no image

Fylgja minningarsíðu

Guðni Elís Haraldsson

Fylgja minningarsíðu

18. júlí 1976 - 1. júlí 2009

Útför

Útför hefur farið fram.

Yndislegur vinur og samstarfsfélagi

Í dag kveðjum við yndislegan vin og samstarfsfélaga með miklum söknuði. Ekki verður hægt að fylla það skarð sem Guðni skilur eftir sig í lífi okkar allra. Guðni hóf störf í Landsbankanum í Smáralind árið 2006. Hann passaði strax inn í hópinn og sýndi fljótt hversu úrræðagóður og hjálplegur hann var. Einnig var hann gáskafullur, stríðinn, mikill keppnismaður og ávallt var stutt í húmorinn.Ein af mörgum ógleymanlegu minningum um Guðna er kollhnísakeppnin á Hótel Hvolsvelli þar sem hann tapaði 17-2 á gangi hótelsins. Ekki var hann sáttur við það enda keppnismaður mikill. Einnig minnumst við 5-mínútna-föstudagsfýlunnar þegar hann vann ekki rauðvínspottinn, alltaf varð hann jafn hissa að vera ekki dreginn út en góða skapið kom ávallt strax aftur.

Bæta við leslista

Traustur, skemmtilegur, fráleit eldhúsdama...

Við samstarfsfólkið í Landsbankanum í Bæjarhrauni viljum kveðja góðan vin og samstarfsfélaga og minnumst við Guðna með söknuði. Guðni hóf störf hjá okkur í lok október 2008 og var hann fljótur að aðlagast hópnum enda leist okkur strax vel á þennan hávaxna og glæsilega mann. Fyrir stuttu komu samstarfsfélagarnir saman til þess að gleðjast. Upp kom sú hugmynd innan hópsins að lýsa hvert öðru í fáeinum orðum sem síðan var lesið upp. Við viljum vitna í nokkra punkta sem skrifaðir voru um Guðna sem lýsa honum svo vel: „Guðni er traustur, skemmtilegur, fráleit eldhúsdama, prakkari, partý b. og húmoristi.“

Bæta við leslista

Elsku besti Guðni

Þeir deyja ungir sem guðirnir elska mest og það er sko alveg á hreinu í þínu tilviki. Ég trúi því ekki enn að þú sért farinn frá okkur og er stórt skarð komið í Smáralindargengið sem ekki verður hægt að fylla, því betri samstarfsfélaga og vin held ég að erfitt sé að finna. Þegar ég byrjaði að vinna í Smáralindinni þá fékk ég þá tilfinningu að þú kynnir nú ekkert of vel við mig en eftir nokkrar vikur þá varstu byrjaður að stríða mér og þá þóttist ég vita að þú værir búinn að taka mig í sátt. Meðal annars gerðir þú mest grín að mér fyrir að vera utan af landi en ég komst svo að því seinna að þú varst nú bara sjálfur utan af landi. Stríðnin og húmorinn einkenndu þig en þér fannst nú ekki leiðinlegt að stríða okkur samstarfsfélögunum og man ég þá sérstaklega eftir því þegar Egill fór að keppa á Siglufirði, þá hafðirðu mikið fyrir því að redda nælonsokkabuxum til að láta færa honum í upphafi leiks.

Bæta við leslista

Elsku Guðni Elís.

Hvernig get ég kvatt þig í hinsta sinn? Ég er svo vanmáttug, mér líður eins og hluti af hjarta mínu hafi verið rifinn út með svo nístandi sársauka og honum ætlar ekki að linna. Ég bíð eftir að vakna upp frá þessari martröð en ekkert gerist. Hvernig má þetta vera? Ég sakna þín svo mikið! Ég er svo þakklát fyrir að hafa sagt þér hversu ómetanlegur vinur þú varst mér, ég er svo þakklát fyrir að þú hafir vitað hvað mér þykir vænt um þig. Vildi að ég hefði sagt það oftar. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér á þann hátt sem við kynntumst og fyrir þann tíma sem við fengum. Það var svo gaman að vera í kringum þig, nærvera þín var alveg einstök. Það brást ekki að í hvert skipti er við töluðum saman eða hittumst brosti ég ósjálfrátt því þú varst sjarmör að eigin sögn sem var alveg rétt. Það var alltaf stutt í húmorinn, kaldhæðnina og stríðnina. Í hvert skipti er við hneyksluðum þig sem gerðist ósjaldan roðnaðir þú upp úr öllu valdi og stamaðir sem var svo yndislegt.

Bæta við leslista

Mig langar með nokkrum orðum að kveðja kæran vin og samstarfsfélaga.

Í byrjun apríl árið 2006 kom Guðni til mín í ráðningarviðtal. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á því hvaða mann hann hafði að geyma. Guðni var samviskusamur og vann sína vinnu af nákvæmni en það gat farið í taugarnar á honum ef menn voru með smámunasemi. Hann var fljótur að sjá heildarmyndina og átta sig á hlutunum. Guðni gegndi fyrst starfi sem þjónustufulltrúi í Smáralindarútibúi en fljótlega tók hann við starfi fyrirtækjasérfræðings. Við þá ráðningu varð samstarf okkar enn meira. Um haustið 2008 var ákveðið að loka útibúinu í Smáralind. Þegar mér var boðið að taka við öðru útibúi kom ekki annað til greina en að Guðni kæmi með mér yfir í útibúið í Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Það lýsir því best hvernig starfsmaður hann var hversu mikill fjöldi viðskiptavina ákvað að fylgja okkur í Bæjarhraunið. Ég vil þakka fyrir þann tíma sem við áttum saman í vinnu og síðast en ekki síst fyrir gleðina og húmorinn. Fótboltinn var oft til umræðu hjá okkur. Við gátum deilt um hæfni okkar manna. Guðni mikill aðdáandi Man. United og ég Poolari. Golf var líka sameiginlegt áhugamál. Ég vil þakka fyrir að hafa fengið að spila golfhring með þér og góðum vinum okkar á Hvaleyrarvelli rétt áður en ég fór í fríið.

Bæta við leslista

Hvernig kveður maður bróður sinn?

Bróður sem var allt í senn uppalandi, fyrirmynd, besti vinur, meðleigjandi og stoð og stytta. Bróður sem var manni allt. 

Bæta við leslista

Elskulegi sonur.

Ó hve sárt ég sakna þín. Á stundu sem þessari finnst mér hjart mitt kramið og erfitt að tjá tilfinningar mínar í fáum línum. Í raun þarf ég til þess heila bók eða bækur. Bréfið frá þér gaf mér skilning á líðan þinni og þeirri ákvörðun að vilja kveðja þennan heim. Það er sárar en tárum taki að svo ungur og glæsilegur drengur sem þú skildir bugast af sorg. Þú sem varst með hjartað á réttum stað og ávallt tilbúinn til þess að veita öðrum aðstoð. Þú elskaðir dætur þínar af öllu hjarta og þráðir að geta verið með þeim öllum stundum. Í gegnum tíðina hefur þú reynst mér og Dagnýju ómetanlegur styrkur. Í hvert skipti sem okkur skorti styrk gátum við leitað til þín. Ef til vill hefur þú gleymt sjálfum þér. Ef til vill hefðir þú getað brúkað sjálfur öll þau góðu ráð sem þú gafst mér og hjálpuðu mér að feta betri stig. 

Bæta við leslista

Það er svo sárt að þú sért farinn frá okkur

Minningarnar streyma um allar þær stundir sem við áttum saman. Tilhugsunin um að þær verða ekki fleiri er óbærileg. Þú varst alltaf svo skemmtilegur og ert ómissandi partur af vinahópnum.  Við söknum þín afar heitt, minning þín lifir í hjörtum okkar alla tíð.

Bæta við leslista

Fallinn er frá fallegur drengur með viðkvæma sál og hjarta úr gulli.

Hvernig er hægt að koma orðum að þeirri sorg og eftirsjá sem nú heltekur fjölskyldu og vini Guðna. Það er einfaldlega ekki hægt. Fallinn er frá fallegur drengur með viðkvæma sál og hjarta úr gulli. Elskulegur bróðir minn sem sagði múkk og tók við því með glotti þegar stóra systir kallaði hann frosk og litla lort. Leyfði okkur vinkonunum á Siglufirði að klæða sig upp í furðuföt gegn því að fá að leika með og þegar hann varð eldri þá óx úr grasi góður og kær vinur. Það voru ófá gólfin sem við pússuðum saman, margir veggir sem voru málaðir og ansi margir kassarnir sem bornir voru í tíðum búferlaflutningum mínum. Ókei, ég fékk alveg að heyra það að þetta væri nú í síðasta sinn en þegar kom að næsta flutningi þá var hann alltaf mættur með bros á vör og tilbúinn í slaginn. Hann kom mér einu sinni til að gráta tvisvar sama daginn. Fyrst með því að nota bílflautuna þegar honum leiddist biðin eftir kasóléttri systur sinni og nokkrum tímum síðar þegar hann færði mér fullkomna jólagjöf og orðsendingu með væntumþykju og kaldhæðnum húmor. Það er einmitt það sem einkenndi Guðna. Hans hjarta ólgaði af ást og hann kom því á framfæri með kaldhæðni. Við sem í kringum hann voru fórum ekki varhluta af þeirri stríðni og púkaskap sem honum gat dottið í hug enda elskuðu krakkarnir að vera með Guðna frænda. Missir okkar er því mikill og sorgin sár.

Bæta við leslista

Ég kveð þig alltof fljótt kæri vinur.

Ekki óraði mig fyrir því fyrir nokkrum dögum síðan að myndi sitja hér og skrifa þessi þungu kveðjuorð til þín.

Bæta við leslista

Ég man eitt kvöld síðsumars

Ég man eitt kvöld síðsumars að ég var kynntur fyrir nýja stráknum í hverfinu. Við náðum strax vel saman. Við sáðum fræinu að náinni vináttu. 

Bæta við leslista