no image

Fylgja minningarsíðu

Guðni Guðnason

Fylgja minningarsíðu

30. júlí 1918 - 17. júlí 2006

Útför

Útför hefur farið fram.

Kveðja til föður

Það var eins og tíminn hefði stöðvast er ég gekk út af hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu en þar hafði pabbi minn Guðni Guðnason, alltaf kallaður Ninni, varið síðustu vikum ævi sinnar í frábærri umsjón einvala starfsliðs. Nú var stríðinu lokið og pabbi minn farinn í sína hinstu för. Ég leit upp í himininn og út yfir Rangá sem speglaði fagurgræna bakka sína. Sama kyrrðin og sami friðurinn og var yfir andláti föður míns var allt um kring, það var eins og náttúran beygði sig og lyti í lotningu fyrir hinum aldna höfðingja sem nú hafði kvatt þennan heim. Hann unni náttúrunni sem og öllu sköpunarverkinu, enda vildi hann hvergi vera annars staðar en í hinni gróðursælu Fljótshlíð er fóstraði hann allt frá upphafi. Ef farið var að heiman einhverja daga ókyrrðist hann fljótt og vildi heim. Verkin biðu, fólkið og kirkjan beið. Ungur hafði hann ákveðið að gefa hjarta sitt Jesú Kristi, eftir það varð ekki aftur snúið. Trúin var ekki áhugamál heldur uppspretta alls, lífið sjálft, lífið var honum Kristur og endurspeglaði það líf hans allt til hinstu stundar. Trjá- og garðrækt var hans helsta áhugamál, af alúð sinnti hann trjánum sínum og þyrfti að grisja var þess gætt að ekkert færi til spillis og hagar smiðshendurnar nýttu allt sem hægt var að nýta. Á fögrum sumardögum mátti gjarnan sjá hann ganga á eftir sláttuvélinni í einhverjum hinna fjögurra skrúðgarða er hann og konan sem hann elskaði meira en allt annað, hún mamma, höfðu af hugvitsemi skipulagt og haldið við á þeim 64 árum sem þau áttu samleið. En það var ekki bara náttúran og fólk sem naut alúðar hans, dýr löðuðust að honum eins og býflugur að ilmandi nýútsprunginni rós. Væri hundur í Kirkjulækjarkoti mátti gjarnan sjá hann skokka á eftir pabba eða liggja við fætur hans í spónahrúgu á trésmíðaverkstæðinu. Að ekki sé talað um hrafninn sem stundum sat á öxl hans er hann var útivið. Útlendingum er komu til að fá afgreiðslu á bensínstöð Skeljungs, er hann rak lengst allra manna er slíkt starf hafa haft með höndum, þótti hið mesta undur á sjá hrafninn á öxl pabba og gripu fljótt til myndavélanna. Var maðurinn galdramaður, dýratemjari eða himneskur? Sennilega var pabbi minn sitt lítið af hverju. Í það minnsta finnst mér, er ég horfi til baka á árin sem ég fékk að eiga með pabba mínum, nánast töfrum líkast að ekki skuli vera ein einasta minning er flokkast gæti undir að vera slæm. Inn í hjarta mitt streymir ylur og þakklæti, þakklæti fyrir að hafa átt föður sem á öllum stundum veitti himneskan kærleika, sannan kærleika sem vonaði þótt strákurinn misstigi sig, breiddi yfir og hlúði að er sársaukinn varð óbærilegur og týndi sonurinn leitaði heim, kærleika sem trúði á sanna endurlausn fyrir alla menn, líka strák sem stundum fetaði dimma stigu, kærleika sem umbar allt, líka mistök og strákapör. Vegna þessa kærleika hefur mér, og svo mörgum öðrum, auðnast að fela líf mitt Frelsaranum er heldur í hönd mína og þó að ég gangi í gegnum dimman dal, óttast ég ekkert illt, því Drottinn, hann er hjá mér. Hinn sami Drottinn og pabbi minn fylgdi og kenndi mér um. Allt frá því að ég man eftir mér kom hann á hverju kvöldi í herbergi okkar bræðranna, las úr góðri bók ásamt því að lesa kafla úr Ritningunni. Er við urðum læsir tókum við einnig þátt og skiptum lestrinum á milli okkar, svo var beðið og hinum himneska föður falin forsjá ástvina og vina ásamt því að þakka varðveislu, fæði og klæði. Þakkir gjörðar í öllum hlutum. Hann var fyrirmynd í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika. Búinn öllum þeim bestu kostum sem prýða mega hvern mann, ekki aðeins vegna þess að allir verði góðir þegar þeir kveðja, þannig var hann að sönnu, heill í gegn. Í hjarta mínu er gimsteinn, minningin um pabba minn, þennan gimstein mun enginn geta tekið frá mér og þó að sársauki saknaðar nísti mig um stund mun þakklætið á endanum verða sársaukanum yfirsterkara og minningin um ástríkan og umhyggjusaman föður fylgja mér um ókomna tíð og verða sem endalaus uppspretta gleði og fagnaðar.

Bæta við leslista