no image

Fylgja minningarsíðu

Guðmundur Ásmundsson

Fylgja minningarsíðu

9. mars 1960 - 11. september 2022

Andlátstilkynning

Guðmundur Ásmundsson verkfræðingur lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar í Basking Ridge, New Jersey í Bandaríkjunum, 62 ára að aldri.

Útför

3. október 2022 - kl. 15:00

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ

Góður vinnufélagi kvaddur

Nei, nei, sagði höfuð mitt morguninn þegar ég heyrði fregnina. Það eru svo margar ókomnar samverustundirnar sem ekki verða að veruleika. Ég hugsaði oft til Guðmundar og Helgu í New Jersey og í huganum átti ég eftir að hitta Guðmund og hlæja með honum, jafnvel að spila enn einn leik í körfu við hann. Skemmtilegri og launfyndnari maður á góðri stund er vandfundinn.

no image

Bæta við leslista

Kveðja

Það eru þung sporin að fylgja honum Guðmundi bróður síðasta spölinn.  Kallið kom alltof snemma. Við Guðmundur ólumst upp saman í stórum systkinahópi í Grímsnesinu. Við vorum næst hvort öðru í aldri og lékum okkur því mikið saman. Eins og oft var til sveita var auk okkar systkina alltaf hópur barna í sumardvöl.  Það var því glatt á hjalla og mörg voru uppátækin. Við áttum okkar kindabú, þar var byggt stórt, hús byggð og vegir lagðir. 

Bæta við leslista

Mummi bróðir

Ellefti september er dagur sorgar vestanhafs. Þann mánaðardag lauk líka rúmlega árs baráttu Guðmundar bróður við miskunnarlaust krabbamein í höfði og hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar á heimili sínu í Bandaríkjunum. Heima á Íslandi kvöldið áður skartaði himininn blóðrauðum skýjum og ég ímyndaði mér að sú fegurð væri kveðja til Guðmundar frá föðurlandinu sem hann unni svo mjög. Þá var ljóst að tíminn væri á þrotum og að góði, elskulegi, duglegi, sterki og alltof ungi bróðir minn myndi lúta í lægra haldi fyrir ólæknandi sjúkdómi sem heltók hann nánast frá fyrstu stundu.

no image

Bæta við leslista

Hinsta kveðja frá Val og Siggu

Nú þegar hann Gummi vinur okkar hefur kvatt þennan jarðneska heim sækja að okkur minningar. Heimsóknir til New Jersey standa einhvern veginn upp úr. Golfhringur með Gumma, Helgu, Gulla og Sigrúnu á New Jersey National. Aðeins farið að hægjast á gömlu hjónunum en andinn í hópnum algerlega frábær. Gummi að snúast í eldhúsinu heima í Basking Ridge; egg og beikon á leiðinni og allt afslappað og heimilislegt. Golfmótið óborganlega sem þau Helga stóðu fyrir og haldið var með miklum glæsileika á Fiddler´s Elbow um árið. Hversu hratt og fumlaust Gummi náði í „birdie pelann“ þegar hann krækti í fugl á einni af erfiðustu holum vallarins á Fiddler´s Elbow. Sá fugl hafði víst eitthvað látið bíða eftir sér og gleðin var einlæg og meðspilurunum var veitt ríkulega. Gummi og Helga komin heim í hús eftir gleðilegan dag við útiveru og laxveiðar. Rætt um hvernig og hvar fiskurinn tók fluguna og líka rætt um þá fiska sem enn syntu frjálsir um ána.

Bæta við leslista

Kveðja frá Helgu þinni

Ástin mín,  það er svo sárt að þú sért farinn frá mér.  Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það sé bara rétt rúmt ár frá því að ég keyrði úr Haffjarðaránni upp á Bráðavakt, þar sem ég varð að skilja þig einan eftir og þú hringdir svo í mig um nóttina og sagðir að það hefði fundist æxli í heilanum þínum.  Það voru mikið erfiðar fréttir og daginn eftir hittum við lækninn á spítalanum og þá var okkur strax ljóst í hvað stefndi.  Þrátt fyrir aðgerð og meðferðir þá gaf krabbameinið þér engin grið.  Þú sem barðist svo hetjulega en allt kom fyrir ekki og það kom að því að við Hildur og Bjarki sátum hjá þér hér heima og fylgdum þér alla leið.   Við sem höfðum beðið og vonað að þú fengir tækifæri til að sjá litla drenginn sem Hildur og Bjarki eru að fara að eignast og að þú gætir fylgst með Ásgrími okkar blómstra í ameríska fótboltanum í skólanum sínum hér í Basking Ridge.  Þú varst minn lífsförunautur í nær 38 ár og við vorum gift í 28 ár.  Við gerðum svo margt saman,  fórum í háskóla í Bandaríkjunum, byggðum okkur hús í Garðabænum, fluttum til Sviss og Bandaríkjanna vegna vinnu,  ferðuðumst mikið og spiluðum golf.  Þú varst svo hugrakkur en að sama skapi skynsamur líka.  Ég var nú ekki alveg sannfærð um að fara til Bandaríkjanna í skóla en þú varst harður á því að við ættum að gera þetta.   Við myndum ekki bara ná okkur í góða menntun, heldur líka að kynnast því að búa í öðru landi og standa á eigin fótum.   Er ekki í vafa um það að þetta var ein besta ákvörðunin sem við tókum og við komum til baka enn sterkari.  Þegar það kom upp að við ættum kost á því að kaupa lóðina í Garðabænum, fannst mér það alveg galin hugmynd.  Enn og aftur náðir þú að sannfæra mig og þú lagðir nótt við dag til að koma upp fallega húsinu okkur.  Það tók sinn tíma enda höfðum við ákveðið að vera skynsöm í fjármálum og með þinni útsjónarsemi, seiglu og dugnaði, þá hafðist þetta allt saman.

no image

Bæta við leslista