no image

Fylgja minningarsíðu

Guðbrandur Ágúst Þorkelsson

Fylgja minningarsíðu

13. janúar 1916 - 29. apríl 2002

Útför

Útför hefur farið fram.

Minning frá Sóley tengdadóttur

Kær tengdafaðir minn hefur kvatt þetta jarðneska líf en skilið eftir hjá okkur trú á hið góða og göfuga. Í raun var það hans ævistarf að rækta með samferðamönnum sínum einmitt þetta tvennt. Í gegnum lögreglustarfið gáfust mörg tækifæri til þess og það reyndi á margvíslega mannlega hæfileika, sem Guðbrandur hafði í ríkum mæli. Hann lagði sig fram við það starf eins og annað sem hann tók sér fyrir hendur. Jafnframt vildi hann nýta sér þekkingu sína sem járnsmiður. Hann vann gjarnan tvöfalda vinnu, bæði við lögreglustörf og járnsmíði. Þetta var þó iðulega samtvinnað því það sem hann smíðaði úr járni var eitt eða annað sem lögreglan þurfti á að halda fyrir búninga þeirra. Að loknum vinnudegi í lögreglunni fór hann iðulega að hamra járnin í vinnuherbergi heima hjá sér. Fékk lögreglan að njóta starfskrafta og mannkosta hans bæði við almenn lögreglustörf, síðar störf sem varðstjóri og jafnframt við þjálfun lögreglumanna. Guðbrandur átti margar minningar úr lögreglunni. Af frásögnum hans mátti ráða hversu vel gerður maður hann var. Hann sagði mér frá því að honum fannst það iðulega þýða lítið að nálgast erfiðar aðstæður á heimilum með ofstopa og látum heldur fremur af nærgætni og skilningi. Með skilning að vopni tel ég að hann hafi oft náð til einstaklinga og fjölskyldna í erfiðleikum og þannig stillt til friðar. Það hefur eflaust ekkert spillt fyrir hversu kraftalegur hann var, þótt hann hafi ekki beitt þeim kröftum, nema þegar á þurfti að halda. Efast ég þó um að margur hafi þorað að leggja í Guðbrand þar sem hann var þróttmikill og stæðilegur maður á velli og svipsterkur en umfram allt göfugur og góður maður.

Bæta við leslista

Minning frá barnabörnum

Elsku afi. Þú varst stór, sterkur og virðulegur maður og alltaf varstu okkur svo hlýr og góður. Þegar við vorum yngri var ekkert skemmtilegra en að fá að fara með þér út á Klambratún að leika. Við dáðumst að þér, af öllum verðlaunapeningunum þínum og hæfileikanum til að galdra fram karamellur úr vasanum. Það var alltaf gaman að koma á Háteigsveginn, skoða skipin þín og Andrésar andar blöðin. Okkur fannst þú vita allt, enda hikuðum við ekki við að sækja til þín fróðleik um hin ýmsu efni. Við erum þakklát fyrir að þú fékkst að sjá Sölku litlu og vitum að það var þér dýrmætt eins og það var dýrmætt fyrir þig og Mögnu litlu að eiga tíma saman. Þú hafðir alltaf eitthvað fallegt að segja við okkur og það var yndislegt að sjá hvað þú og amma voruð ástfangin og þú lést oft í ljós hvað þér fannst hún falleg.

no image

Bæta við leslista

Minning frá Einari Birni

Það eru ekki ákaflega mörg ár síðan okkur Guðbrandi Ágústi Þorkelssyni lá nokkuð á að verða ekki of seinir til flugs í Keflavík og þótt venjulegur hámarkshraði dygði nokkuð vel í tímanum voru aðstæður á leiðinni ekki þann veg að slíkt væri fýsilegt, varð því nokkuð að skeika að sköpuðu.

Bæta við leslista

Minning frá Guðný Önnu og Gauta

Klettur í hafi. Sjórinn allt í kring, stundum lygn og líðandi, stundum stórbrotinn og stríður. Alltaf sami kletturinn. Veðrast af ágangi hafsins í gegnum árin, en aldrei myndast sprunga eða varanleg skemmd. Veðrast eins og náttúran ætlast til. Verður fallegri ef eitthvað. Alltaf á sínum stað. Kletturinn í hafinu er sjófarendum skilmerki, vissan um hvar þeir eru staddir og hvert skuli halda þaðan í frá. Í ólgusjó er fátt kærkomnara en skilmerki, staðarmiðun, vegvísir. Í lygnum sjó og góðviðri er kletturinn augnayndi, brýtur upp óendanleika hafsins. Tilbreyting. Skemmtun.

Bæta við leslista

Minning frá Bjarka Elíassonar

Mér eru minnisstæð fyrstu kynni mín af Guðbrandi Þorkelssyni, en við hittumst fyrst er ég hóf störf í lögreglunni í Reykjavík á vakt Matthíasar Sveinbjörnssonar í mars 1954.

Bæta við leslista

Kær kveðja frá Ragnheiði Jónsdóttur

Þegar ég var lítil stelpa á Háteigsveginum var "Guðbrandur lögga" besti vinur bróður míns. Rúmum þrjátíu árum síðar þegar ég flutti aftur á Háteigsveginn með fjölskyldu minni var Guðbrandur ennþá góðvinur barnanna í húsunum í kring. Hann sýndi þeim vinsemd og áhuga, gerði uppörvandi athugasemdir við boltaspark þeirra og annað sýsl og bauð þeim inn til Friðriku til að fá hefðbundna karamellu í nestið. Hann fylgdist með börnunum stálpast og taka bílpróf og enn litu þau á hann sem vin sinn.

Bæta við leslista

Minning frá Friðrik Friðriki Ásmundasyni, Brekkan.

Fjölhæfur, duglegur og traustur maður er genginn. Mannlífið er fátækara. Guðbrandur lifir í minni minningu sem hreinskiptinn og góður maður. Ég man eftir Guðbrandi úr Háteigshverfinu, en ég bjó um tíma rétt við Háteigskirku, en kynntist honum og hans ágætu konu ekki fyrr en hann löngu síðar hóf störf hjá menningarstofnun Bandaríkjanna vestur á Neshaga við öryggis- og móttökustörf.

Bæta við leslista