Fylgja minningarsíðu
Guðlaugur Smári Ármannsson
Fylgja minningarsíðu
29. maí 1959 - 22. ágúst 2025
Andlátstilkynning
Guðlaugur Smári Ármannsson lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum Mosfellsbæ 22. ágúst 2025. Fæddur í Reykjavík 29 maí 1959, sonur Guðrúnar Guðlaugsdóttur og Ármanns Magnússonar.
Útför
Útför fór fram í kyrrþey.
Aðstandendur
Elín Einarsdóttir
Minning um Smára frænda
Í dag kveð ég elskulegan frænda minn Guðlaug Smára Ármannsson. Þegar hann var barn dvaldi hann oft á heimili mínu í lengri eða skemmri tíma og var það grunnur að góðri vináttu sem hélst alla tíð. Smári var mjög metnaðarfullur námsmaður og þar var aldrei slegið slöku við. Tónlist var aðal áhugamál hans og átti hann mikið safn af hljómplötum og geisladiskum. Þegar við vorum unglingar tók hann upp fyrir mig tónlist á segulbandsspólur og var afskaplega vandvirkur við það. Smári hóf nám við Samvinnuskólann á Bifröst 1978 og lauk stúdentsprófi frá Framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík 1981. Hann talaði oft um þennan tíma og fannst það vera eitt besta tímabil í lífi sínu. þegar hann var á fyrsta ári í Háskóla Íslands fór fyrst að bera á andlegum veikindum hjá honum sem hann komst aldrei yfir og markaði djúp spor á lífshlaup hans. Smári var orðinn mjög heilsuveill síðustu ár og var meira og minna inn á sjúkrahúsi síðan um páska 2025. Hann var sendur í hvíldarinnlögn á sjúkrahúsið á Blönduósi í endann á apríl og veikist þar af inflúensu og er í kjölfarið sendur á sjúkrahúsið á Akureyri. Þar með hafði ég tækifæri til að heimsækja hann og eru mér þessar heimsóknir mjög kærar minningar. Þrátt fyrir að hann væri fárveikur var alltaf stutt í húmorinn
Bæta við leslista
Kær vinur kvaddur
Haustið 1977 mætti sveitastrákurinn á Bifröst, bláeygður og opinmynntur. Það gekk mikið á fyrstu vikuna – eldri nemendur gáfu okkur lítinn grið, við vorum vakin upp nánast hverja nótt þar sem herjað var á okkur með kókosbollum, einhverju sem líktist laxerolíu, lestri úr samvinnubiblíunni og jafnvel mætti fallinn þýskur leiðtogi á svæðið. Þessi áreitni hafði þann undirliggjandi tilgang að þjappa okkur busunum saman sem hóp sem tókst ágætlega. Fljótlega fyrstu vikurnar fór ég að taka eftir stórum, luralegum slána í okkar hópi sem virkaði afskaplega afslappaður í erli dagsins enda frétti ég síðar að mottó hans var: Frestaðu því til morguns sem þú frestaðir til dagsins í gær. Hægt og rólega fór ég að kynnast honum betur og í gegnum Smára þroskaðist ég upp úr því að hlusta á Ríó Trío og The Lonly Blue Boys yfir í Thin Lizzy, Lynyrd Skynyrd, Pink Floyd, Ninu Hagen og Steely Dan, svo eitthvað sé nefnt af þeim ótal hljómsveitum sem Smári hafði á hávegum og er ég honum ævarandi þakklátur fyrir að opna augu sveitastráksins. Seinna árið á Bifröst var Smári formaður tónlistarklúbbsins og þar nýttist þekking hans og áhugi öllum nemendum til víkkunar tónlistarlegs sjóndeildarhrings. Það voru notalegar kvöldstundir í setustofunni þar sem Smári spilaði nýjustu plöturnar og við lágum á dýnum með teppi og nutum. Ein eftirminnileg uppákoma sem tengdist Smára á þessum tíma var þegar hann tók þátt í sönglagakeppni SVS, Bifróvision. Hann bjó sig í gervi Ree Bee Bee og vakti mikla lukku, keyrður inn á sviðið í hjólbörum og umvafin stórum hópi af grúppíum. Lagið var svo hans útfærsla á 16 candles og í minningu minni vann hann keppnina en líklega voru það ýkjur, enda missti ég af þessari stórgóðu uppákomu vegna anna á vegum ferðasjóðs nemenda.
Bæta við leslista