no image

Fylgja minningarsíðu

Guðríður Jónsdóttir

Fylgja minningarsíðu

23. júlí 1933 - 2. júlí 2023

Andlátstilkynning

Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, Guðríður Jónsdóttir, er látin. Hún lést eftir stutt veikindi á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut 50.

Útför

Útför fer fram í kyrrþey.

Aðstandendur

Dagbjört Sigríður Gunnarsdóttir 1954 Hafsteinn Ingi Gunnarsson 1955 Jón Viðar Gunnarsson 1958 Margrét Anna Gunnarsdóttir 1961 Jónas Már Gunnarsson 1962 - 1966 Svandís Erla Gunnarsdóttir 1965 Stúlka Guðríðar-Gunnarsdóttir 1966 - 1966 Linda Björk Gunnarsdóttir 1968 Árni Jóhann Árnason 1977 Barnabörn 11 Barnabarnabörn 5

Mamma

Guðríður Jónsdóttir var fædd að Hverfisgötu 35 í Hafnarfirði árið 1933 þar sem foreldrar hennar bjuggu í leiguhúsnæði í kjallara. Mamma var á þriðja ári þegar fjölskyldan keypti húsnæði sem varð framtíðarheimili þeirra á Vitastíg 8 Í Hafnarfirði. Þá voru stúlkurnar þeirra afa og ömmu orðnar tvær, Guðný M. Jónsdóttir og mamma. Húsnæðið var orðið of þröngt í kjallaranum. Til að eiga von um að geta eignast húsið þurfti fjölskyldan að búa í risinu á húsinu fyrstu búskaparárin eftir kaupin. Afganginn af húsinu leigðu þau út til að geta borgað af lánum. Afi minn, Jón Steingrímsson, var sjómaður og átti næstum alltaf öruggt pláss þegar vertíð gekk í garð. Í landlegum stundaði hann veiðar á öðrum dýrum t.d. rjúpu og gæs eða stangveiði í nágrannavötnum. Einnig keypti hann sér vörubíl til að sækja dót í ruslahaug hersins og fá tilfallandi vinnu. Þá keypti afi sér trillu og stundaði á henni veiðar sem margir Hafnfirðingar nutu góðs af því ekki var hann mikill buisness maður, miklu frekar var hann maður kærleikans líkt og eiginkona hans frú Dagbjört Sigríður Brynjólfsdóttir. Þannig fékk móðir mín gull í nesti lífsgöngunnar sem hún bar með sér ævina á enda. Þegar mamma og pabbi felldu hugi saman stofnuðu þau heimili fyrst í Keflavík og síðar í Hafnarfirði við vesturmörk bæjarins þar sem við tekur Garðahreppur. Húsið fékk nafnið Blikalón sem var forskalað timburhús alls um 48 fm2 að flatarmáli. Við systkynin sváfum í eina svefnherbergi hússins í kojum en foreldrarnir voru með sófa í stofunni sem varð svefnsófi þegar kom að hvílu. Vatn var tekið af þaki hússins og safnað í vatnstank og krani inní eldhúsið. Forstofa þar sem veggsími var og wc þar innaf. Nokkur hús voru þarna í næsta nágrenni t.d. Sæból og Brúsastaðir sem enn standa, en einnig Dalbær, Hraunhvammur, Skesseyri, Hóll og Hvarf en Bali er litlu vestar og er í dag hundasvæði. Í þessu dásamlega umhverfi ólu pabbi og mamma börnin sín upp og oft var glatt á hjalla hjá börnum þessa svæðis og mikið leikið útivið. Elstu börnin þurftu að labba nokkuð langt í skóla því þá var aðeins um að ræða Öldutúns eða Lækjarskóla við tjörnina. Seinna kom Víðisstaðaskóli sem stytti gönguna nokkuð fyrir yngri börn þeirra Gullu og Gunnars. Við vorum send í búðir til að kaupa mjólk og aðrar nauðsynjar strax og við gátum og ég man að netin sem vörurnar voru í tóku vel í litla handleggi og axlir. Seinna safnaði mamma saman aur og keypti reiðhjól og þá léttist allt í þessum ferðum. Um tíma á vetrum notaði ég skíðasleða til að ferja vörur heim. Við vorum líka send vestur á Krók til Tobbu til að kaupa egg. Ég man alltaf eftir einu tilviki þar sem ég var með bréfpoka fullan af eggjum á heimleið en gat ekki stillt mig um að klifra á girðingu sem lá yfir skurð og þá bar svo við að gat kom á pokann og ég missti eggin flest ofaní vatn sem var í skurðinum. Ég varð að vonum afar sorgmæddur yfir þessu enda áttu foreldrar mínir ekki mikla aura. Mamma bara brosti og bað mig engar áhyggjur að hafa, þetta mundi allt blessast og ég tók gleði mína á ný. Mig grunar að pabbi hafi aldrei frétt af þessu slysi mínu. Sorg heimsótti því miður heimili okkar nokkrum sinnum sú mesta þegar bróðir minn, Jónas Már Gunnarsson, drukknaði í sjónum niður af Blikalóni. Við systkynin vorum þá að vaða í sjónum og leika okkur en gáðum ekki að okkur að Jónas sem rétt var að verða fjögurra ára gamall elti okkur niður eftir í fjöruna. Áfall móður okkar varð svo mikið að barn er hún gekk með varð andvana fætt tveimur mánuðum síðar og hvílir hjá bróður okkar og föður í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Fljótlega mun elskuleg móðir mín hvíla hjá þeim því hún tók frá legstað fyrir sjálfa sig og föður minn við þessa erfiðu lífsreynslu. Sambúð mömmu og pabba var oft þrautaganga og þegar börnin voru flest uppkomin fór móðir mín á ný að vinna úti til að bæta hag heimilisins og komast út á meðal fólks. Hún vann þannig hjá lakkrísgerðinni Drift og síðar á Hjálpræðishernum í Reykjavík þar sem hún kynntist seinni manni sínum Árna Árnasyni. Leiðir Gullu og Gunnars skildu og nokkru síðar fór hún að búa með Árna og átti með honum einn dreng. Árni Jóhann Árnason fæddist árið 1977 í Reykjavík. Leiðir Mömmu og Árna skildu síðan eftir á köflum stormasama sambúð og móðir mín varð einstæð móðir með bróður mínum Árna Jóhanni. En móðir okkar fékk mikið af heimsóknum og börnin hennar sóttust mjög eftir að koma til hennar alla tíð. Gestrisni og hlýlegt viðmótt var sá segull sem dró okkur að henni og við elskum hana öll mjög mikið.

no image

Bæta við leslista