Fylgja minningarsíðu
Friðrika Jóhannesdóttir
Fylgja minningarsíðu
23. september 1916 - 15. mars 2007
Útför
Útför hefur farið fram.
Minning frá tengdadætrum
Í friðsæld morgunsársins þegar allt var hljótt kvaddi tengdamóðir okkar þennan heim. Hún hafði fengið langa og gjöfula ævi. Sjálf hafði hún tekið á móti ýmsu andstreymi í lífinu af æðruleysi sem hún varðveitti með sjálfri sér. Hún hafði ung orðið berklaveik sem alla tíð setti mark sitt á líf hennar. Það gerði það að verkum að hún viðhafði ávallt mikla aðgæslu og gætti þess m.a. að hafa eitthvað hlýtt við brjóstkassann. Hún var almennt afar varfærin manneskja. Það var til dæmis einstakt að háöldruð konan gæti verið með súrefnissnúru í eftirdragi allan daginn síðustu árin án þess að af því hlytist slys. Hún gætti að snúrunni og greiddi úr vafningunum. Lét hún snúruna ekki aftra sér frá því að fara um á heimilinu til að horfa á uppáhaldsþættina í sjónvarpinu, fara fram í eldhús og elda sér mat eða hlusta á útvarpið. Hún fylgdist vel með því sem var að gerast og iðulega var það svo þegar maður kom að útvarpið var á fullu og vildi hún helst ekki lækka í því og alls ekki missa af neinum fréttatímum. Vissi hún jafnframt betur hvað væri í fréttum en við þar sem hún hafði hlustað á allar fréttirnar yfir daginn, bæði í sjónvarpi og útvarpi. Auk þess hafði hún mikinn áhuga á að fá fréttir af fjölskyldunni og gladdist yfir smáum sem stórum sigrum. Hún var einstaklega talnaglögg og kunni öll símanúmer Landspítalans utan að þegar hún vann á skiptiborði hans á árum áður. Eins fannst henni gaman að fara yfir kvittanir þegar eitthvað var keypt inn fyrir hana og setti gjarnan út á það ef hluturinn var of dýr miðað við annars staðar. Reglusemi var mikil á heimilinu. Hver hlutur átti sinn stað á Háteigsveginum og ef hún sendi mann til dæmis til að ná í eitthvað í saumaborðinu hennar þá gat hún nákvæmlega sagt hvar það var. Það stóð heima. Þar var hluturinn. Það þýddi því lítt að raða hlutunum vitlaust í skápana hjá tengdamömmu eftir veislur á Háteigsveginum. Það var ljóst að heimilið var henni dýrmætt. Heimili, sem hún hafði skapað með manni sínum, drengjum og tengdaforeldrum. Það stendur enn í dag og hefur hún hlúð að því í tæp 62 ár. Það þarf mikið viljaþrek, styrk og heilsu til að geta haldið heimili þegar komið er á níræðisaldur og þar yfir. Hún gerði það. Síðustu árin án samfylgdar maka síns. Hún var mjög ákveðin hvernig hún vildi hafa hlutina og var ekkert að skafa utan af því hvað henni fannst um menn og málefni. Meðal annars hafnaði hún öllum hugmyndum um aðsendan mat og hafði engan áhuga á því að fara á elliheimili sem væri bara fyrir gamla fólkið. Ákveðni hennar var sérstök og hvernig hún kom hugsunum sínum á framfæri. Það var yfirleitt ekki hennar stíll að vera að setja hugsanir og orð í einhvern skrautbúning.
Bæta við leslista
Minning frá Friðriku Björk
Elsku amma! Nú ertu með afa. Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann þessa dagana og ég er svo þakklát fyrir allt sem við áttum saman. Eins og allar stundirnar sem við sátum saman að spjalla yfir bolla af kakói í eldhúsinu, með annað augað á Háteigsveginum og lífinu fyrir utan. Og tímarnir þar sem ég fékk að klippa á þér hárið, þetta fallega, þykka, hvíta hár, sem við vorum báðar svo ánægðar með. Við vorum eins og tvær Friðrikur einar í heiminum í holinu á Háteigsvegi 28 og mér þykir svo vænt um að hafa átt þennan tíma með þér. Hann verður aldrei frá okkur tekinn.
Bæta við leslista
Minning frá Guðný Önnu
Innandyra á númer 28 hefur heiðríkja huga og hjarta ríkt áratugum saman. Mér hefur alltaf þótt sérstakur stíll yfir því að búa við Háteigsveg númer 28 og hafa símanúmerið 10748, sem síðar breyttist í 551-0748. Þegar Guðbrandur svaraði með sinni alkunnu bassaraust í símann, vissi maður að hnötturinn héldi áfram að snúast – allavega þann daginn. Síðar hætti hann að svara í símann – og Fía tók við. Og hnötturinn hélt áfram að snúast. Alltaf tók hún þeim sem hringdi innilega. Þá tók hún gestum og gangandi ekki síður fagnandi og fannst alltaf hér áður fyrr, að þá væri nú tækifæri til að gera sér glaðan dag yfir mat, drykk, kaffi og kruðeríi.
Bæta við leslista