no image

Fylgja minningarsíðu

Erla Ólafsdóttir

Fylgja minningarsíðu

12. apríl 1937 - 16. júní 2023

Útför

Útför hefur farið fram.

Elsku besta fallega mamma

Elsku, besta og fallega mamma okkar er dáin. Höndin þín var alltaf til staðar, útrétt og verndandi, hönd sem hægt var að halda í þegar svefninn var lengi að koma, hönd sem lyfti upp sæng ef við vildum skríða upp í og hönd sem hægt var að teyma þegar fara þurfti á klósett um miðja nótt, stundum með viðkomu í eldhúsinu. Æskan, þar sem hver dagur endaði með að sængin var hrist fyrir háttinn og breidd yfir okkur. Trú á að við myndum gera það rétta og öll þín ást var skilyrðislaus. Alltaf tilbúin að gefa en áttir erfiðara með að þiggja. Duglega og kraftmikla mamma okkar; alltaf útivinnandi samhliða því að ala upp uppátækjasama krakka, alltaf að flýta þér hlaupandi við fót heim í hádeginu til að gefa okkur að borða og svo hlaupið af stað aftur í vinnuna. Samt einhvern veginn svo endalaus tími til að koma hlutum í framkvæmd, sauma jólafötin, grímubúninga, lesa allt námsefni fyrir próf upphátt fyrir yngsta barnið, endalaust að breyta og bæta á heimilinu, prjóna á barnabörnin þegar þau komu í heiminn og eftir þig liggur falleg handavinna sem allir þínir afkomendur njóta góðs af. Mamma, íþróttaálfur, sem stundaðir bæði frjálsar og handbolta á æskuslóðunum á Patró. Elskaðir að hreyfa þig, að dansa og ganga og tókst þátt í göngum, línudansi og sundi með eldri borgurum eins lengi og heilsan leyfði. Alltaf til í að taka þátt í leikjum og sprelli. Minnisstæð eru systkinamótin, alveg frá árinu 1975, þar sem fastur liður var leikir við okkur krakkana, brennibolti, stórfiskaleikur, keppnir í ýmsum þrautum þar sem keppnisskap, leikgleði og ættarþrjóska ykkar systkinanna kom í ljós. Síðasta systkinamótið fyrir örfáum árum þar sem þér datt ekki annað í hug en að taka þátt í leik en með þeim afleiðingum að þú dast og brotnaðir. Aldrei til í að sitja á bekknum! Öflugur stuðningsmaður íslenska handboltalandliðsins og misstir ekki af leik. Umhyggjusama mamma okkar, sem stundaðir hjúkrunarstarfið af alúð og mörg eru fallegu ummælin sem um þig voru höfð í starfi. Ástríka amma þar sem barnabörnin höfðu öll sitt pláss og þú alltaf tilbúin að taka þátt í því sem þau voru að fást við. Gleðin yfir barnabarnabörnunum sem þér fannst svo gaman að fá í heimsókn. Minnisstæð eru matarboðin þar sem alltaf var verið að prófa nýjar uppskriftir, sem flestar mistókust að þínu mati, og hversu fallega allt var fram borið. Ástkæra mamma okkar, umhyggjusöm undir það síðasta þar sem þú hafðir áhyggjur af því að við færum nú að koma okkur heim því nóg væri að gera þar. Dagarnir þar sem við fengum tækifæri til að halda í þína hönd, þakka þér fyrir allt sem þú varst okkur og fyrir það lán að hafa verið elskuð af þér fram á síðasta dag.

no image

Bæta við leslista