk hann þann Stóra fyrir nokkrum árum og svo varð að enda í Litla-Sjó á kvöldin.

Bæta við leslista

Elsku afi Gutti

Afi Gutti var að mínu mati besti afi í heimi. Hann var skilningsríkur, indæll, þolinmóður og sanngjarn maður. Það var líka alltaf fjör í kringum hann afa og hann var alltaf til í að gera eitthvað með okkur, segja okkur sögur sem hann kunni nú margar, kenna okkur alls kyns hluti eða leika við okkur krakkana.

Bæta við leslista

Afi Gutti

Elsku afi Gutti, alltaf var hann að grínast. Ég varð alltaf brjáluð þegar hann kallaði mig Guðrúnu sína á Kvískerjum. Hann gerði líka stundum „Fagur, fagur fiskur í sjó“ við mig og þóttist ætla að lemja hendinni sinni eins fast og hann gat en var bara að grínast. Ég man vel þegar við fórum að vitja um laxanet í Þjórsá og þegar við vorum úti í fjárhúsi,í réttunum og kartöflugeymslunni og hann gaf mér allar ónýtu kartöflurnar svo ég gæti leikið mér við að skera þær og skræla. Svo drakk hann alltaf kaffi úr sama blómabollanum sínum, sem aldrei fór í þvott. Allar þessar minningar mun ég geyma í hjartanu. Ég mun alltaf elska þig elsku afi Gutti.

Bæta við leslista

Guðsteinn Frosti

Sumarið 1977, þegar ég var á níunda ári fór ég í fyrsta sinn í sveit í Vesturbæinn. Þar voru fyrir ung hjón, Guðsteinn og Systa með kornunga dóttur sína, hana Margréti Hörpu. Í minningunni þótti mér þetta algjör paradís að vera kominn út í sveit þar sem ég gat unað mér einn úti á túni að æfa mig með veiðistöngina tímunum saman. Ungu hjónin tóku svo vel á móti þessum dreng að hann vildi helst ekki fara heim að þessari stuttu dvöl lokinni. Það var ekki aftur snúið, þetta var staðurinn sem ég skyldi vera á eins mikið og oft og hægt væri næstu árin. Það varð líka þannig að næstu sex sumrum varði ég þar og vildi vera kominn strax eftir skólalok ef ekki fyrr og ekki fara fyrr en daginn fyrir skólabyrjun. Það var mikil gæfa fyrir ungan dreng að fá að njóta handleiðslu Guðsteins við þau fjölbreyttu sveitastörf sem féllu til. Guðsteinn var með ýmis járn í eldinum. Það var ekki nóg að vera með fjárbúskap, kartöflu- og nautgriparækt, heldur voru einnig lögðu látur í Þjórsá sem vitjað var alla daga þegar lagt var. Í sveitinni voru allir vinir og hjálpuðust að þegar svo bar við og oft var Guðsteinn að hjálpa vinum við ýmsar framkvæmdir þar sem margar hendur unnu létt verk. Það skilaði sér svo til baka ef á þurfti að halda, eins og þegar ný kartöflugeymsla var byggð í Vesturbænum og þá stóð ekki á fjölda manns að mæta á staðinn til að aðstoða. Eftir því sem tíminn leið lærði maður sveitastörfin eitt af öðru og Guðsteinn passaði vel upp á að handtökin væru þau réttu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja upp öll þessi mörgu og ólíku verk en þau gerðu þennan dreng að ungum manni sem var fær í flestan sjó, og hefur búið að alla tíð síðan.

Bæta við leslista

Höfðinginn í Vesturbænum❤️

Í dag kveðjum við hinstu kveðju elsku Guðstein sem ég á mikið að þakka ❤️ Árið var 1983 - það var ómetanlega dýrmæt lífsreynsla að fá að fara sem kaupakona á þrettánda og fjórtánda ári til Guðsteins og Systu að Egilsstöðum II, Vesturbæ. Ég þekkti engan í sveitinni en það breyttist nú samdægurs og breytti lífi mínu til frambúðar þar sem við Bjarni minn fundum hvort annað. Margar dýrmætar minningar flæða fram með miklu þakklæti. Sú fyrsta var að fara með foreldrum mínum daginn sem ég kom með Guðsteini út í fjárhús, settist þar á gólfið í moldarbing og gaf heimaling að drekka í fyrsta sinn á ævinni. Mér fannst mikið til þess koma að Guðsteinn sá að það var nú ekkert pjatt í þessari stelpu og sagðist vera ánægður með það. Ég var svo heppinn að fá að aðstoða heima fyrir hjá þeim og passa elsku Bennu Laufey og Hermund ásamt því að læra ýmis handtök af elsku Systu. Benna Laufey og Hermundur urðu svo síðar hringaberar í brúðkaupinu okkar Bjarna. Ég leit alltaf upp til Guðsteins þar sem hann hvatti mann í einu og öllu og hafði tröllatrú á því að leyfa stelpuskjátunni að prófa ýmislegt í sveitaverkunum. Hvort sem það var að hlaupa vestur eftir og athuga með eitt og annað, taka þátt í baggatínslunni, henda böggum upp á heyvagninn, standa á sleðakerrunni, raða bögggum, henda böggum inn í hlöðuna eða að keyra traktor sem ég hafði aldrei gert. Veit ekki alveg ennþá hvernig ég kom traktornum af stað en rikkir og skrikkir voru það. Ég varð alltaf mikið upp með mér þegar Guðsteinn úthlutaði mér verkefnum því það var gert með tiltrú og hvatningu og hans kankvísa svip. Hann hafði trú á stelpunni og fyrir vikið jókst min eigin tiltrú og kjarkur. Vísnaromsurnar og söngurinn sem vall upp úr honum voru engu líkt og hafði ég alltaf jafn gaman að þeim. Ég heyrði oft þegar ég kom niður á morgnana, "Imba græna svaka spræna íbjúg mjög að framan, skildi ekki mega skera hana í sundur og skeyta hana saman". Þetta fannst mér það undarlegasta sem ég hafði nokkurn tímann heyrt en þótti alltaf jafn vænt um það þegar hann romsaði þessu upp úr sér því það var gert með væntumþykju, skemmtilegheitum og hans einstaka prakkarabrosi. Ævintýrin voru mörg í sveitinni. Að fá að fara með niður að ánni til að vitja fiskanna í netinu, reiðtúrarnir og að vera með í kartöfluuppskerunni í Grimmunni þar sem vísurnar flugu hægri og vinstri yfir okkur Bjarna sem vorum svo skotin í hvort öðru ásamt því að hlaupa á milli bæja, upp í Kot og vera með krökkunum sem voru á sama tíma á bæjunum. Í þá gömlu góðu daga, ómetanlegt. Ég varð ríkari fyrir lífstíð við það að fara til Guðsteins og Systu í sveit. Að fá að kynnast öllu fólkinu þeirra og börnunum þeirra. Tenging sem er nærandi og gefandi á einstakan hátt og allir endurfundir ómetanlegir. Þegar ég hugsa til Guðsteins sé ég fyrir mér hans kankvísa bros, rjóðar kinnar og glettnina. Hann var alltaf að. Vinnusamur, eljusamur og spáði og spekúleraði í hlutum sem þurfti að framkvæma. Ég sé fyrir mér neftóbakið á handarbakinu, hattinn á höfðinu og vísnasöngur með fólkinu hans, smitandi hlátur, hoppandi með mér á trambolíni og glensið í augunum hans keyrandi traktorskerru með okkur krökkunun aftan á. Hann var ætíð til í sprell ef svo bar undir og gaf mikið af sér. Þegar ég heimsótti hann fyrst á Selfoss eftir að hann veiktist þótti mér endalaust vænt um að sjá gleðibrosið þegar ég kom, nei Imba græna svaka spræna. Við skoðuðum myndir í símanum frá endurfundum á Egilsstöðum og töluðum um það sem stóð honum næst og hann mundi alltaf eftir, fólkið hans og sveitin.

no image

Bæta við leslista

Minningargrein um Guðstein frænda frá Kotasystkinunum

Elsku Guðsteinn frændi hefur nú kvatt okkur en við trúum því að hann sé kominn á góðan stað hjá ömmu og afa og öðru góðu fólki sem vakir yfir okkur. Það er skrítið að setjast niður og eiga finna orð um elsku besta Gutta frænda sem var svo stór hluti af uppvexti okkar í sveitinni. Við ólumst upp við að þekkja ekki annað en að vesturbærinn hjá Guðsteini og Systu væri okkar annað heimili. Maður var vanur að sjá Guðstein á Zetornum sínum á ferðinni um hlöðin við bústörf eða á leiðinni í kaffi til ömmu og afa. Ósjaldan sá maður tvo traktora hlið við hlið einhverstaðar á milli bæjanna þar sem þeir pabbi sátu í sitthvorum traktornum og spjölluðu saman um heimsmálin og verkefni dagsins. Guðsteinn var söngelskur og með mikla útgeislun án þess að trana sér fram. Það var ávallt stutt í glettnina og prakkaraskapinn en hann var líka einstaklega barngóður og traustur sem klettur. Það kom bersýnilega í ljós þegar pabbi slasaðist á Þorláksmessukvöld. Mamma var með þrjú lítil börn og fjórða á leiðinni. Þá var Guðsteinn mættur með bros á vör, glæddi lífið von og umvafði okkur systkinin eins og sín eigin. Við erum óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar í hverfinu, kotasöngpartýin og skemmtilegu minningarnar sem láta mann brosa út í annað. Enginn veit hvað okkar bíður eða hvar í kvöld mun gist. Elfur tímans áfram líður, eflaust margt í burtu flyst. Fullvíst er samt það, að þó hann þætti blautur, gamla Flóann helst ég kýs sem himnavist. (Flóavísur höf. Gísli Halldórsson) Elsku Systa, Margrét, Hermundur, Benna Laufey, Tómas og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Minningin um elsku frænda mun lifa í hjörtum okkar. Kotasystkinin

Bæta við leslista

Elsku afi

Elsku afi okkar, takk fyrir allt.

Bæta við leslista

Guðsteinn "hinn pabbi minn"!

Guðsteinn var „hinn“ pabbi minn og það eru orð að sönnu því hann og Kristín kona hans voru fyrirmyndir mínar í 9 sumur. Ég fór í sveit á Egilsstöðum 2 í Villingaholtshrepp, til Systu frænku (Kristín) og Guðsteins um vorið þegar ég var sjö ára og var þar öll sumur fram að síðasta bekk grunnskóla, 15 ára gamall. Var mættur um 20 maí og fór í lok ágúst og því má segja að tími minn með þessu sómafólki hafi verið drjúgur tími barnæsku minnar.

Bæta við leslista

Guðsteinn

Einn sá allra glaðasti, sprækasti, fyndnasti, heiðarlegasti, stoltasti og langbesti er allur. Hvernig má það vera? Ef stærðfræði á að „meika sens“ þá gengur ekki upp að slík uppskrift af gæðakarli fái ekki að sprella um sveitina sína þar til hann fer að banka í 100.

no image

Bæta við leslista