no image

Fylgja minningarsíðu

Guðmundur Kristinn Guðjónsson

Fylgja minningarsíðu

6. október 1940 - 31. október 2011

Útför

Útför hefur farið fram.

Elsku pabbi minn

Elsku pabbi minn, ekki datt mér nú í hug þegar þú fórst með sjúkrabílnum á Norðfjörð að lífi þínu yrði lokið nokkrum klukkustundum síðar. Þú varst alltaf svo hress, fyrir utan þegar þú fékkst kransæðastífluna árið 1992, en eftir þá reynslu fannst mér þú öðlast nýja sýn á lífið og fara að njóta þess betur. Þér gat allt í einu dottið í hug eftir vinnu á föstudegi hvort þið mamma ættuð ekki bara að skreppa til Akureyrar yfir helgina og þá var bara pakkað í tösku og farið af stað. Þið nutuð þess líka að ferðast með hjólhýsið ykkar um landið og voru það ófá skiptin sem „Krákukotið“ var hengt aftan í bílinn með litlum fyrirvara og brunað af stað út í bláinn.

Bæta við leslista

Kæri bróðir

Kæri bróðir, við áttum síst von á því að fá fréttir af andláti þínu. Seinnipart mánudagsins 31. október var okkur tilkynnt þessi sorgarfrétt. Svona gerast hlutirnir skyndilega. Þú hafðir verið slappur einhverja daga með hitaslæðing, sem menn gera ekki mikið veður út af, en ert nú farinn til sumarlandsins, sem við hin eigum eftir að ferðast til. Þú varst elstur af okkur systkinunum frá Kolmúla, nýorðinn 71 árs, sem er ekki hár aldur í dag miðað við háan aldur föður okkar sem er 98 ára og eldhress. Þetta er gangur lífsins og ekki spurt um aldur. Gummi, eins og við kölluðum þig alltaf, fór ungur að vinna fyrir sér hingað og þangað. Við systkinin vorum stolt þegar þú komst heim á nýja bílnum þínum, hvítum Austin Gipsy-jeppa. Þú varst mikið snyrtimenni og ef óhreinindi féllu á bílinn varst þú kominn með bílinn í bæjarlækinn til að þvo hann. Okkur systkinunum var boðið í bíltúr á þjóðhátíðardaginn, lá leiðin yfir Staðarskarð og inn á Búðir til að taka þátt í hátíðarhöldunum þar. Við vorum mjög stolt af þér, þú varst í hvítri skyrtu með lakkrísbindi um hálsinn og á flottasta bíl sem við höfðum augum litið. Þessi bíll veitti þér mikið frelsi og varst þú mikið á rúntinum og í því að keyra vini þína og kunningja á böll. Þú varst laghentur og sést það vel á heimili þínu. Þegar fór að róast um í vinnunni hjá þér lærðirðu útskurð og skildir eftir þig marga og fallega hluti, ss. klukkur og fleira handverk. Þú hafðir mjög gott lag á börnum og hafðir gaman af að spjalla við frændsystkini þín og vini.

Bæta við leslista